Björnssteinn á Rifi í hirðuleysi og sóðaskap

IMGL2893 baEkki er mikil virðing borin fyrir sögulegum atburðum og stöðum í Snæfellsbæ ef marka má nánasta umhverfi Björnssteins. Það er sveitarfélaginu til skammar.

Sagan er víða nútímanum falin og þarf nokkra þekkingu á henni og staðháttum til að átta sig á vettvangi atburðanna.

Björnssteinn er ekki beinlínis falinn en allt umhverfi hans bendir síst af öllu til þess að stjórnendum sveitarfélagsins sé annt um söguna.

Á Rifi gerðist sá atburður árið 1467 að enskir kaupmenn drápu Björn Þorleifsson hirðstjóra Danakonungs, son hans og sex aðra í hörðum bardaga. Sagt er að hann hafi verið drepinn upp við stóran stein sem síðan hefur verið nefndur er Björnssteinn (Bjarnarsteinn).

Skilti 1Nú er umhverfið við þennan fornfræga stað með ólíkindum ómerkilegt og sóðalegt. Ekkert nema tvö gömul og ómerkileg skilti; ryðguð, fúin og skemmd. Allt er þarna svo lítilsháttar og andstyggilegt, engin virðing.

Í Morgunblaðinu þann 2. apríl 1965 segir í nafnlausum pistli:

Eins og sjá má hefir ýmsu drasli verið hrúgað að steininum, tómum tunnum o. fl., og sýnir það að menn gerðu sér ekki ljóst, að þetta var merkur minnisvarði, enda þótt engin áletran væri á honum.

Síðan hefir þetta breyzt. Sandurinn, sem dælt var upp úr höfninni hefir verið notaður til uppfyllingar á stóru svæði, og nú hefir hann fært Bjarnarstein í kaf, svo rétt aðeins örlar á hann. Hér gerist sama sagan og víða annars staðar, algjört virðingarleysi fyrir fornum sögustöðum. Þó var hægurinn hjá hér, að skilja eftir dálitla kvos umhverfis steininn, svo að hann gæti „haldið velli um aldir“.

Manni verður á að spyrja: Er bráðnauðsynlegt að framkvæmdir hins nýa tíma brjóti niður og afmái sögulegar minjar? Er hér ekki fremur um kæruleysi og trassaskap að ræða, heldur en brýna nauðsyn?

Þessu tilfelli er þó ekki stór skaði skeður enn, því að næsta kynslóða mun grafa um Bjarnarstein og ganga sæmilega frá honum. Og þegar Rif er orðið stórt þorp, munu þorpsbúar benda með stolti á Bjarnarstein, hinn merka minnisvarða, og ef til vill letra nafn Bjarnar hirðstjóra á hann.

Skilti 2Höfundur pistilsins átti kollgátuna. Næsta kynslóð gróf upp Björnsstein og hlóð garð í kringum hann og notaði til þess lábarið grjót. En sagan er ekki þar með öll sögð. Þarnæsta kynslóð gleymdi staðnum og hún og afkomendur hennar vita fátt um hann, láta hann drabbast niður. Enginn bendir ferðamönnum á Björnsstein því stolt heimamanna er löngu týnt og tapað, metnaðurinn enginn.

Hvað þarf til að stjórnendur Snæfellsbæjar ranki við sér og komist til meðvitundar um sögustaði innan sveitarfélagsins?

Ekki aðeins Björnssteinn er gleymdur heldur er vettvangur Eyrbyggju einskis metinn. Týndur er Björn Breiðvíkingakappi Ásbrandsson, löngu horfinn úr minni þeirra sem ráða. Sem og Þuríður Barkardóttur húsfreyja á Fróðá, Katla í Holti, Oddur Kötluson, Þorbjörn digri, Þórir viðleggur, Þorgríma galdrakinn og Geirríður Þórólfsdóttir svo örfá nöfn úr Eyrbyggju á þessum slóðum séu nefnd. Þannig er þetta því miður víða um land.

Raunar er fátt sem minnir á söguna annað en Sjóminjasafnið. Þess utan er henni lítil skil gerð í Snæfellsbæ. Sveitarfélagið er víðfeðmt og þar er mikil náttúrufegurð en hún er ekki nóg ef sagan er týnd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband