Kalla eftir, vél er hetja og rúllandi steinar

Orðlof

Orðsporshrun Fjármálaeftirlitsins

Nýlega (10.4.2018) birti Fjármálaeftirlitið skjal á heimasíðu sinni undir heitinu:

Niðurstaða athugunar á ferli fjárfestingar Frjálsa lífeyrissjóðsins í Sameinuðu sílikoni hf.

Ekki var það efnið sem vakti athygli mína heldur stíll og framsetning en í skjalinu stendur m.a. (leturbreytingar mínar):

Með hliðsjón af hinu sérstaka rekstrarfyrirkomulagi lífeyrissjóðsins og hagsmunatengslum rekstraraðila lífeyrissjóðsins við umrædda fjárfestingu var niðurstaða athugunarinnar sú að lífeyrissjóðurinn hefði ekki horft nógu gagnrýnum augum á þau hagsmunatengsl sem voru til staðar við fjárfestingu í Sameinuðu sílikoni og af þeim sökum ekki tekið fullnægjandi tillit til þeirrar orðsporsáhættu sem lífeyrissjóðurinn stóð frammi fyrir vegna þessa. Þá taldi stofnunin að skjalfesting á forsendum og umræðum í tengslum við ákvörðun stjórnar hefði verið verið ófullnægjandi í ljósi þess að lífeyrissjóðurinn og rekstraraðili hans voru báðir hagsmunaaðilar að verkefninu.

Enn fremur segir í skjalinu:

Þá fór Fjármálaeftirlitið fram á að lífeyrissjóðurinn gripi til ráðstafana til að lágmarka orðsporsáhættu vegna hagsmunatengsla sjóðsins og rekstraraðila og endurskoðaði verklag sitt, svo sem með stefnu um hvenær óskað er eftir utanaðkomandi greiningum á fýsileika og áhættu fjárfestinga og hvernig fjárfestingaferli lífeyrissjóðsins skuli háttað þegar rekstraraðili eða aðilar honum tengdir eru einnig haghafar að verkefnum.

Óþarft er að fjölyrða um einstök atriði úr þessu makalausa skjali en ég fæ ekki betur séð en með frekari skrifum af þessum toga gæti Fjármálaeftirlitið staðið frammi fyrir ’orðsporstapi’ ef ekki ’orðsporshruni’.

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… segir að staða samgöngumála á svæðinu hamli byggðaþróun og kallar eftir göngum á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Allir sem lesa fréttina vita að „svæðið“ er í Álftafirði og Skutulsfirði og í þeim síðanefnda er Ísafjörður. Staða samöngumála þarna hamlar varla byggðaþróun annars staðar á landinu. Nafnorðið „svæði“ er því óþarft.

Orðalagið „að kalla eftir“ er skelfilega máttlaust, loðið og segir varla neitt. Sá sem „kallar eftir“ göngum milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar er að óska eftir þeim, biðja um þau, krefjast þeirra, heimta og svo framvegis. 

Sama er með orðalagið „að biðla til“ sem er jafn máttlaust, loðið og tilgangslítið í flestum tilfellum. Betra er að biðja, óska, hvetja til, skora á, örva, eggja, brýna og svo framvegis.

Tillaga: … segir að staða samgöngumála hamli byggðaþróun og óskar eftir göngum milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

2.

„Að sögn Þorvalds Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Háskólabíós, var öryggiskerfið hetja dagsins.“

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 6.7.20.                                

Athugasemd: Vél getur ekki verið hetja. Hér hefði farið betur á því að segja að öryggiskerfið hefði bjargað miklu, jafnvel deginum. Aðeins fólk getur verið hetjur.

Á málið.is er Íslensk orðsifjabók og þar segir um hetju:

kappi, hraustmenni, hugrakkur maður […] Upphafl. merk. e.t.v. ’ofsækjandi, víðförull vígamaður’ e.þ.u.l.

Mikilvægt er að haga orðum eftir tilefni. Vélar og tæki gera aðeins það sem þau eru forrituð til, annars eru þau biluð. Reykskynjari fer í gang þegar hann skynjar reyk. Varla getur öryggiskerfið verið kappi, hraustmenni eða hugrakkur maður.

Blaðamaður á að vita að viðmælendur tala ekki alltaf gullaldarmál og verkefni hans er að lagfæra málfar, ekki dreifa ambögu, en orðið merkir rangmæli, klaufalegt orðfæri, mismæli.

Tillaga: Að sögn Þorvalds Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Háskólabíós, bjargaði öryggiskerfið miklu.

3.

„Það geta auðveldlega rúllað steinar frá fólki sem er á ferðinni …“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Steinar sem losna í björgum eða hlíðum falla. Líklega „rúlla“ þeir á leiðinni, hvað annað. Steinn sem rúllar er frekar sakleysilegur og hættulítill. Annað mál er þegar hann er í brattri hlíð, þá fellur hann með vaxandi hraða.

Tillaga: Fólk í fjallgöngu getur losað um steina og þeir fallið …

4.

„Ákærður fyrir nauðgun gegn fjórum konum.“

Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 7.7.20.                              

Athugasemd: Hér á ekki nafnorðið við. Skýrara er að nota sögnina að nauðga. Margir blaðamenn eiga það til að nota nafnorð í stað sagnar. Oftast er það ekki gott.

Tillaga: Ákærður fyrir að nauðga fjórum konum.

5.

„Daniels lék sjálfur á fiðluna af mikilli hind …“

Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 8.7.20.                              

Athugasemd: Hér kemur fyrir ókunnuglegt orð, í það minnsta er það ekki er þekkt í þessu samhengi. Hind er kvendýr hjartar en þar með er ekki öll sagan sögð. Á málið.is segir:

Hind kv. (16. öld) ’hagleikur, kunnátta, list; auðmýkt’.

Líklegt er að fáum sé kunnugt um þessa merkingu orðsins.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband