Skuldum breytt í lausafé, lærisveinn og koma landi á lappirnar

Orðlof

Málmengun

Sú árátta færist mjög í vöxt í ræðu, frásögn og samtali að sá er orðið hefur segir, sennilega að segja viðmælanda sínum, „þú veist „ Mér verður þá oftar en ekki spurn; hvurn fjandann? Til hvers að segja mér eitthvað sem ég veit?

Eitt sinn var alþingismaður á nefndarfundi og virtist ætla að spyrja gest fundarins, en flutti fyrst langa og óskiljanlega ræðu, þar sem „þú veist“ kom fyrir níu sinnum, en svo kom spurningin; mér langar að spyrja.

Ráðherrar koma í sjónvarpsþætti og troða inn „þú veist“, sennilega vegna þess að hugsun er í ólagi, oftar en tölu verður á komið.

Og Rotary- og Lionsfundir eru svipuðu marki brenndir; ræðumenn segja „þú veist“.

„Hvern fjandann veit ég?“

Sennilega er „þú veist „ til að tjá yfirburðaþekkingu á íslensku, ellegar er sagt „you know“. Ef til vill er ég gamall geðvondur karl, en ég á minn rétt þegar málmengun skekur eyru.

Vilhjálmur Bjarnason. Morgunblaðið 30.4.20, blaðsíða 34.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Til að þrauka þarf félagið að breyta 1,2 milljörðum dollara […] af skuldum í lausafé …“

Frétt á visir.is.                           

Athugasemd: Fréttin fjallar fjárhagsvanda norska flugfélag Norwegian. Fullyrt er að breyta þurfi skuldum í lausafé. Von er að lesendur reki upp stór augu. Hvernig er það hægt?

Svarið er einfalt, þetta er ekki hægt. Blaðamaðurinn skilur ekki það sem hann er að skrifa um. 

Í heild er málsgreinin svona:

Til að þrauka þarf félagið að breyta 1,2 milljörðum dollara, sem samsvarar um 175,2 milljörðum íslenskra króna, af skuldum í lausafé auk þess sem stærstur eignarhluti í félaginu mun vera í höndum skuldabréfahafa og leigusala, verði aðgerðapakkinn samþykktur af hluthöfum og skuldareigendum.

Þetta er illa skrifað. „Skuldareigendur“ eru venjulega kallaðir lánadrottnar eða kröfuhafar. Þeir eiga ekki neinn hlut í félaginu en eiga kröfu á það vegna lána eða leigu. 

Heimildin er vefsíða Reuters og þar segir:

The carrier may run out of cash by mid-May unless its plan, which involves a swap of up to $1.2 billion of debt into equity and hands over most of the ownership of the firm to lessors and bondholders, is approved by creditors and shareholders.

Í stuttu máli segir Reuters að breyta eigi 1,2 milljörðum dollara í hlutafé, ekki lausafé. Í því liggur alvarlegasta villa blaðamanns Vísis. 

Á vef Ríkisútvarpsins er frétt um Norwegian og þar segir:

Lokafrestur lánadrottnar Norwegian til að samþykkja breyta lánum í hlutafé er runninn út án þess að niðurstaða liggi fyrir. Samþykki þeir það ekki blasi gjaldþrot við.

Fréttamaðurinn fer rétt með. Ekki sá á Vísi. 

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Er Heim­ir sagður vera með hærri laun en læri­sveinn sinn Aron Ein­ar Gunn­ars­son, sem leik­ur með liðinu.“

Frétt á mbl.is.                           

Athugasemd: Heimir Hallgrímsson er menntaður tannlæknir og er líka þjálfari Al-Ar­abi í Kat­ar. Með sama liði leikur Aron Einar. Í ljósi orðalagsins get ég mér þess til að hann læri jafnframt tannlækningar hjá þjálfara liðsins.

Auðvitað er kennarinn með hærri laun en lærisveinninn þar sem hann bæði kennir og þjálfar. Annað hvort væri það nú.

Annars er fréttin ekki nógu góð. Lesandinn þarf að geta sér þess til hvað Heimir er að kenna lærisveini sínum.

Best að sleppa allri kaldhæðni. Blaðamaðurinn fær falleinkunn fyrir að kalla leikmann liðs lærisvein. Hann er það ekki, þetta er þvílíkt bull að engu tali tekur. Aron er leikamaður ekki lærisveinn. Blaðamaðurinn hefur ekkert leyfi til að breyta íslensku. Er hann kannski lærisveinn Davíðs Oddssonar? Sé svo ætti hann að taka skrif læriföður sín sér til fyrirmyndar.

TillagaHeimir er sagður vera með hærri laun en Aron Einar Gunnarsson sem leikur með liðinu.

3.

Hafa sett á ís mörg verkefni.“

Fyrirsögn á visir.is.                           

Athugasemd: Þetta er skrýtin orðaröð í setningu. Engin talar svona, enginn skrifar svona. Hvernig stendur þá á því að blaðamaðurinn gerir þetta?

Orðtakið „að setja eitthvað á ís“ merkir að geyma eða fresta einhverju. 

Yfirleitt hefur fólk það á tilfinningunni hvernig eigi að tala og skrifa íslensku, við þurfum ekki fræðilegar skilgreiningar á framsetningu máls. Enginn með sæmilega málkennd þarf að kunna skil á frumlagi, andlagi, germynd eða viðtengingarhætti. Syndur maður grípur ósjálfrátt sundtökin falli hann í vatn.

Yfirleitt er mælt með því að skrifa einfalt mál, ekki nota orðtök og málshætti sem skrifarinn skilur ekki til fulls. Hér hefði til dæmis verið tilvalið að segja að mörgum verkefnum hafi verið frestað.

Furðulegt er að enginn í ritstjórninni skuli leiðbeina blaðamanninum sem greinilega er ekki vanur skrifum.

Tillaga: Mörg verkefni hafa verið sett á ís.

4.

Sonurinn nefndur í höfuð lækna sem björguðu lífið Boris.

Fyrirsögn á visir.is.                           

Athugasemd: Fljótfærnin er að gera út af við suma blaðamenn. Þeim leiðist líklega svo mikið að þeir gera hvað sem er til að komast í kaffi. Enginn  blaðamaðurinn með sjálfsvirðingu les yfir skrif félaga sinna og leiðbeina. Öllum er alveg sama um lesendur. 

Tillaga: Sonurinn nefndur í höfuð lækna sem björguðu lífi Borisar.

5.

„En ég finn einnig fyr­ir mik­ill þörf fyr­ir að koma landinu aft­ur á lappirn­ar, halda áfram eins og við erum fær um og ég er sann­færður um að við kom­umst þangað.“

Frétt á mbl.is.                          

Athugasemd: Ofangreint er grautmáttlaus þýðing úr ensku.

Á vef BBC segir:

But I am also driven by an overwhelming desire to get our country as a whole back on its feet, healthy again, going forward in a way that we can and I’m very confident we’ll get there.

Blaðamaðurinn þýðir samviskusamlega og niðurstaðan verður málsgrein sem byggir á nafnorðum ekki sagnorðum, sem sagt enskt orðalag. „Back on its feet“ er þýtt svona; „koma landinu aftur á lappirnar“. Þvílík andleg flatneskja, lágkúra.

Orðalagið „we’ll get there“ er ekki hægt að þýða beint. Það sem viðmælandinn á við er að markmiðinu verði náð, ekki þannig að farið verði í strætó frá einum stað til annars. 

Tillaga: Mér finnst mikilvægast að koma landinu aftur á réttan kjöl, þjóðin nái heilsu. svo við getum haldið áfram og ég er sannfærður um að okkur tekst það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband