Byrja að deyja, félagsforðun og undir rannsókn
30.4.2020 | 16:24
Orðlof
Stakyrði
Eitt einkenna íslenskrar tungu er hve flókin hún er og stafar það ekki síst af hvers kyns óreglu og undantekningum á sviði beygingar- og setningafræði.
Prófessor Hans heitinn Kuhn benti þeim sem þetta ritar á þetta í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og taldi hann að miklu erfiðara væri að læra íslensku en önnur mál sem hann þekkti en það mætti einmitt rekja til undantekninganna.
Á alllangri starfsævi tel eg mig hafa sannreynt að Hans Kuhn hafði rétt fyrir sér.
Í flestum málum er það svo að litlir beygingarflokkar deyja drottni sínum en í íslensku er því á annan veg háttað, fjölmörg orð eru stakyrði í þeim skilningi að ekkert orð beygist eins, t.d. alin, dagur, guð og megin. Sama er upp á teningnum á sviði setningafræði. [ ]
Jón G. Friðjónsson. Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
og að útlit sé fyrir að margir séu byrjaðir að deyja á heimilum sínum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sá sem er byrjaður að deyja hlýtur með öðrum orðum að liggja banaleguna. Orðalagið er frekar kjánalegt. Með sögninni að deyja er varla hægt að nota byrja. Verið getur að einhver sé að byrja að smíða hús, byrja að taka til, byrja æfingar.
Í heimildinni Ap News segir:
a growing number of victims are now dying at home.
Þarna segir ekkert um að fólk sé byrjað að deyja, aðeins að fólk sé að deyja í heimahúsum.
Tillaga: og að útlit sé fyrir að margir séu að deyja á heimilum sínum.
2.
Auðjöfurinn Elon Musk var harðorður gagnvart félagsforðun og
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Var maðurinn ekki haðrorður um félagsforðun? Stundum er ekkert eitt réttast. Smekkur skiptir máli.
Gagnvart er forsetning rétt eins og um. Orðið var upphaflega gagnverður, það er á móti eins og segir í Málfarsbankanum. Nokkur dæmi eru tilgreind þar en svo segir:
Í tilgreindum dæmum öllum virðist merking forsetninganna gagnvert, gagnvart vera bein, það er andspænis; á móti, en í síðari alda máli hefur merkingin breyst.
Mælt er með því að lesendur kynni sér nánar það sem Jón G. Friðjónsson segir þarna í Málfarsbankanum.
Tillaga: Auðjöfurinn Elon Musk var harðorður um félagsforðun og
3.
Félagsforðun
Nýyrði um lágmarksfjarlægð milli fólks vegna smits.
Athugasemd: Félagsforðun er afar stirt orð. Ekkert jákvætt í því eða hjálplegt. Engu er líkar en að ætlunin sé að maður eigi að forðast félagsskap annarra en það er ekki svo.
Stundum finnst manni að nýyrði eða nýtt orðalag sem nær hljómgrunni meðal almennins sé samið af einhverjum með takmarkaðan orðaforða eða lítinn málskilning. Nefna má orð eins og ábreiða (notað um útgáfu tónverka), njóttu dagsins, tímapunktur og fleira dót.
Á Nýyrðavef Stofnunar Árna Magnússonar eru þessi samheiti gefin:
fjarlægðarmörk, félagsleg fjarlægð, bil, bil á milli fólks, fárými, félagsbil, félagsfjarlægð, félagsfjærni, félagsforðun, félagsgrið, félagsnánd, fjarrými, fjarstaða, fjarstæða, frákví, frávist, frávígi, friðrými, heilsurými, hæfileg fjarlægð, lýðhelgi, lýðrými, mannhelgi, millibilsástand, nándarmörk, náunganánd, olnbogarými, rými, rýmisfirð, rýmisforðun, rýmisnánd, rýmistóm, samskiptafjarlægð, seiling, smitbil, smitfirð, smithelgi, smitnánd, smitrýmd, snertibil, snertilaust svæði, sóttvarnabil, sóttvarnafjarlægð, sýkingarfjarlægð, sýkingarmörk, tveggja metra reglan, tveggjaseilingahaf, viðtalsbil, víðisfjarri, nándarbil, nálægðarbann
Mér finnst þessi þrjú betri en félagsforðun:
- nándarbil
- nándarmörk
- heilsurými
Orðin taka á svokallaðri tveggja metra reglu, eru frekar jákvæð, en ekki er ætlunin að koma í veg fyrir öll samskipti eins og hið kaldranalega orð félagsforðun.
Tillaga: Nándarbil.
3.
Kennari er nú undir rannsókn fyrir að öskra á nemendur og
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hvað er átt við með orðalaginu að vera undir rannsókn? Skyldi þetta vera þýðing úr ensku? Ju, ég og fleiri sem horfa alltof mikið á leynilöggumyndir í sjónvarpi eða bíó könnumst við enska orðalagið:
Teacher is now under investigation for screaming at students and
Blaðamaðurinn þýðir hvert einast orð og hvikar hvergi frá röðun þeirra. Þetta er ensk íslenska. Á íslensku er ekki hægt að segja að konan í fréttinni sé undir rannsókn. Þó er hægt að nota segja að fólk liggi undir grun.
Leyfum okkur að þýða merkinguna á íslenskum, hristum af okkur hlekkina.
Tillaga: Lögreglan er að rannsaka konu sem öskraði á nemendur og
4.
Ekkert bendi til þess á þessum tímapunkti að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Það er ljóta orðið þessi tímapunktur. Hér freistast blaðamaðurinn til að nota það og þar af leiðandi lendir hann í nástöðu með þess og þessum.
Ég kalla orðið tímapunkt ljótt vegna þess að það er eiginlega vita gagnslaust og þar að auki mikið notað af blaðamönnum. Í flestum tilvikum má sleppa orðinu, rétt eins og gert er hér fyrir neðan. Merking málsgreinarinnar breytist ekki hætis hót.
Tillaga: Ekkert bendi til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.