Fylla á afurð, lærð viðhorf og sláandi staðreyndir.

Orðlof

Rétt mál

Austurríkismaðurinn Ludwig Wittgestein, sem er einn fremsti málvísindamaður síðustu aldar og margir heimspekingar sækja hugmyndir sínar til, fékkst við greiningu á daglegu máli, einkum hlutverkum orða og notkunarsamhengi þeirra. 

Grundvallarkenning Wittgensteins og fylgismanna hans er sú, að orð hafi merkingu, þegar þau eru notuð á eðlilegan hátt, en séu merkingarleysa þegar þau stangast á við venjulega málnotkun og tungumálið hafi merkingu þegar notkun þess er í samræmi við þær reglur sem um tungumálið gilda. 

Minnir þessi kenning rökgreiningarheimspekinga, eins og þeir eru kallaðir, á kenningar málræktar- og málverndarmanna um rétt mál og rangt: að rétt mál sé í samræmi við reglur málsins.

Vikudagur, Tryggvi Gíslason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Tryggvi: Mjög gott að komast að­eins heim og fylla á af­urðinaheiman.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Þetta er slæm fyrirsögn, stenst ekki rökhugsun og er þar af leiðandi tómt bull. Með hverju ætlar hann að „fylla á afurðina“?

Svo talar enginn og hafi viðmælandi blaðamannsins sagt þetta ber honum skylda til að lagfæra orðalagið. Blaðamenn eiga ekki að dreifa bulli heldur fréttum sem eru vel orðaðar. 

Allt bendir til að manninum þyki gott að fá íslenskan mat. Sé svo, af hverju er það ekki sagt frekar en að flækja sig í orðaþvælu.

Þar fyrir utan er nástaða í fyrirsögninni, heim og heiman. Getur blaðamaðurinn ekki gert betur?

Í fréttinni segir:

Þetta kemur mjög mikið af vörninni, um leið og við náum að læsa þeim og loka á það sem þeir eru að leita að þá náum við að ráðast á þá.

Ég hef áhuga á körfubolta en skil ekki þetta. Sé hægt að segja þetta svo ég skilji af hverju er þá verið að þvæla svona?

Tillaga: Tryggvi: Gott að komast heim og fá íslenskan mat.

2.

„Meginþungi góðrar stjórnunar eru lærð viðhorf og hegðun.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Ég hef aldrei heyrt getið um „lærð viðhorf“ né „lærða hegðun“. Viðhorf og skoðun eru nátengd hugtök og byggja á því sem einstaklingnum finnst og það snertir hegðun hans. 

Varla er hægt að segja að viðhorf séu lærð. Með því lendum við í heimspekilegum vangaveltum um hvaðan skilningur kemur og hvernig viðhorf myndast. Í stuttu máli höfum við lært allt sem við vitum, ekkert er meðfætt. Á grundvelli þess sem við lærum byggist upp viðhorf og skoðun.

Mig grunar að hér hafi viðmælandi blaðamannsins þýtt erlent orðalag á þennan hátt. Líklega hefði verið betra að tala um þekkingu, hún er nær því að teljast „lærð“. Hins vegar er ýmis konar hegðun „lærð“, þó tölum við um áunna hegðun. Hegðun getur verið bæði góð og slæm. Yfirleitt innrætum við börnum kurteisi, hjálpsemi, dugnað og svo framvegis. Þó furðulegt megi virðast þarf ekki að kenna börnum ókurteisi, frekju, leti og svo framvegis.

Ég hef svolítið lært í stjórnunarfræðum og þar er yfirleitt kappkostað að byggja þekkingu stjórnandans svo hann eigi auðveldar með að takast á við verkefni líðandi stundar og horfa fram á veginn.

TillagaEngin tillaga.

3.

„Sig­ríður Elín Sig­fús­dóttir, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóri fyrir­tækja­sviðs Lands­bankans, lagði Ís­land fyrir Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu í Strass­borg í dag.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Þessi málsgrein er eins vitlaus og hún getur orðið. Réttara er að segja að hún hafi lagt íslenska ríkið, haft betur eða jafnvel unnið. Þetta bendir til að sá sem samdi fyrirsögnina sé frekar illa að sér og það bitnar á okkur, lesendum.

Tillaga: Sig­ríður Elín Sig­fús­dóttir, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóri fyrir­tækja­sviðs Lands­bankans, vann mál sitt gegn ríkinu fyrir Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu í Strass­borg í dag.

4.

„Slá­andi staðreynd­ir um myntu.“

Fyrirsögn á mbl.is.                 

Athugasemd: Mér finnst sláandi hversu málvilltir sumir blaðamenn geta verið. Fjölmiðlar hafa birt nokkrar sláandi staðreyndir um útbreiðslu Kínaveirunnar. Uppblástur gróðurlendis á Íslandi er sláandi.

Af orðinu slá, sem merkir berja, veita högg og jafnvel drepa eins og segir í orðabókinni, er dreginn lýsingaháttur nútíðar, sláandi, sá sem sífellt er að slá. Orðið getur aldrei verið notað í jákvæðri merkingu eins og gert er í fyrirsögninni.

Tillaga: Áhugaverðar staðreyndir um myntu.

5.

„Griezmann kom Barcelona til bjargar.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 26.2.2020.                

Athugasemd: Leikmaður fótboltaliðs vinnur með félögum sínum og tilgangurinn er að sigra í leiknum. Þess vegna er furðuleg sú árátta margra íþróttablaðamanna að láta eins og einstakir leikmenn komi liði sínu til bjargar þó þó skori eitt eða fleiri mörk. Hvað með þá sem ekki skora mark, eru þeir dragbítar á lið sitt.

Fyrirsögnin er frekar vanhugsuð þegar litið er á eðli leiksins. Var Griezmann einn á móti ellefu andstæðingum?

Mér finnst frekar ómerkilegt þegar svona er skrifað. Orð án innihalds.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Hinn nýi dráttarbátur Faxaflóahafna, Magni, er væntanlegur til hafnar í Reykjavík fyrir hádegi í dag, fimmtudag. Hann er væntanlegur að bryggju í Gömlu höfninni um klukkan 10.30.“

Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 27.2.2020.                 

Athugasemd: Of mörg orð er ekki til bóta í fréttaskrifum. Ekki heldur endurtekning orða, slíkt er kallað klifun, tuð eða nástaða. Dráttarbáturinn er væntanlegur til hafnar og líka væntanlegur að bryggju. Góður blaðamaður les skrif sín yfir

Fréttin er örstutt og þar er líka tala um heimsiglingu og heimför sem telst nástaða.

Tillaga: Nýi dráttarbátur Faxaflóahafna sem ber nafnið Magni leggst að bryggju í gömlu höfninni í Reykjavík í dag um klukkan 10:30.

7.

„Danskur fréttastjóri greinist með COVID-19.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                  

Athugasemd: Þetta er ekki rangt, en vitlaust er það. Hvað kemur starf mannsins því við að hann veiktist eða er veikur? Aðalatriðið er að í fyrsta sinn hefur Dani veikst af þessum sjúkdómi.

Tillaga: Fyrst Daninn greinist með COVID-19.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband