Hún lést sjálf, Keikó jarðsettur og börn send heim af skóla
4.2.2020 | 20:26
Orðlof
Harri
Orðið harri merkti að fornu: konungur, höfðingi, herra, sbr. fornensku hearra, fornháþýsku herre. Einnig kemur það fyrir í Laxdælu sem heiti á uxa.
Mannsnafnið Harri gæti verið skylt norska nafnorðinu harre (andúð), lýsingarorðinu harren (harður, stífur).
Einnig gæti það verið stytting af Haraldur, sbr. danska nafnið Harre frá því á 14. öld sem talið er stytting af nöfnum sem hefjast á Har- (Nöfn Íslendinga).
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Titanic var 270 metra langt, fór í gegnum 825 tonn af kolum á dag og yfir tíu þúsund ljósaperur voru um borð.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fréttin virðist vera áhugaverð en strax kemur í ljós að viðvaningur hefur skrifað hana og í þokkabót verið að flýta sér. Barn gæti ábyggilega skrifað betur.
Hvernig getur skip farið í gegnum 825 tonn af kolum? Og hvað er merkilegt við tíu þúsund ljósaperur? Voru þær geymdar á lagernum, voru þær í sambandi eða voru fleiri eða færri en algengt var í skipum?
Í fréttinni segir:
John Jacob Astor IV var um borð í skipinu þegar það sökk en hann var þá ríkasti maður heims. Astor fórst í slysinu en eiginkona hans lifði af.
Hefði ekki mátt orða þetta svona:
Ríkasti maður heims, John Jacob Astor IV, fórst í slysinu en eiginkona hans lifði af.
Einnig segir í fréttinni:
Hjúkrunarfræðingurinn Violet Jessop var um borð í Titanic þegar skipið sökk. Hún lifði aftur á móti af. Jessop var aftur á móti einnig um borð í systurskipi Titanic, Britannic fjórum árum síðar þegar það skip sökk. Hún lifði bæði slysin af.
Þetta er þvílík della að ótrúlegt er að Vísir skuli bjóða lesendum sínum upp á fréttir skrifað af algjörum viðvaningi. Greinilegt er að útgáfunni er sama um lesendur. Markmiðið virðist ekki vera að segja fréttir og upplýsa.
Það kostaði meira að framleiða kvikmyndina Titanic en skipið sjálft kostaði. Á núvirði kostaði kvikmyndin 360 milljónir dollara og skipið sjálft kostaði 190 milljónir dollara. Kvikmyndin malaði aftur á móti gull þegar hún kom út.
Kostaði, kostaði, kostaði, kostaði. Orðfæðin er átakanleg og enn þetta aftur á móti.
Loks er það þetta sem er aldeilis ótrúleg samsetning:
Yngsti farþeginn var aðeins tveggja mánaða og lifðu stúlkan af. Eliza Gladys Dean lést sjálf árið 2009, þá 97 ára.
Er yngsti farþeginn og stúlkan sami maðurinn? Hverjir lifðu af? Öldruð kona lést sjálf. Þetta er skelfilegt. Er hægt að afsaka svona bull?
Í fréttinni er aftur og aftur sagt að einhver hafi lifað af, rétt eins og blaðamaðurinn þekki ekki ekki sögnina að bjargast.
Nei, þetta er óboðlegt og blaðamanninum og útgáfunni til háborinnar skammar.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Ég held að ef þú hefðir spurt mig fyrir viku þá hefði ég ekki sé fyrir að þetta yrði niðurstaðan.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Öllum getur orðið það á að skrifa rangt. Þegar sama villan kemur tvisvar fyrir í fréttinni bendir það til fljótfærni eða jafnvel kunnáttuleysis. Blaðamaðurinn stendur sig illa, er fljótfær.
Tillaga: Fyrir viku hefði ég ekki trúað að niðurstaðan yrði þessi.
3.
Boltinn er svolítið hjá borginni.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Deilt er um kjaramál og viðmælandi Vísis telur að Reykjavíkurborg eigi næsta leik. Í talmáli heyrist stundum svona orðalaga að einhver eigi að gera eitthvað svolítið eða álíka.
Hlutverk blaðamanns er öðrum þræði að lagfæra orðalag þess sem hann talar við, koma talmáli yfir á ritmál. Boltinn getur þó aldrei orðið svolítið hjá borginni því þá hefur myndlíkingin misst marks.
Í handbolta, fótbolta eða körfubolta getur boltinn aldrei verið svolítið hjá öðru liðinu. Annað hvort liðið er með boltann, að öllu leyti.
Eigi viðmælandinn við að báðir aðilar geti haft frumkvæði þá þarf bara að orða það þannig.
Tillaga: Borgin á frumkvæðið.
4.
Vill jarða orðróminn um að Keikó sé ekki grafinn í fjörunni í Norðurmæri.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er frekar viðvaningslegt. Ætlunin er að jarða orðróm með því að grafa upp. Væri ekki eðlilegra að orða það þannig að með uppgreftrinum sé ætlunin að eyða honum, afsanna hann?
Stílleysið er algjört en viðvaningar vita ekkert um stíl.
Í fréttinni segir:
Free Willy/Keiko- stofnunin stóð fyrir jarðsetningunni.
Keikó var ekki jarðsettur, hræið var grafið. Maður deyr og líkið er jarðsett. Dýr drepst og hræið er grafið eða huslað. Svo má eflaust segja að fallegi hundurinn hafi dáið og hann grafinn með viðhöfn.
Litlu börnunum er sagt að Snati hafi verið jarðaður og þau muna orðið. Síðar verða jafnvel lítil börn fullorðin og sum leggja fyrir sig blaðamennsku.
Tillaga: Vill sanna að Keikó sé grafinn í fjöru á Mæri í Noregi.
5.
Þurfa að senda tugi barna heim af hverjum skóla.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Furðulegt orðalag. Getur verið að börnin séu uppi á þaki skóla og nú þurfi að senda þau af skólanum? Get ekki ímyndað mér gáfulegri skýringu á orðalaginu.
Máltilfinningin segir að börnin séu send úr skóla, alls ekki af.
Tillaga: Þurfa að senda tugi barna heim úr hverjum skóla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.