Fara með höfuðið hátt, sitjandi borðhald og svalalokun á svölum

Orðlof

Jónas

Jónas Hallgrímsson fæddist 16. nóvember 1807. Ríkisstjórnin ákvað árið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu og helgaður rækt við hana. Fer vel á því að tengja slíkan dag minningu Jónasar enda hafði hann sterk áhrif á menningarsögu Íslendinga. Alkunnur er skáldskapur Jónasar og framlag þeirra Fjölnismanna til sjálfstæðisbaráttunnar.

Jónas Hallgrímsson bjó til ýmis nýyrði og skulu nokkur þeirra nefnd hér til gamans: aðdráttarafl, fjaðurmagnaður, hitabelti, ljósvaki, sjónarhorn, sjónauki (Jónas notaði þetta orð reyndar sjálfur um það sem nú heitir smásjá), sólmyrkvi, sporbaugur.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Eriksen getur farið með höfuðið hátt.

Fyrirsögn á dv.is.               

Athugasemd: Hversu hátt á þessi Eriksen að fara með höfuðið og hvert? Hvers höfuð er þetta? Hvað varð um afganginn af líkamanum?

Í fréttinni segir:

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, segir að Christian Eriksen geti yfirgefið félagið með höfuðið hátt.

Þetta er illskiljanlegt eins og fyrirsögnin.

Einnig segir í fréttinni:

,,Ef hans ákvörðun er að fara þá getur hann gert það með höfuðið hátt,“ sagði Mourinho.

Blaðamaðurinn endurtekur vitleysuna.

Svo segir loks:

,,Við verðum að sýna virðingu en í dag þá gerði hann allt sem hann gat.„

Fyrr gæsalappir virðast gerðar með tveimur kommum. Seinni gæsalappirnar eru eins og þær eiga að vera í upphafi tilvitnunar. Hroðvirknisleg vinnubrögð.

Vera má að „blaðamaðurinn“ hafi ætlað að segja að Eriksen geti „borið höfuðið hátt“. Það orðalag er kunnuglegt og merkir að maðurinn geti verið hreykinn, ánægður með sig, stoltur

Blaðamaðurinn getur ekki borið höfuðið hátt eftir svona klúður. Hann er ekki vel að sér.

Fréttin er öll í eins konar glósustíl sem líklega er ætluð fyrir þá eina sem til þekkja. Aðrir vita ekkert um hvað fréttin snýst. Hún er ekki einu sinni hálfunnin.

Tillaga: Eriksen getur farið og borið höfuðið hátt.

2.

„Þar kemur fram að sitjandi borð­hald verði á árs­há­tíðinni …“

Frétt á frettabladid.is.                

Athugasemd: Í fréttinni er sagt frá fyrirhugðri árshátíð Arion banka. Þar verður meðal annars „sitjandi borðhald“. Blaðamanni Fréttablaðsins finnst þetta alveg ágætis orðalag, notar ekki einu sinni gæsalappir. Aðalatriðið virðist vera kostnaðurinn við árshátíðina.

Hvað er svo „sitjandi borðhald“? Allir vita hvað borðhald merkir, þá er matast við borð, yfirleitt setið til borðs, setið undir borðum. Varla kallast það borðhald þegar fólk stendur upprétt og matast.

„Sitjandi borðhald“ er auðvitað tóm rassbaga rétt eins og „standandi“ eða „sitjandi“ tónleikar.

Í fréttinn segir:

Lands­lið þekktra tón­listar­manna verið bókaður til að spila í nokkrum sölum tón­listar­hússins.

Fljótfærnin gerir blaðamanninum grikk, vonandi veit hann betur.

Ennig segir í fréttinni:

Öllu er tjaldað til en gestum gefst kostur á að hlýða á öll helstu tón­listar­stirni Ís­land …

Hvað er „tónlistarstirni“? Er það meira eða minna en tónlistarstjarna? Samkvæmt orðabókinn er stirni leitt af stjarna. Þekkt eru smástirni og jafnvel stórstirni sem þó eru minni er stjörnur.

Á málið.is segir um stirni:

Plánet sem er smá og óregluleg í laginu. 

Get ekki skilið þetta á annan vegu en að þarna sé verið að gera lítið úr skemmtikröftunum.

Á dagskrá árshátíðarinnar er einn liður sem kynntur er svona:

Jógvan með sing-along.

Til er afbragðsgóð regla sem reynst hefur vel í langan, langt tíma hjá flestum þjóðum. Hún er svona: Ekki blanda saman tungumálum. Skrifaðu íslensku fyrir íslenska lesendur. Ef þig vantar íslenskt orð notaðu orðabók. Ekki sletta ensku eða öðrum tungumálum. 

Um enska orðalagið „sing-along“ segir í orðabókinni:

An informal occasion when people sing together in a group; ´the party got off to a resounding start with a singalong.´

Hér er átt við að fólk syngi saman, taki þátt í söng stjórnandans á sviðinu. 

Tillaga: Þar kemur fram að setið verður undir borðum á árs­há­tíðinni …

3.

Svalalokun er á svölum.“

Fasteignaauglýsing á visir.is.                

Athugasemd: Ansi er þetta nú óheppileg setning. Þannig fer þegar nafnorðin fá að taka völdin, viljandi eða óviljandi. 

Svalalokun er mikið notað orð, að minnsta kosti birtist það oft í fasteignaauglýsingum og víðar og framleiðendur nota það í auglýsingum. Mér finnst það afspyrnu ljótt.

Svalir eru ekki beinlínis lokaðar heldur eru settir á þær opnanlegir gluggar svo fólk geti betur notið þeirra þrátt fyrir kul eða kulda. 

Í staðinn mæli ég með því að segja gluggar á svölum og þar með er engin nástaða lengur. Þar að auki held ég að orðalagið sem miklu meira aðlaðandi en gluggalokun.

Tillaga: Gluggar á svölum.

4.

„Heimsókn í heild sinni: Þriggja hæða höll Súsönnu í London.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Hver er munurinn á heimsókn og „heimsókn í heild sinni“? Í sjónvaprþætti á Vísi er verið að sagt frá heimsókn til íslenskrar konu sem býr í London. Fyrirsögnin er ljót og illa samin.

Óþarfi er að segja að heimsóknin sé sýnd „í heild sinni“, átt er við að allur þátturinn sé sýndur en ekki hluti hans. Heimsókn er einfaldlega heimsókn. Sé hún sýnd stytt má taka það fram. Lesendur eru ekki kjánar, þeir skilja hvað heimsókn merkir. Síst af öllu er það sölulegra að bæta við „í heild sinni“. Berum bara saman tilvitnaða fyrirsögn og tillöguna hér fyrir neðan.

Fréttin er annars ósköp viðvaningslega skrifuð. 

Tillaga: Heimsókn til Súsönnu í þriggja hæða höll hennar í London.

5.

Að því er fram kemur í frétt Guardian um málið skeytir dómarinn ekki oft skapi.

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Hvað merkir að „skeyta skapi“? Þetta er bull. Hvað á maður að segja svona klúður sést í ágætum vefmiðli? 

Blaðamaðurinn gæti kannast við orðasambandið „að skeyta skapi sínu á einhverjum“. Sögnin að skeyta er dregið af orðinu að skjóta og hér merkir orðasambandið að láta skapillsku sína bitna á einhverjum. Það á hins vegar ekki við hér.

Þá kann blaðamaðurinn að hafa heyrt um orðasambandið „að skipta skapi“. Þeir sem það gera fara venjulegast í fýlu eða bregðast illa við einhverju.

Í þriðja lagi gæti blaðamaðurinn hafa slegið saman þessu tveimur orðatiltækjum og útkoman orðalagið „að skeyta ekki skapi“. 

Við liggur að maður vorkenni blaðamanninum, en hann getur ekki gert meira en hann kann. Verra er þó að útgáfan stendur í því að dreifa tómu bulli.

Fjölmargir villast á orðatiltækjum og málsháttum og stundum eru þau bráðfyndin. Hér eru nokkur dæmi: 

  1. Það væri nú til að kóróna alveg mælinn
  2. Eins og að skvetta eldi
  3. Það gengur alltaf allt á afturendanum á henni
  4. Sumir taka alltaf allan rjómann
  5. Getum ekki horft hvort á aðra
  6. Kannski þykknar í mér pundið
  7. Þetta var svona orðatækifæri
  8. Hún á náttúrulega að fá greitt fyrir afturgengið orlof!
  9. Skírður eftir höfuðið á honum
  10. Flokkast undir kynferðislegt álag
  11. Það er enginn millivegur á þér
  12. Við verðum að leggja okkur í spor barnanna okkar
  13. Fór í klippingu og lét rótfylla á sér hárið
  14. Hjartað hamaðist í höfðinu á henni
  15. Sérðu snjóhryllingana

Birt án leyfis en sjá nánar hér.

Tillaga: Fram kemur í frétt Guardian um málið að dómarinn skiptir ekki oft skapi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þessu. Annars var ég að heyra glænýja sögn áðan í útvarpinu í viðtali við einhverja listakonu. Hún var að segja frá listrými, sem hún hefði á leigu, og væri ágætti til að "tilraunast" í, sagði hún. Ég hváði. Tilraunast - hvað er nú það? Getur manneskjan ekki sagt "að gera tilraunir í". Alltaf er maður nú að heyra eitthvað nýtt. Eða hvernig líst þér á þetta nýja orð? Mér finnst þetta galið. Ég get ekki sagt annað.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2020 kl. 14:25

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Margir kunna líka að „álítast“ að svona megi „tilraunast“ með íslenskt mál.

Stundum hefur fólk ekki nægan orðaforða og s sumir verði óstyrkir í útvarpsviðtali og þá verður þeim orða vant. Hins vegar er þetta orð „tilraunast“ alveg ómögulegt. Til eru fjölmörg orð sem hægt er að nota.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.1.2020 kl. 16:20

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Biðst afsökunar á að gæsalappir eru greinilega óvirkar í athugasemdum í Moggablogginu.

„.“

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.1.2020 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband