Fyrsti, annar og þriðji veðréttur í jólunum

Er ekki ritað: Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir? En þið hafið gert það að ræningjabæli.

Í lok ágúst síðastliðinn heyrðust fyrstu jólalögin í leiknum auglýsingum í hljóðvörpum. Elskulegir tónleikahaldarar tóku til að kynna jólatónleika í desember, þremur mánuðum síðar. Markvisst fjölgaði auglýsingunum og sífellt fleiri jólastef hafa glumið í eyrum hlustenda, í september, október og nóvember. Allir vilja redda jólaskapinu og ráð er ekki ráð nema það sé tímalega gangsett.

Kaupsýslumenn, braskarar og kaupahéðnar hafa öðlast fyrsta, annan og þriðja veðrétt í jólunum og vera kann að þeir hafi þegar leyst þau til sín ásamt nauðsynlegum fylgihlutum, til dæmis jólasöngvum. Með valdi hafa himnafeðgarnir hafa verið fjarlægðir og í þeirra stað kemur jólasveinninn, einn eða fleiri eftir hentugleikum, og þeir eru sagðir einstaklega gjafmildir, gefa það sem aðrir kaupa. Í nóvember raular rám röddin í oraauglýsingunni heimsumból og mun ábyggilega gera það fram yfir áramót því hin sanna jólagleði fylgir niðursoðnum grænum baunum.

Við sauðsvartur almúginn hrífumst með auglýsingunum. Jólaskapið er eins og marglit birta sem fellur á okkur í september vegna þess að nágranninn er búinn að setja jólaljósin á svalirnar sínar. Ó, hversu gaman er að vera með. Láta hrífast og segja að þetta sé nú allt gert fyrir barnið sem býr innra með okkur eða hin börnin sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Enginn er góður nema gjafir fylgi. Auglýsingarnar lofa okkur einstöku fjöri, gleði og skemmtun gegn lítilsháttar gjaldi því það er svo gaman að gefa. Við kaupum til að gefa.

Á miðtorgi lífsins stendur kötturinn stóri og svarti sem minnir vegfarendur á að sá sem ekki kaupir ný föt fyrir jólin verði hreinlega étinn. Þó sá armi lækjartorgsköttur sé úr járngrind en ekki af holdi og blóði sér enginn í gegnum hann. Valkvæð sjón er góð, valkvæður skilningur. Nei, hvaða vitleysa, verslunin á ekki jólin. Það er eftirspurn okkar sem rekur á eftir versluninni, nauðugri viljugri.

Skammdegið er svart og ef ekki væri fyrir heilaga þrenningu verslunarinnar væri engin týra í lífi okkar. Litlu jólin heita nú „blakkfrædei“, „singlesdei“ og endast í marga, marga daga eins og vikulangir þorláksmessutónleikar. Ef ekki væri fyrir heila þrenningu væri skammdegið enn svartar þó stutt sé í aðventuna og fyrsta jólasveininn.

Æ, ekki fara nú, að minnast á boðskap jólanna. Hvað kemur hann málinu við?

Skyldi maðurinn sem mælti orðin hér í upphafi taka jafnhraustlega til orða væri hann uppi í dag? Varla. Hann væri úthrópaður á samfélagsmiðlunum, kallaður gleðispillir af góða fólkinu sem skrifar í athugasemdadálka fjölmiðlanna og heilög þrenning verslunarinnar myndi hóta honum kreditkortamissi, yfirdráttarlækkun og vaxtahækkun. Verra gæti það nú ekki verið. Þó má ímynda sér að vinsamleg hjálparsamtök myndu gauka að honum húsaskjóli, nál og sprautu svo hann gæti nú róað sig. Tækist það ekki eru til hámenntaðir fagaðilar sem vinna gegn ranghugmyndum sem einstaklingur getur þróað með sér.

Jæja, nú er nóg komið af skrifum. Ég þarf að hlaupa út í pósthús, ryksuguróbótinn sem ég keypti frá Kína er kominn, gasalega mikið jólapiparkökuhúsfjör er í íkeu. Húsgagnafössarinn býður borðstofustóla á tilboðsverði sem er aðeins hærra en í síðustu viku. Hundraðtommusjónvarpið er á álíka díl.

Nei, maðurinn misskildi allt. Þetta er ekki ræningjabæli, að minnsta kosti ekki þegar kaupin ganga svona vel. Jólagjafamarkaðurinn er upphaf og endir tilverunnar. Allt annað er aukaatriði. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega sammála þessu. Ég er orðin dauðleið og þreytt á þessu jólakjaftæði og vitleysu á haustin, þegar margir mánuðir eru til jóla. Það var annað, þegar við vorum ung, og jólalög og annað heyrðist ekki eða sást fyrr en í byrjun aðventu. Látum það nú vera, þótt tónlistarfólk, sem ætlar sér að gefa út jólaplötur eða halda jólatónleika, fari að æfa sig á haustin og taki jafnvel upp plöturnar á þeim tíma, jafnvel að sumarlagi, en að láta þetta drynja yfir okkur frá því í ágúst eða september er fullmikið, finnst mér, en hér er verið að apa eftir þeim útlensku, því að þar byrjar þetta svona snemma, - eins og það sé einhver fyrirmynd. Ekki tekur betra við, þegar þessi svarti föstudagur er kominn inn í þetta allt saman. Ég furðaði mig á einni auglýsingunni í útvarpinu í morgun(þú hefur kannske tekið eftir því líka), þar sem tilkynnt var, að "svarti föstudagurinn væri mættur í Bauhaus"(!). "Jæja," sagði ég nú bara, "gekk hann inn úr dyrunum þarna eða hvað?" Það er ekki hægt annað en að gera pínulítið grín að þessu eins og þetta er vitlaust, enda ekki öll vitleysan eins. Mér finnst nóg komið af þessu. Ég get ekki sagt annað.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2019 kl. 16:34

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæl Guðbjörg. Gott að vita að fleiri en ég hafa af þessu áhyggjur. Hélt að ég væri orðinn aleinn „fúll á móti“.

Núorðið mætir allur andsk... Afmælisdagar mæta, áramót mæta, jólin mæta og föstudagar mæta (svartur eða langur).

Nú eru þau orðin fullorðin, börnin sem aldrei lásu stafkrók af frjálsum vilja. Afleiðingin er fátæklegur orðaforð og slakur skilningur á íslensku máli. Og þau tjá sig í fjölmiðlum.

Já, ég kannast við þetta frá Báhási og raunar frá fleirum, minnir mig.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.11.2019 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband