Barion, frelsissvipta og stíga niður úr stjórn
18.11.2019 | 17:06
Orðlof
Í því liggur galdurinn
Mér finnst miður þegar orðasambönd úr erlendu máli eru tekin upp nánast hrá og klædd íslenskum búningi, t.d. hið enska see the light at the end of the tunnel. Í beinni þýðingu á íslensku ætti myndin að vera að sjá ljósið fyrir enda ganganna en myndmálið er naumast gagnsætt í íslensku. Annað þessu líkt er orðasambandið we are talking about en nú er mörgum tamt að segja að við séum að tala um.
Jón víkur aftur tali sínu að grunnskólum, þar sem undirstaðan undir líf og starf fólks er jafnan lögð. Slakur lesskilningur drengja 10. bekkjar er mörgum áhyggjuefni og telur Jón það geta tengst því að kennarastarfið hefur löngum verið lágt metið í samfélaginu.
En hver sem er ástæða slaks lesskilnings verður að teljast brýnt að bregðast við og það er ánægjulegt að sjá að slíkt hafa þar til bær yfirvöld og samtök kennara gert. Fyrst og síðast þurfum við að fá ungt fólk til þess að lesa góðar bækur, skrifaðar á blæbrigðaríku og góðu máli. Í því liggur galdurinn.
Morgunblaðið 18.11.2019, blaðsíða 6, viðtal við Jón G. Friðjónsson sem hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Leikvangurinn er staðsettur í höfuðborg Danmerkur, Kaupmannahöfn, og tekur um 28 þúsund manns í sæti.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um heimaleik landsliðs karla í fótbolta í mars á næsta ári. Vegna aðstæðna að vetrarlagi í Reykjavík er hugsanlegt að leikurinn verði færður til Kaupmannahafnar.
Tilvitnunin hljómar eins og misheppnað grín. Þarf að taka það fram að Kaupmannahöfn sé höfuðborg Danmerkur? Eða er þetta þýðing úr erlendu máli?
Óþarfi er að segja að leikvangurinn sé staðsettur í Kaupmannahöfn? Hann er þar.
Tillaga: Leikvangurinn er í Kaupmannahöfn og tekur um 28 þúsund manns í sæti.
2.
Í umræddu húsnæðinu var Arion banki áður til húsa og þannig er nafn staðarins tilkomið.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Maður nokkur kaupir hús þar sem áður var útibú Arion banka. Hann ætlar að opna sport- og veitingastað. Honum finnst það viðeigandi og fyndið að kalla staðinn Barion, bætir bókstafnum b fyrir framan bankaheitið. Úr verður merkingarleysa, bull.
Ekki virðist flögra að honum að kalla hinn nýja stað íslensku nafni, skemmtilegra er að búa til ónefni. Ha, ha, ha ... óskaplega fyndið nafn.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Einnig taldi dómurinn sannað með framburði vitna og gögnum um staðfestingar símtækja að hinn ákærði hefði síðar sama dag frelsissvift brotaþola
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Orðalag lögmanna er aðalstofnanamál þjóðarinnar, þeir mynda nafnorðasagnir eins og að frelsissvipta þegar við dauðlegir höldum að segja megi að maður hafi svipt annan frelsi, haldið honum föngnum, rænt honum eða eitthvað álíka.
Löggan vill líkjast lögmönnum, saksóknurum og dómurum og talar blending af þessu til að halda uppi greinilegum skilum á milli hennar og alþýðunnar.
Blaðamenn kikna í hnjáliðum og roðna af aðdáun þegar þeir lesa dóma og lögguskýrslur og skrifa svo sjálfir hástemmt nafnorðavætt mál sem þeir dást að en við, þessir dauðlegu skiljum lítt.
Blaðamaðurinn þarf að læra á stafsetningaforritið í tölvunni - og nota það.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Mikael fékk tvö þung högg í leiknum og þurfti að fara af velli í seinni hálfleik vegna meiðsla, en hann lagði upp fyrsta markið á Birki.
Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 18.11.2019.
Athugasemd: Í fótbolta er orðalagið að leggja upp notað þegar leikmaður sendir boltann á samherja sinn sem síðan skorar, yfirleitt eftir eina eða tvær snertingar. Í ofangreindri tilvitnun um landsleikinn við Moldavíu er ofmælt að Mikael hafi lagt upp mark því eftir að Birkir fékk boltann þurfti hann að leika á tvo eða þrjá andstæðinga, nota til þess margar snertingar þangað til hann skaut og skoraði milli fóta markmannsins.
Ég vildi nú bara koma þessu að sem áhugamaður um fótbolta. Aðalatriðið er hins vegar að landsliðið skoraði tvö mörk og þar fyrra gerði Birkir. Hefði liðið skorað fleiri hefði verið rétt að segja að maðurinn skoraði það fyrsta.
Mælt er með því að nota punkt sem oftast. Í ofangreindri málsgrein er annars vegar talað um meiðsli og hins vegar um mark. Vel hefði farið á því að hafa punkt á eftir meiðsla. Síðan hefði komið ný setning.
Í fréttinni segir:
Liðið saknaði Kolbeins, eftir að hann fór af velli.
Ég skil ekki þessa málsgrein. Má vera að blaðamaðurinn dragi þessa ályktun af leik liðsins eftir að Kolbeinn fór af velli. Af hverju getur hann þá ekki sagt þetta hreint út. Til dæmis:
Liðið lék lakar eftir að Kolbeinn fór af leikvelli.
Fréttin er ekki illa skrifuð en blaðamaðurinn þarf að vera gagnrýnni á eigið verk.
Tillaga: Mikael fékk tvö þung högg í leiknum og þurfti að fara af velli í seinni hálfleik vegna meiðsla.
5.
Þorsteinn Már stígur niður úr stjórn Framherja.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Þetta er ný útlegging á enska orðalaginu step down. Hvernig er að stíga niður úr stjórn fyrirtækis. Úr henni hljóta að liggja tröppur eða stigi. Nei, þetta er bara bull.
Tillaga: Þorsteinn Már hættir í stjórn Framherja.
6.
María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarkona Þorgerðar Katrínar hjá Viðreisn, veltir áhugaverðum steini á samfélagsmiðlinum Twitter.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hvað merkir orðalagið að velta áhugaverðum steini? Held að ég hafi aldrei heyrt það fyrr.
Stundum er sagt að nauðsynlegt sé að velta við hverjum steini. Merkingin er þá sú að vanda þurfi til verka, skoða í öll skúmaskot. Vera má að blaðamaðurinn hnjóti um þennan stein, framlengi orðalagið og taki grjótið bókstaflega.
Stundum er sagt að velta þurfi upp hugmyndum og er þá átt við að leggja þurfi hausinn í bleyti, hugsa sig vel um.
Fréttin, ef frétt skyldi kalla, er frekar illa skrifuð og erfitt að skilja hana. Trúlega getur blaðamaðurinn gert betur, í það minnsta að lesa það yfir sem hann hefur skrifað, það gerði hann varla.
Tillaga: María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarkona Þorgerðar Katrínar hjá Viðreisn segir áhugaverða sögu á samfélagsmiðlinum Twitter.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður. Jón Friðjónsson rekur skort á lesskilningi til skorts á virðingu f. kennarastarfinu. Erlendar rannsóknir. t.d. frá Þýskalandi, sýna að það sem langmestu máli skiptir um gengi barna í grunnskóla, er menntun foreldra og áhugi þeirra á námi barna sinna, og hvatning þeirra til lestrar. Slíkt skiptir meira máli en gæði kennslunnar, meira en það hvort á heimilinu er töluð þýska eða pólska. Börn menntaðra Pólverja standa sig vel, enda búin að vera í þýskum leikskóla.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 18.11.2019 kl. 19:03
Sæl Ingibjörg,
Þegar ég var í skóla sem nú heitir grunnskóli var sagt að agi og einbeiting nemenda væri lakari en hjá fyrri kynslóðum. Eitthvað veldur því að núna er lesskilningur ungs fólks minni en áður var sem og geta þess til að tjá sig skriflega.
Má vera að virðing fyrir kennarastarfinu sé minni en áður var og fyrir því kunna að vera nokkrar ástæður. Lesskilningur kemur ekki nema með lestri bóka frá unga aldri og börn þurfa að vilja lesa, ekki að þau séu þvinguð. Þar hafa foreldrar brugðist sem og skólarnir. Ástandið er ekki viðunandi.
Fyrir nokkrum mánuðum gerði ég hér að umtalsefni að blaðamaður hefði skrifað að viðmælandi sinn léki tveimur skjöldum, það er væri í fótbolta og semdi tónlist. Þegar fullorðið fólk, í þokkabót blaðamaður, lætur svona frá sér fara, bendir það hvorki til lesskilnings né að hann hafi stundað lestur frá unga aldri.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.11.2019 kl. 07:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.