Skoða valkost alvarlega, austlæg átt á dagskrá og blindur blettur
6.11.2019 | 09:55
Orðlof
Lukkunnar pamfíll
Pamfíll er sérstakt spil; laufgosi í púkki; náungi: lukkunnar heppnismaður. To. úr d. pamfilius (s.m.), af latn. mannsnafni Pamphilos < gr. Pámphilos, eiginl. ´sá sem er mikið elskaður, sá sem allir unna´, af pan- allt og phílos kær, elskaður.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Klettur, um 65 metra hár, gróf sig frá berginu og varð frístandandi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Klettur er kyrr, hefur enga getu til að grafa eitt eða neitt. Rofkraftarnir eru meðal annars vindur, vatn, frost og brim. Vatn sem frýs þenst út og sé það í sprungu víkkar hún. Skiptir engu máli hvort frostþenslan er í móbergi eða öðru bergi, eitthvað þarf undan að láta. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þetta, allir skilja eðlisfræðina.
Ég skil hins vegar ekki hvernig Mogginn getur komist að þeirri niðurstöðu að klettur geti grafið sig frá bergi sem hann var áður fastur við. Sú eðlisfræði sem blaðamaðurinn byggir frásögn sína er algjörlega óþekkt. Flest bendir þó til að hann hafi skrifað út frá eigin hyggjuviti sem brást gjörsamlega. Hefði ekki verið gáfulegra að tala við jarðfræðing?
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Landsnet er að skoða alvarlega þann valkost að leggja Kröflulínu 1 í jörðu
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 5. nóvember 2019.
Athugasemd: Valkostur er orðskrípi, sett saman úr tveimur orðum sem hafa mjög svipaða merkingu. Betur fer á því að nota orðið kostur í staðinn. Hins vegar er hægt að einfalda orðalagið og láta sagnorðið ráða ferðinni, komast hjá nafnorðavæðingunni eins og gert er í tillögunni hér að neðan.
Raunar má hrósa blaðamanninum að nota líka orðið kostur. Hann notar því jöfnum höndum valkostur og kostur rétt eins og þau séu bæði góð.
Hvað merkir orðasambandið að skoða alvarlega? Er það andstæðan við að skoða eitthvað af léttúð? Sé atviksorðinu alvarlega sleppt breytist merkingin lítið. Ég myndi þó leggja til að í stað þess að skoða sé sögnin að íhuga notuð.
Svo er það ofnotkun ábendingarfornafnsins sá. Ég er að reyna að venja mig af því að nota það en gengur erfiðlega. Oft má sleppa ábendingarfornafninu án þess að hugsun eða orðalag bíði tjón af.
Tillaga: Landsnet íhugar að leggja Kröflulínu 1 í jörðu
3.
Það er austlæg átt á dagskrá á landinu í dag og vindur yfirleitt hægur
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Kæruleysi einkennir stundum fréttaskrif í vefútgáfu Moggans. Birt er hugleiðing veðurfræðings, sem hér er hörmulega illa samin og til skammar að Mogginn skuli birta samsuðuna orðrétt.
Hvað er dagskrá veðurs? Hef aldrei heyrt um slíkt.
Margir blaðamenn og jafnvel veðurfræðingar hafa rýran orðaforða. Oftast er ládeyðan í fréttum slík að látið er nægja að tala um mikinn vind eða lítinn vind. Þó eru til að minnsta kosti 112 orð sem lýsa vindi. Hér er listinn.
Í fréttinni er talað um að snjókoma sé viðloðandi, vindur sé rólegur.
Sagt er að búast megi við hálku á vegum ýmist er um að ræða glærahálku eða snjóþekju. Hvað þýðir þetta?
Tillaga: Austlæg átt er á landinu í dag og lygnt
4.
Liverpool er með sex stiga forskot á Englandsmeistarana áður en liðin ganga til leiks en mönnum er enn í fersku minni barátta liðanna um meistaratitilinn á síðustu leiktíð þar sem City hafði betur eftir æsilegan slag.
Frétt/pistill á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 6.11.2019.
Athugasemd: Þetta kallast langloka og er ekki til fyrirmyndar. Blaðamaðurinn er punktfælinn, gjarn á langar og flóknar málsgreinar. Hann skeytir engu þó efni hennar sé úr hinni og þessari áttinni. Öllu dembt í sama grautarpottinn.
Annars vegar segir þarna að lið sé með sex stiga forskot á hitt áður en leikur hefst. Þetta er kjánalegt og telst tvítekning, annað orðalagið dugar.
Of margir íþróttablaðamenn eru til vandræða. Þeir geta ekki sagt eðlilega frá eins og flestir aðrir blaðamenn. Þarna stendur áður en liðin ganga til leiks í stað þess að sleppa málalengingum eða að segja fyrir leik.
Í stuttu máli sagt er hefði blaðamanninum ekki veitt af því að fá einhvern til að lesa pistilinn yfir fyrir birtingu.
Tillaga: Liverpool er með sex stiga forskot á Englandsmeistarana. Mörgum er enn í fersku minni barátta þeirra um meistaratitilinn á síðustu leiktíð þar sem City vann eftir æsilegan slag.
5.
Bandaríska lögreglan hefur birt myndir af því hvernig tveimur dæmdum morðingjum tókst að brjótast út úr fangelsi með ótrúlegum hætti í Kaliforníu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Morðingi sem situr í fangelsi er þar vegna þess að dómur hefur gengið í máli hans. Þar af leiðir að óþarfi er að tala um dæmda morðingja sem brjótast úr fangelsi. Þeir væru það ekki nema vegna dóms.
Á vef BBC sem er heimildin fyrir fréttinni segir hins að mennirnir hafi verið murder suspects sem bendir ekki til þess að þeir hafi verið dæmir heldur grunaðir.
Í fréttinni segir:
Lögreglustjórinn í Monterey-sýslu, Jonathan Thornburg, segir að tvímenningarnir hafi uppgötvað og nýtt sér blindan blett í eftirlitskerfi í fangelsinu.
Ef maður kynni ekki hrafl í ensku væri vonlaust að vita hvað blindur blettur merkir.
Á vef BBC segir hins vegar:
The local sheriff´s office said the men had exploited a "blind spot.
Blaðamaður BBC virðist kunna sig og setur orðin í gæsalappir. Sá íslenski veit ekkert hvers vegna.
Tillaga: Bandaríska lögreglan hefur birt myndir af því hvernig tveimur meintum morðingjum tókst að brjótast úr fangelsi í Kaliforníu á ótrúlegan hátt.
6.
Fá sömu laun og flugvélasæti.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvað skyldu flugvélasæti vera með í laun á mánuði?
Þetta er ein fyndnasta fyrirsögn sem sést hefur á vefútgáfu Moggans í langan tíma.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.