Slys var slys, herinn mætir og hnappheldan
15.10.2019 | 08:50
Orðlof
Fjölbreytni í orðavali
Sjálfsagt er að pressa á helvítið að borga hafi helvítið ekki orðið við vinsamlegum tilmælum þar að lútandi.
En það má líka reyna að þrýsta á það (helvítið) að borga, leggja fast eða hart að því, þröngva því til eða knýja það til að borga og gá hvort það linast ef því eru kynntir fleiri kostir en pressa.
Málið, blaðsíða 21 í Morgunblaðinu 15.10.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Slysið á Snæfellsvegi var banaslys.
Fyrirsögn á vísir.is og á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er arfaslæm fyrirsögn, nástaðan hefði átt að hringja bjöllum í höfði blaðamanna: Slysið var slys.
Bæði Mogginn og Vísir eru með sömu fyrirsögn. Hvaða líkur eru á því að það gerist?
Þjóðvegur númer 54, sá sem liggur um sunnanvert Snæfellsnes, frá Vegamótum og Fróðárheiði, nefnist Snæfellsnesvegur hjá Vegagerðinni. Löggan skrifar heitið rétt en Mogginn og Vísir fara rangt með. Gæti verið að annar hvor fjölmiðilli hafi hreinlega notað hinn sem heimild?
Á dv.is er fyrirsögnin þessi:
Einn látinn eftir slysið á Snæfellsnesi.
Vel gert hjá DV. Þar að auki er vitnað í Vísi og heimildar getið sem er til fyrirmyndar.
Tillaga: Einn lést í slysinu á Snæfellsnesvegi.
2.
Assad-liðar mættir á átakasvæði.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Er ekki líklegra að stjórnarherinn í Sýrlandi sé kominn á átakasvæðið frekar en að hann sé mættur þangað? Þó að hið síðarnefnda megi til sanns vegar færa er ekki tekið svo til orða um hernaðarbrölt.
Á malid.is segir:
mæta, s. hitta, koma til móts við, koma á fund eða e-n stað,
Herinn er ekki að hitta þann tyrkneska, síður en svo. Alvarlegri verður varla neinn fundur.
Tillaga: Assad-liðar mættir á átakasvæði.
3.
Þá var lögreglu einnig tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Vita blaðamenn ekki muninn á aðalatriðum og aukaatriðum? Með öðrum orðum, það sem er fréttnæmt. Grunsamlegar mannaferðir teljast ekki til tíðinda nema eitthvað meira fylgi.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Einungis einstaklingum er heimilt að sækja um lóðirnar en þeir geta hins vegar gert tilboð í fleiri en eina lóð. Hver aðili getur eingöngu fengið úthlutaða eina lóð.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Aumt er það þegar einstaklingar breytast í aðila rétt eins og segir hér að ofan.
Ekki batnar það þegar fallbeygingin reynist röng. Hver maður getur líkleg aðeins fengið úthlutað einni lóð.
Tillaga: Hver maður getur gert tilboð í margar lóðir og hann vill en fær aðeins einni úthlutað.
5.
Séra Davíð Þór og Þórunn í hnapphelduna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Ég hef oft kallað það hjáorð sem margir blaðamenn nota í stað algengra orða eða orðasambanda. Hér er ágætt dæmi. Fólk giftir sig en í stað þess að segja það berum orðum eru þau sögð komin í hnappheldu.
Hnapphelda er haft sem sett var á framfætur strokgjarna hesta. Sem sagt, nú er búið að hefta þessi tvö, frelsinu lokið, allt búið ...
Síðar í örstuttri frétt er sagði að þau hafi sett upp hringanna. Hvergi kemur fram að þau hafi gift sig. Er ekki hjáorðaáráttan skrýtin?
Tillaga: Séra Davíð Þór og Þórunn giftu sig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.