Falskar fréttir og hálfsannleikur

Sé ætlunin að niðurlægja pólitíska andstæðinga eða gera lítið úr skoðun þeirra og gerðum þá er skiptir fernt mestu:

  1. Vitna í orð andstæðinganna
  2. Fara rangt með tilvitnunina
  3. Leggja út af hinni röngu tilvitnun
  4. Fá fleiri til að gera hið sama

Þetta er óbrigðul aðferð og viti menn. Innan skamms er hin ranga tilvitnun og útlegging orðin að sannleika ... af því að svo margir segja það. Stundum mistekst þetta ef andstæðingurinn nær eyrum fólks og geti leiðrétt rangfærsluna. Þá er málið ónýtt nema því aðeins að nógu margir brúki taki þátt í þessum leik.

Auðvitað er þetta áróður, ljótur áróður sem hefur einkennt íslensk stjórnmál, sérstaklega síðustu tvo áratugi. Nú er svo auðvelt að koma upplýsingum til fólks, vefsíðurnar eru svo margar, bloggin, Facebook og athugasemdakerfi fjölmiðla.

Þessi áróðursaðferð varð til í Sovétríkjunum gömlu. Aðferðinni lýst í bók Arthurs Koestlers, „Myrkur um miðjan dag“. Hann var kommúnisti en hvarf af trúnni, samdi skáldsögu um Rubashov sem á að hafa verið hátt settur maður í stjórnkerfi Sovétríkjanna en lendir í ónáð hjá No. einum og er settur í fangelsi. Í yfirheyrslunum er farið nákvæmlega yfir feril Rubashovs og smáum atriðum og stórum snúið gegn honum. Í bókinni segir:

„Mestu glæpamenn sögunnar,“ hélt Ivanov áfram, „eru ekki menn á borð við Nero og Fouché, heldur slíkir sem Gandhi og Tolstoy. Innri rödd Gandhis hefur gert meira til að koma í veg fyrir frelsi Indlands en byssur Breta. Það, að selja sjálfan sig fyrir þrjátíu peninga silfurs, er heiðarlegur verknaður, en hitt, að ofurselja sig samvisku sinni, er svik við mannkynið. Sagan er a priori siðlaus. Hún hefur enga samvisku. Það, að ætla sér að stjórna rás sögunnar eftir sömu reglum og sunnudagaskóla, er sama sem að láta allt danka eins og það er. Þetta veistu eins vel og ég. [bls. 163, útgáfan frá 1947]

Þetta er alveg stórundarleg útskýring á þessu einstaklingsbundna fyrirbrigði sem kallast samviska. Samkvæmt þessu á hún að vera „félagsleg“ og þar með er hún rifin út tengslum við hugsun. Í staðin er hún gerð útlæg og í stað hennar þarf einstaklingurinn að leita til annarra sé hann í vafa um hvað sé rétt og rangt. 

Auðvitað átt Rubashov ekki nokkra möguleika gegn kerfinu. Hann var yfirheyrður og kerfisbundið snúið út úr því sem hann hafði áður sagt, gert og fundir hans með öðru fólki voru gerðir að samsæri gegn Sovétríkjunum. Svona gerist nú þegar gildi eru skilgreind fyrir pólitíska hagsmuni. 

Auðvitað er samviska hvers manns mikilvægari en orð fá lýst sem og hugsun og ekki síst rökhugsun. Eina leiðin til að halda sönsum er að hlusta á samvisku sína. Þetta er eina leiðin til að berjast móti áróðri dagsins, fölskum fréttum og hálfsannleika.

Til dæmis er ég ekki alltaf viss hvort sú skoðun sem ég hef byggist á þekkingu, reynslu og rökhugsun eða þá að hún sé afleiðingin af síbylju áróðurs sem glymur fyrir eyrum og verður fyrir augum. Eftir því sem ég tala við fleiri og fylgist með þjóðfélagsumræðunni flögrar það að mér að vandinn sé ekki einskorðaður við mig einann. Ég hreinlega finn að margir hafa ekki skilning á umræðunni, kynna sér ekki mál öðru vísi en að hlusta á ágrip, lesa fyrirsagnir.

Auðveldast í öllum heimi er að trúa síðast ræðumanni, rökum þess sem virðist sannfærandi, hefur réttu raddbeitinguna eða hefur ásjónu þess sem er heiðarlegur. Einhvern tímann var sagt um forhertan glæpamann að hann liti nú síst af öllu út fyrir að vera glæpamaður. En hvernig lítur glæpamaður út? Hvernig lítur sá út sem afflytur staðreyndir, prédikar hálfsannleika? Þá vandast auðvitað málið því öll erum við þannig að við hlaupum stundum til og leggjum vanhugsað mat á hugmyndir, skoðanir og jafnvel fréttir.

Við treystum oft prentuðu máli eða því sem við heyrum frá snoppufríðum fréttalesara í sjónvarpsstöðvar af því að hann lítur svo „heiðarlega“ út, hvað svo sem það nú þýðir. Eða stjórnmálamann sem setur orðin sín fram á heillandi og sannfærandi hátt.

Þessa staðreynd þekkja allir og því er svo ósköp auðvelt að villa um fyrir öðrum. Þetta er nú til dæmis ágæt ástæða fyrir því að frelsi á að ríkja í fjölmiðlun. En í guðanna bænum, ekki treyst fjölmiðlum í blindi. Betra er að treysta á eigið hyggjuvit.

Staðreyndin er sú að allt er sennilegt en fátt er satt nema rök fylgi, öll rök. Þar af leiðandi er krafan sú að sá sem hlustar á eða les frétt trúi henni ekki eins og nýju neti.

Og síðast en ekki síst, sannleikann er aldrei að finna í forarpyttinum sem eru eftir fréttum sumra fjölmiðla. Yfirleitt er það illgjarnt fólk með takmarkaða þekkingu sem þar skrifar.

Þennan pistil birti ég fyrir þremur árum en tel hann eiga ágætlega við núna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt segirðu. Flest af þessu er ömurlegt. Af því að þú hefur mjög oft skrifað um málfar hérna á blogginu, þá datt mér í hug að benda þér á heldur furðulegt orðalag, að mér finnst, hérna á Morgunblaðsvefnum. Þar stendur, að ný lína frá Ikea sé lent hér á landi. Ég velti því fyrir mér, hvort hún hafi flogið sjálf í flugvél hingað, eða svifið hingað frá Svíþjóð í einhverjum belg. Það má svo sem skopast með þetta. Ég hélt, að það væri einfaldast að segja, að nýja línan frá Ikea væri komin til landsins, og það skýrði allt, sem skýra þyrfti. Það, sem fólki dettur í hug, þegar það er að tilkynna um nýja hluti!

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.10.2019 kl. 15:28

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæl,

Ég sá þessa „frétt“. Fannst þetta orðalag fyrir neðan allar hellur. Verð að viðurkenna að ég sé margt sem ég hreinlega fæ mig ekki til að skrifa um, svo vitlaust er það. Margir kunna hreinlega hvorki til í blaðamennsku  né geta sagt eðlilega frá. Þetta er sorglegt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.10.2019 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband