Gera hnífstunguárás, ruslari, taka niður gamla geymslu
12.10.2019 | 21:15
Orðlof
Skrauthvörf (veigrunarorð)
Skrauthvörf er hugtak sem stundum er notað yfir það þegar fólk leitar uppi orð sem því þykir á einhvern hátt fínna, snyrtilegra eða vægara en önnur sem virðast dónaleg eða ófín, jafnvel niðrandi.
Um skrauthvörf hafa verið notuð fleiri orð, t.d. veigrun (veigrunarorð), fegrunarheiti, skrautyrði og tæpitunga. Íslensk orðabók gefur sem dæmi þegar fólk segir / ritar botn í stað rass.
Morgunblaðið, Tungutak, Þórður Helgason, BA í íslensku og sagnfræði og Cand.mag í bókmenntum.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Umhverfisstofnun sendi frá sér óvanalega yfirlýsingu í vikunni
Frétt á vísir.is.
Athugasemd: Hvort skyldi yfirlýsing hafa verið óvanaleg eða óvenjuleg? Bæði orðin hafa svipaða merkingu en eitthvað segir mér að betra hefði verið að nota það síðarnefnda. Um það má vissulega deila.
Tillaga: Umhverfisstofnun sendi frá sér óvenjulega yfirlýsingu í vikunni
2.
MAX-vélar Icelandair fljúga af stað til Spánar.
Frétt á vísir.is.
Athugasemd: Flugvélar fljúga ekki sjálfkrafa. Betur fer á því að segja að þeim sé flogið.
Tillaga: MAX-vélum Icelandair flogið til Spánar.
3.
Hann er staddur í Manchester í Englandi þar sem hnífstunguárás var gerð í morgun og eru fimm særðir eftir hana.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ódæðismaður stingur fimm manns með hníf. Eðlilega særast þeir, það leiðir af sjálfu sér. Af hverju er þó ekki hægt að skrifa málsgrein án þess að festast í nafnorðavandanum hnífstunguárás?
Lykilatriðið er að leysa út hnoðinu, skilja að þegar hnífur er notaður hefur fólk særst.
Tillaga: Hann er staddur í Manchester í Englandi árásarmaður stakk fimm manns með hnífi.
4.
Við Úthlíð 12 í Reykjavík stendur dásamleg 247 fm sérhæð.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Órökrétt er að segja að íbúðir standi við götu. Þær eru í húsum sem standa við götu. Engu skiptir þó íbúðin sé í einbýlishúsi.
Flestir myndu segja að íbúðin sé í Úthlíð 12, varla við húsið, þá væri hún utan við það. Hins vegar kann hefðin að segja annað en hér er frekar tekið mark á máltilfinningunni.
Tillaga: Í Úthlíð 12 í Reykjavík er dásamleg 247 fm sérhæð.
5.
656 kíló af rusli féllu til frá til frá hverjum Íslendingi árið 2017 og gerir það þjóðina að einum mestu ruslurum Evrópu samkvæmt tölfræði Eurostat.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Enginn íslenskur fjölmiðill annar en Mogginn leyfir sér að byrja setningar á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert vegna þess að tölustafir eru önnur tákn, með önnur gildi, en bókstafir, og getur valdið ruglingi að nota tölustaf á eftir punkti eða í upphafi skrifa.
Hvað er ruslari? Hef ekki getað fundið neina einhlíta skýringu á orðinu, að minnsta kosti ekki í þeirri merkingu sem það er notað í fréttinni. Ég get ímyndað mér að ruslari sé sá sem ekki tekur til í kringum sig, á heimili sínu eða nánasta umhverfi.
Tillaga: Að meðaltali henti hver Íslendingur árið 2017 um 650 kg af rusli sem Evrópumet samkvæmt tölfræði Eurostat.
6.
Það var verið að taka niður gamla geymslu.
Fréttir kl.18 og 19 í hljóðvarpi og sjónvarpi Ríkisútvarpsins, orð viðmælanda.
Athugasemd: Hafi geymslan verið til dæmis á efstu hæð í fjölbýlishúsi má gera ráð fyrir að hún hafi verið tekin niður, það er hífð niður með krana.
Af öllu má þó ætla að verið var að rífa geymslu sem stóð á víðavangi eins og segir í öðrum fréttamiðli.
Af hverju segir þá viðmælandinn ekki hreint út að þarna fólk verið að rífa gamla geymslu eða hafa veigrunarorð tekið breytingum? Er ljótt að nota sögnina að rífa?
Fyrir þá sem ekki vita eru eru svokölluð veigrunarorð, skrautyrði, notuð yfir þau orð eða orðasambönd sem sumir treysta sér ekki til að nota. Dæmi eru æxlunarfæri karla og kvenna, afturendi fólks, blótsyrði og svo framvegis.
Tillaga: Verið var að rífa gamla geymslu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.