Heimsmeistarar Frakklands, innheimt veggjald og endi flugvélar
11.10.2019 | 08:59
Orðlof
Baggamunur
Að ríða (eða gera) baggamuninn merkir að ráða úrslitum.
Baggamunur er munur á böggum á reiðingshesti (ÍO). Reiðmaður hallar sér til annarrar hvorrar hliðarinnar svo að baggarnir haldi jafnvægi.
Ekki er hægt að ráða baggamuninn þótt oft sjáist og heyrist reynt. Kannski áhrif frá því að ráða úrslitum?
Málið, blaðsíða 63 í Morgunblaðinu 10.10.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ákærður fyrir að brjóta endurtekið á kærustu sinni þegar hún var sofandi.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Draugagangi orðsins ítrekað virðist vera að linna. Í staðinn er kominn annar uppvakningur sem er lítið skárri og það er endurtekið. Bæði eiga að koma í stað atviksorðsins oft sem tekur hinum tveimur yfirleitt langt fram.
Má vera að oft þyki ekki nógu stofnanalegt og flott en það dugar engu að síður. Er látlaust, stutt og segir það sem segja þarf.
Tillaga: Ákærður fyrir að brjóta oft á kærustu sinni þegar hún var sofandi.
2.
taka á móti heimsmeisturum Frakklands.
Íþróttafréttir í Ríkisútvarpinu Sjónvarpi kl. 19:25, 9.10.2019.
Athugasemd: Ekkert fótboltalið er heimsmeistarar Frakklands, það er tæknilega ómögulegt. Hins vegar eru Frakkar heimsmeistarar, Frakkland er heimsmeistari.
Rökrétt að segja blakmeistarar Frakklands, handboltameistarar Frakklands, fótboltameistarar Frakklands og er þá átt við þá sem hafa unnið titilinn í keppi innan landsins.
Nú er handboltavertíðin hafin en ekkert lið getur tekið á móti Íslandsmeisturum Selfoss. Það er líka tæknilega ómögulegt. Ástæðan er einfaldlega sú að Íslandsmeistaramót var ekki haldið innanbæjar á Selfossi. Engu að síður er Selfoss Íslandsmeistari í handbolta.
Munum að algjör óþarfi er að bæta lýsingarorðinu ríkjandi við (ríkjandi Íslandsmeistari, ríkjandi heimsmeistari). Nóg er að segja Íslandsmeistari vegna þess að aðeins einn maður, eitt lið, getur verið Íslandsmeistari hverju sinni.
Í íþróttafréttum sama fjölmiðils var sagt 10.10.19:
Heimsmeistararnir í liði Frakka
Frekar skrýtilega að orði komist en líklega vill fréttamaðurinn hafa skal það sem betur hljómar. Þó kann að vera að hann sem þetta sagði hafi átti við að í liði Frakka séu nokkrir sem urðu heimsmeistarar í fyrra og svo nýliðar. Eða
Nei, svona er ekki blaðamennskan. Lesandinn á ekki að þurfa að giska á hvað átt er við í fréttum. Gera á kröfu á fjölmiðilinn að þar starfi fólk sem er sæmilega vel máli farið.
Tillaga: taka á móti frönsku heimsmeisturunum.
3.
Innheimt veggjald má ekki verða svo hátt að bílstjórar velji að fara Vesturlandsveginn gjaldfrjálsan í gegnum Mosfellsbæ.
Fréttaskýring á blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu, 10.10.19
Athugasemd: Óþarfi er að tala um innheimt veggjald í þessu samhengi. Nóg er að tala um veggjald.
Betra er að segja Vesturlandsveg, það er án greinis. Venjan er sú að nota síður ákveðinn greini með sérnöfnum, það er örnefnum og ýmsum heitum eins og vegum, sveitarfélögum, hverfum og landshlutum.
Tillaga: Veggjald má ekki verða svo hátt að bílstjórar vilji frekar aka án gjalds um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ.
4.
Hér má sjá valkostina sem einn af áskrifendum okkar fær að velja um
Auglýsing á blaðsíðu 44 í Morgunblaðinu 10.10.19.
Athugasemd: Þessi málsgrein er hörmulega illa samin. Líklega hefur textagerðinni verið útvistað til Indlands og einhver þarlendur hnoðað henni saman með aðstoð Google Translate. Þetta var nefnt í þessum pistlum í ágúst síðastliðinn. Síðan hafa fjölmargar auglýsingar um sama efni birst, fallegar myndir en alltaf með þessum hræðilega illa samda texta.
Mogginn er að safna áskrifendum og ætlar að gefa einum þeirra bíl. Um það fjallar auglýsingin í blaðinu. Í henni sjást tveir bílar og sá heppni má velja annan þeirra. Á Moggamáli kallast þetta valkostir.
Valkostur er varla orð, bastarður. Tvö orð, val og kostur, sem nánast merkja það sama. Annað þeirra dugar alltaf. Í þokkabót segir í auglýsingunni að áskrifandinn megi velja um valkosti.
Hefði ekki dugað að segja að sá heppni fái að velja annan hvorn bílinn?
Tillaga: Hér eru tveir bílar sem einn af áskrifendum okkar fær að velja um
5.
Samkvæmt vitni byrjuðu fjórir karlmenn að slást í enda flugvélarinnar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Held að samkvæmt málvenju sé aldrei talað um enda flugvélar. Ekki myndi það teljast vel að orði komist að tala um enda skips, endann á strætó eða endann á bíl.
Miklu betur fer á því að tala um afturhluta flugvélar þegar fjallað er um þá sem eru inni. Skutur er aftasti hluti báts eða skips. Sumir velja sér aftasta sætið í strætó eða rútu, enginn talar um endasæti. Ég minnist þess ekki heldur að talað sé um endann á bíl.
Hins vegar er oft talað um afturenda á fólki og margir hafa fengið spark í hann. Sá endi stendur þó engan veginn undir nafni miðað við mann sem er uppréttur.
Tillaga: Samkvæmt orðum vitnis byrjuðu fjórir karlmenn að slást í aftast í flugvélinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.