Sýna hegðun, ollað usla og grennast um tólf kíló

Orðlof

Subbukvóti 

Það er umhugsunarefni, alvarlegt umhugsunarefni, fyrir þá sem unna íslenskri tungu, hvílíkt metnaðarleysi í málfarslegum efnum ríður húsum íslenskra fjölmiðla. […] 

Það skal þó enn einu sinni ítrekað að vissulega er margt góðra íslenskumanna starfandi bæði við blöð og ljósvakamiðla. 

Margt er þar vel sagt og skrifað, en hitt heldur áfram að stinga í augu og særa eyru, hversu margir bögubósar fá að fara sínu fram átölulaust að því er virðist. Fólk, sem er fyrir löngu búið að fylla subbukvótann sinn og ætti að vera horfið til annarra starfa.

Morgunblaðið 2002,, Eiður Guðnason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Seg­ir Íslend­inga sýna grófa hegðun.“

Frétt á mbl.is.             

Athugasemd: Hér áður fyrr áttu börn og raunar allir að hegða sér vel, láta af slæmri hegðun. 

Ekki er langt síðan að gáfulega þenkjandi fólk tók að krefjast þess að börn og aðrir „hegðuðu sér“. Þetta fólk kann ensku betur en íslensku og heldur að íslenska sögnin hegða sé sömu merkingar og enska sögnin „behave“, hegða sér vel.

Þessu næst grípur nafnorðasýkin um sig. Nú eiga allir að „sýna hegðun“, helst góða, ekki slæma og þaðan af síður grófa.

Svona „þróast“ nú tungumálið en ekki gleðjast allir yfir nafnorðavæðingunn þó flestir stilli sig og „sýni hegðun“.

Tillaga: Segir hegðun Íslendinga grófa.

2.

„Hún varð valdur af bílslysi í lok ágúst þar sem nítján ára breskur piltur lést.“

Frétt á ruv.is.             

Athugasemd: Þetta er grátlega illa gert. Konan olli bílslysi … Rangt er að segja hún „varð valdur af“. 

Tillaga: Hún olli bílslysi í lok ágúst en í því lést nítján ára breskur piltur.

3.

„… var á dögunum ákærður fyrir að hafa ollið miklum usla á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum.“

Frétt á dv.is.              

Athugasemd: Tæpum sólarhring eftir að þessi frétt birtist eru hún enn óleiðrétt. Líklega les enginn á ritstjórn DV fréttir sem samstafsmenn skrifa. Verra er ef enginn innanbúðar er vel að sér í íslensku máli.

Sjá þetta í málfarsbankanum:

Valda: Kennimyndir: valda, olli, valdið. 

Nútíð veld. Viðtengingaháttur nútíðar valdi, viðtengingaháttur þátíðar ylli. 

Óveðrið hefur valdið erfiðleikum en ekki „óveðrið hefur ollið eða ollað erfiðleikum“. 

Orðmyndin ollið er lýsingarháttur þátíðar af sögninni vella.

Hér er því réttara að segja hefur valdið.

Tillaga: … var á dögunum ákærður fyrir að hafa valdið miklum usla á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum

4.

„Svona grennt­ist Jamie Oli­ver um 12 kíló.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Útilokað er að grennast um tólf kíló. Maðurinn hefur lést um tólf kíló og um leið hefur hann líklega grennst.

Tillaga: Jamie Oli­ver léttist um tólf kíló.

5.

„Gareth Southgate er búinn að undirbúa leikmenn sína fyrir það að ganga af velli ef þeir verða fyrir kynþáttaníði …“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Í staðinn fyrir að segja að maðurinn hafi undirbúið leikmenn skrifar blaðamaðurinn eins og barn: „búinn að undirbúa“. Svo segir blaðamaðurinn „ef þeir verða fyrir“ í stað þess að segja verði þeir fyrir.

Blaðamaðurinn lætur ekki þar við sitja og segir:

UEFA er búið að gefa út aðgerðaáætlun fyrir það ef kynþáttaníð kemur upp.

Málsgreinin er afar illa samin. Betra er að orða hana svona:

UEFA hefur gefið út aðgerðaáætlun vegna kynþáttaníðs.

Orðalagið í fréttinni er skýrt dæmi um slæmar breytingar á íslensku máli sem margir blaðamenn taka óafvitandi þátt í að móta og dreifa. 

Þátíð er nú mynduð með orðunum er og búinn.

Viðtengingarháttur er myndum með orðunum ef og verða. 

Svona skrif eru ekki almenningi bjóðandi.

Tillaga: Gareth Southgate hefur búið leikmenn sína undir að ganga af velli verði þeir fyrir kynþáttaníði …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband