Dómarinn hraunaði, fullt af opnum húsum og valkostir til að velja
29.8.2019 | 14:24
Orðlof
Aðlögun tökuorða
Hér koma fáein minnisatriði um aðlögun tökuorða að íslensku.
- Þegar um er að ræða nafnorð þarf fyrst að átta sig á því hvaða málfræðikyn hentar (kk., kv., hk.) því að þá fylgir beyging sjálfkrafa á eftir. Skynsamlegt getur verið að fara yfir beygingu orðsins í öllum föllum og báðum tölum og með greini. Komið geta í ljós agnúar sem gott er að vita strax um.
- Það þarf að sjá til þess að ekki séu hljóð eða hljóðasambönd í orðinu sem ekki eiga sér fyrirmyndir í eldri íslenskum orðum (t.d. danskt y, enskt w, sh o.s.frv.).
- Ritháttur: taka verður afstöðu t.d. til þess hvort ritað er i eða í, u eða ú, o eða ó o.s.frv. Best er að halda sig við stafi úr íslenska stafrófinu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Fljótlega eftir það hófst barátta hins góða og hins illa.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Þetta er ekki rangt orðað. Oft er hnoðast svo með orðin í rituðu máli að lesandinn gefst hreinlega upp á lestrinum. Nástaða gerir þar að auki textann óþjálan til lesturs.
Í fyrirsögninni hér að ofan er óþarfi að nota lausa (ákveðna) greininn, að minnsta kosti í seinna skiptið. Jafnvel má alfarið sleppa honum en það kann að vera smekksatriði.
Stundum er eins og margir blaðamenn noti lausa greininn á íslensku eins og hann er á ensku. The big man verður hinn stóri maður í stað þess að segja stóri maðurinn. Í feitletraða tilvikinu er greinirinn kallaður viðskeyttur.
Enginn óákveðinn greinir er til í íslensku eins og í ensku. Þessi í stað sleppum við viðskeytta greininum þar sem það á við, segjum stór maður þegar enskumælandi segja a big man.
Stundum má sjá lausa greininn misnotaðan. Betra er að nota hann sparlega.
Tillaga: Fljótlega eftir það hófst barátta milli góðs og ills.
2.
Dómarinn hraunaði yfir hann.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Getur það verið að dómari hrauni yfir einhvern? Fyrirsögnin vakti athygli mína og ég fletti upp á sagnorðinu ef vera kynni að ég skildi það ekki rétt.
Á málið.is segir að orðið merki það að sýna yfirgang, vaða yfir einhvern.
Fréttin fjallar um náunga sem var dauðadrukkinn, neitaði að blása í áfengismæli og svo segir:
Dómarinn sem dæmdi Saunders í fangelsi, las honum pistlinn. Sagði hegðun hans óábyrga og að hann hefði átt að vinna með lögrelgunni í málinu.
Af þessum orðum má draga þá ályktun að dómarinn hafi ekki hraunað yfir manninn heldur áminnt hann.
Það er tvennt ólíkt að hrauna yfir einhvern og að lesa einhverjum pistilinn.
Tillaga: Dómarinn las honum pistilinn.
3.
Fullt af opnum húsum.
Fyrirsögn á Facebook.
Athugasemd: Þá verið er að selja íbúð eða hús er hugsanlegum kaupendum boðið í heimsókn til að skoða. Í auglýsingum er þetta orðað svo að nú sé opið hús. Orðalagið hefur unnið sér sess í málinu og allir vita að það þýðir ekki að allar dyr séu ólokaðar, húsið sé galopið.
Þetta er nú allt gott og blessað. Hvernig eigum við að orða það þegar mörg hús eru opin? Mikill munur er á opnu húsi og opnum húsum. Víða kann að vera boðið í opið hús. Það veldur engum misskilningi.
Svo má nefna að orðalagið er í eintölu og hefur ákveðna merkingu. Varla er neitt við það að athuga að víða sé opið hús, opið hús út um allt, opið hús í flestum götum á Dalvík
Tillaga: Víða boðið í opið hús.
4.
Segir farir Sýnar ekki sléttar.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér er reglulega skemmtileg fyrirsögn. Orðalagið að segja farir sínar ekki sléttar merkir að segja frá óförum sínum eða vandræðum. Fyrirtækið heitir Sýn ehf og af fyrirsögninni má ráða að ekki gangi allt eins og ætlað var á þeim bæ.
Orðaleikir í fyrirsögnum eða meginmáli fréttamiðla eru sjaldnast vel heppnaðir, það sanna dæmin. Hér hefur þó tekist einstaklega vel til.
Í byrjun árs 2017 birtist þessi fyrirsögn í Fréttablaðinu:
Prestur barði Hallgrím.
Frekar óhuggulegt og fyrirsagnahausar væru vísir með að fordæma prestinn í athugasemdadálkum áður en þeir leggja á sig það erfiði að lesa fréttina. Skýringin er hins vegar sú að Hallgrímur er kirkjuklukka í Hallgrímskirkju og presturinn barði á hana með sleggju og hringdi þannig inn nýárið.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Hér má sjá valkostina sem einn af áskrifendum okkar fær að velja um
Auglýsing á blaðsíðu 36 í Morgunblaðinu 29.8.2019.
Athugasemd: Nei, nei ... hjálp. Það er ekki hægt að tala eða skrifa svona. Málsgreinin er einfaldlega illa samin. Þetta kallast hnoð sem er ekki er lesendum bjóðandi.
Staðan er sú að Mogginn er að safna áskrifendum og ætlar að gefa einum þeirra bíl. Um það fjallar auglýsingin í blaðinu. Í henni sjást tveir bílar og sá heppni má velja annan þeirra. Á Moggamáli kallast þetta valkostir.
Valkostur er varla orð, bastarður. Tvö orð, val og kostur, sem nánast merkja það sama. Annað þeirra dugar alltaf. Í þokkabót segir í auglýsingunni að áskrifandinn megi velja um valkosti. Hefði ekki dugað að segja að sá heppni fái að velja annan hvorn bílanna?
Orðómyndin valkostur er svona sambærileg ef við byggjum til og notuðum skrifritun, bullorð sem myndað er með orðunum skrifa og rita. Svo gleymum við okkur í hita leiksins og skrifum skrifritun.
Tillaga: Hér eru tveir bílar sem einn af áskrifendum okkar fær að velja um
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.