Elta hjarta, Tesla opnar, gera fréttir og tvær kúlur í hnakkann

Orðlof

Mínar síður

Eignarfornöfn í íslensku eru minn, þinn, sinn og vor. […] Eins og nafnið gefur til kynna eru eignarfornöfn notuð til að tákna og gefa til kynna eignir á hlutum og fyrirbærum.

En hvenær á að nota eignarfornöfn og hvenær á ekki að nota þau? Og hvar eigum við þá að nota þau?

Dæmi:

Turninn minn stendur uppi í hlíðinni.

Þarna er augljóst að ég á turninn. Turninn minn gefur til kynna að ég eigi hann. En breytum nú setningunni og segjum:

Minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Ég mundi setja ákveðið spurningarmerki við þessa setningu. Hún er á mörkum þess að geta staðið ein og sér án samhengis. Því það er ekki eðlilegt í íslensku að eignarfornafnið standi á undan nafnorðinu sem verið er að lýsa yfir eigninni á. Undantekning er þó ef verið er að leggja sérstaka áherslu á eignina. Dæmi:

Turninn hans Tóbíasar er niðri á torgi en minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Við könnumst við aðgangsstýrðar vefsíður hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem netnotendur geta sinnt einkamálum sínum, skoðað reikningsyfirlit, viðskiptasögu og fleira. Þessar síður heita yfirleitt Mínar síður. Þetta heiti er undir sterkum áhrifum frá ensku, sbr. My pages. Í ensku (og fleiri tungumálum) er þetta eðlileg orðaröð. En á íslensku væri eðlilegra að kalla þær Síðurnar mínar. […]

Orðabókin, málfarslögreglan.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Maður verður að elta hjartað.“

Fyrirsögn á visi.is.       

Athugasemd: Til eru þeir sem tapað hafa útlim, jafnvel nýru, lungu og að ónefndum árans botnlanganum. Verra er þó að missa hjarta sitt. Það gerist þó iðulega. Hjartað mitt hefur brostið nokkrum sinnum en slær þó enn án afláts. Nokkrum sinnum hefur maður verið með hjartað í buxunum af hræðslu. 

Ekkert lát er á furðulegum hugmyndum um sjálfið og er það einatt fengið úr ensku og troðið upp á íslenskuna. Margir hafa, nauðugir viljugir, þurft að „elta drauma sína“ út um allar trissur, til útlanda og hvaðeina. Væri ekki ráð að stofna ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í að elta hjörtu, drauma, hugmyndir, ástina og annað sem skreppur úr sjálfinu?

Sá ágæti maður sem „eltir“ hjarta sitt segir í fréttinni í Vísi:

Maður þarf að finna hvað hjartað segir og elta það. Það hefur alltaf verið útgangspunkturinn.

Ekkert er að því að fylgja hjarta sínu eða draumum. Orðalagið kemur úr ensku. Þar hafa orðin oft merkingu svo ekki sé talað um tilfinningu og því varhugavert að þýða orðrétt yfir á íslensku. Enskumælandi segja „follow your dream“ eða „follow your heart“. Málvenjan á ensku er á margan hátt allt önnur en á íslensku. 

Svo er það þetta orð „útgangspunktur“. Það er fengið úr sama ruslahaugnum og „tímapunktur“. Óþörf orð. Betra að segja: Það skiptir öllu máli, er aðalatriðið eða álíka.

Fjölmiðlar og þýðendur bíó- eða sjónvarpsmynda mega margir ekkert vera að því að gæta að blæbrigðum tungumála. Þeir kenna okkur að „elta“ draum eða hjarta. Og við gleypum allt hrátt sem stendur í fjölmiðlunum og í ensku bíómyndunum og sjónvarpsþáttunum. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Um þetta skeyta útgefendur fjölmiðla, ritstjórar og blaðamenn engu enda „elta“ þeir hvorki hjarta né drauma heldur „monninga“.

Tillaga: Við þurfum að fylgja hjartanu.

2.

Heyrðu tón­list Hildar Guðna­dóttur í nýjustu stiklu Jókersins.“

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Heyrðu þetta og heyrðu hitt, er tíðum sagt. Enginn segir: Heyrðu í lóunni, heyrðu þytinn í fjallaskarðinu, heyrðu kliðinn í ánni. Flestir segja hlustaðu á lóuna, hlustaðu á þytinn í skarðinu, hlustaðu á  tónlist Hildar.

Engu að síður segir í ljóði Gríms Thomsen, Landslag:

Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
   Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
   Íslands er það lag.

Og hvers vegna segir Grímur „heyrið“ en ekki hlustið? Þetta er „herhvöt“, hvatning. Hann er hann að vekja lesendur sína, áheyrendur, ýta undir skilning þeirra á landinu okkar, umhverfinu, náttúrunni.

Í fréttinni segir:

Íslenska tónskáldið Hildur Guðnadóttir, sem vakti mikla athygli fyrir hljóðrás sína fyrir þættina Chernobyl, semur tónlistina fyrir myndina og er tónlistin áberandi í nýju stiklunni.

Hvort semur tónskáldið hljóðrás eða tónlist? Get ómögulega skilið þessa málsgrein sem þar að auki er klúðurslega orðuð. Tónskáldið vakti mikla athygli fyrir tónlist, fyrir þættina og fyrir myndina. Og svo semur það tónlist sem er áberandi tónlist. Skelfing er að lesa nástöðu, endurtekningu á orðum.

Þetta er skemmd frétt.

Tillaga: Hlustaðu á tón­list Hildar Guðna­dóttur í nýjustu stiklu Jókersins.

3.

Það verður dregið í riðla fyrir Evrópudeild UEFA nú fyrir hádegi …“

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Það hvað …? Af hverju orðar blaðamaðurinn þetta ekki þannig að dregið verður í riðla? Berum málsgreinina saman við tillöguna hér fyrir neðan. Ólíkt meira ris er á henni.

Margir blaðamenn kunna ekki lengur þá list að búa til grípandi fyrirsagnir hvað þá að þeir skilji eðli fyrirsagna.

Tillaga: Dregið verður í riðla fyrir Evrópudeild UEFA nú fyrir hádegi …

4.

„Að lokum seldu þau gistihúsið til sonar þeirra.“

Frétt á dv.is.        

Athugasemd: Hér eru ensku áhrifin áberandi. Samt er þetta ekki rangt, en á ensku gæti þetta verið svona:

Finally, they sold the guest house to their son.

Fréttin er rammíslensk en blaðamaðurinn segir engu að síður að húsið hafi verið selt til sonarins. Við hin myndum eflaust hafa orðað það þannig að þau hafi selt syni sínum húsið.

Svona er nú enskan til heimabrúks.

Tillaga: Að lokum seldu þau syni sínum gistihúsið.

5.

„Tesla opn­ar á Íslandi í sept­em­ber.“

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Nicola Tesla (1856-1943) var serbnesk-bandarískur uppfinningamaður, eðlisfræðingur, véla- og rafmagnsverkfræðingur. Hann er dáinn og opnar ekkert lengur. 

Fyrirtækið sem kennt er við hann og framleiðir rafmagnsbíla opnar ekkert heldur, vegna þess að það hefur ekki máttinn til þess. Eigendur fyrirtækisins og starfsmenn geta hins vegar opnað verslun í Reykjavík.

Í fréttinni segir:

At­hafnamaður­inn og stofn­andi raf­bíla­fram­leiðand­ans Tesla, Elon Musk, seg­ir að Tesla muni opna þjón­ustumiðstöð fyr­ir eig­end­ur Tesla-bif­reiða 9. sept­em­ber.

Þetta er einfaldlega rangt.

Tillaga: Þjónustumiðstöð Tesla verður opnuð á Íslandi í september.

6.

„Ég man þegar ég byrjaði að gera fréttir í sjónvarpi.“

Pistill á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 31.8.2019.         

Athugasemd: Annað hvort semja menn fréttir eða vinna að fréttum. Varla getur verið rétt mál að „gera fréttir“.

Pistillinn er eftir einn snjallasta pistlahöfund Moggans og þó víðar væri leitað. Kostir hans er léttur og leikandi stíll og efnislega skemmtilegur. Þess vegna stingur svona þessi setning í augu.

Í pistlinum segir:

Það sem hefur ekki breyst er að rangur hlutur verður ekki réttur þótt þú endurtakir hann í sífellu. 

Hér er vel að orði komist. Allir vita að sannleikurinn er ekki alltaf fylginautur áróðurs. Fjölmargir trúa lyginni þegar hún er sífellt endurtekin. Fjöldi dæma er um slíkt meðal annars hér á landi síðustu misseri.

Tillaga: Ég man þegar ég byrjaði að semja fréttir í sjónvarpi.

6.

„Fyrst skal frægasta telja stjórn viðskiptaráðs. Hún samanstendur af launahæstu forstjórum landsins.“

Pistill á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 31.8.2019.         

Athugasemd: Skelfing er leiðinlegt þegar svona er tekið til orða. Er sögnin að samanstanda eitthvað betri eða fullkomnari er sögnin að vera?

Á málið.is segir:

samanstanda sagnorð: vera myndaður af, settur saman úr (e-u): hlaðborðið samanstóð af ýmsum heitum og köldum réttum.

Stjórn Viðskiptaráðs „er sett saman úr launahæstu forstjórnum landsins“. Svona myndi enginn tala, síst af öllu reyndur stjórnmálamaður og fyrrum fréttamaður.

Tillaga: Fyrst skal frægasta telja stjórn Viðskiptaráðs. Í henni eru launahæstu forstjórar landsins.

7.

„Ekkert hámhorf á nýju streymisveitunni hjá Disney.“

Fyrirsögn á visir.is.         

Athugasemd: Hér er nýyrði sem ég hef ekki áður séð. Orðið er ekki til á málið.is en á vefnum ordabokin.is segir um það:

Þegar horft er á margar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti í röð, með litlu eða engu hléi á milli. Yfirleitt myndir eða þætti sem eru í sömu mynda- eða þáttaröð.

Greinilegt er að orðið er myndað úr tveimur orðum, háma og horfa. Hið fyrra merki að borða hratt og með mikilli lyst. Í Íslenskri orðsifjabók segir að orðið merki að „éta græðgislega“. 

Yfirleitt tek ég nýyrðum með dálítilli tortryggni. Hins vegar finnst mér þetta dálítið snjallt orð og skemmtilegt. Beygist einfaldlega eins og hvorugkynsnafnorðið horf.

Tillaga: Engin tillaga.

8.

„Maðurinn sem varð fyrir árásinni nefbrotnaði og fékk tvær kúlur í hnakka.“

Frétt á ruv.is.          

Athugasemd: Líklega er nefbrotið léttvægt miðað við að fá tvær kúlur í hnakkann. Nei, þetta var ekki aftaka heldur var náunginn laminn svo kúlur mynduðust á höfuð hans, hnakkanum.

Fréttin er hlægileg, eiginlega bráðfyndin. Um leið afar sorgleg því efni hennar er ekkert gamanmál. Ég hlustaði á fréttamanninn lesa hana í hádegisútvarpinu 31.8.2019. Hann las hratt, rétt eins og hann mætti ekki vera að þessu, væri búinn að lofa sér á annan og merkilegri stað en í hljóðstofu.

Öll fréttin er hérna. Takið eftir nástöðu orðanna maður og persónufornafninu hann, hvort tveggja í eintölu og fleirtölu. Lesið fréttina upphátt með einhver konar „fréttamannatón“, sæmilega hratt og leggið áherslu á nástöðuorðin. Fólk mér tengt táraðist í hláturkviðunum:

Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið ákærðir fyrir að svipta mann frelsi sínu í Hverafold, beita hann margskonar ofbeldi og hóta honum lífláti. Maðurinn krefst þess að mennirnir verði dæmdir til að greiða honum 2,5 milljónir í miskabætur.

Mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa veist að manninum skammt frá Hverafold í Reykjavík í júní fyrir tveimur árum og neytt hann inn í bíl þeirra. 

Annar mannanna er sagður hafa ógnað manninum með hamri og hótað að brjóta á honum hausinn ef hann kæmi ekki inn í bíllinn. Mennirnir er síðan sagðir hafa ekið um höfuðborgarsvæðið, stöðvað við Rauðavatn, Rimahverfi og Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði og að endingu ekið honum heim. 

Á meðan ökuferðinni stóð er hinn maðurinn sagður hafa slegið hann ítrekað með flötum lófa og krepptum hnefa í andlit og höfuð, rifið í hár hans og tekið hann margsinnis hálstaki þannig að hann átti erfitt andardrátt og hótað að drepa hann.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni nefbrotnaði og fékk tvær kúlur í hnakka. Hann krefst þess að mennirnir tveir verði dæmdir til að greiða honum 2,5 milljónir í miskabætur. Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.

Fyrirsögn fréttarinnar er „Ákærðir fyrir að svipta mann frelsi sínu“. Auðvitað er þetta alvarlegt mál en fyrirsögnin gæti verið: Sækjum, berjum, sendum. 

Glæpamennirnir óku svo fórnarlambinu heim eftir að hafa kvalið það og barið. Skyldi heimaksturinn ekki verða þeim skúrkunum til refsilækkunar? Alvöruglæpónar hefðu látið greyið ganga frá Rauðavatni, Rimahverfi eða Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði.

Fréttin er hroðvirknisleg og kjánaleg.

Tillaga: Engin tillaga

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gylfi Thor Orrason (IP-tala skráð) 2.9.2019 kl. 10:20

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir. Nýverið verið ... Stundum velti maður því fyrir sér hvort blaðamenn lesi fréttir sínar yfir fyrir birtingu eða þeir skilji ekki orðin sem þeir nota. Hvort tveggja er afara slæmt.

Leyfi mér að nota þetta í næsta pistli.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.9.2019 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband