Hratt hlé, höfnun og fyrir einhverju síðan

Orðlof

Hljóður

Gáta dagsins. Hvar eru málglöpin í þessu: „Fólk setti hljóðan við þessa fregn?“ Lýsingarorðið hljóður þýðir hér þögull. 

Konu setur hljóða
Karl setur hljóðan
Barn setur hljótt – og fólk sömuleiðis. 
Þær setur hljóðar
Þá setur hljóða
Þau setur hljóð

Merkir: að þagna, verða orðfall.

Málið, blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 17. júlí 2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Viðbragðsaðilar á Suðurlandi eru nú að sinna fjórhjólaslysi sem var við Geysi í Bláskógarbyggð.“

Frétt á Facebook síðu lögreglunnar, birt á mbl.is.     

Athugasemd: „Viðbragðsaðilar“ er eitt af þessum furðulegu orðum sem nýlega hafa orðið til í fréttum af óhöppum, slysum og náttúruhamförum. 

Við vitum að lögreglan bregst við mörgu, sama er með slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, húsverði, gangbrautarverði, meindýraeyði og jafnvel þá sem ryðja snjó af þjóðvegum og hafa þá aðrir vegfarendur eða þeir sem eru nærri verið nefndi. Allt eru þetta viðbragðsaðilar. 

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað er því nafni eða öðru sem það ber. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn.

Á malid.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.

T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Í upptalninguna vantar letiorðið „viðbragðsaðili“ sem má alveg hverfa úr málinu vegna þess að auðvelt er að nefna þá sem koma að óhöppum, slysum eða náttúruhamförum sínum réttu nöfnum.

Tillaga: Lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir á Suðurlandi eru nú að sinna fjórhjólaslysi sem var við Geysi í Bláskógarbyggð.

2.

„Red Bull með hraðasta þjónustuhlé í sögu Formúlu 1.“

Frétt á visir.is.   

Athugasemd: Hvernig getur hlé verið hratt? Í orðabókinni segir að hlé sé stutt stund sem rýfur verk eða athöfn. Af því leiðir að verkið er stöðvað þegar hlé verður. Að sjálfsögðu má vera að verði hlé á akstri leiði það til þess að annað verk hefjist.

Hvað er þjónustuhlé ef ekki hlé á þjónustu? 

Blaðamaðurinn er að fjalla um það sem nefnt er „the world’s fastest pit stop“.

Til að átta mig nánar á formúlu kappakstri þurfti ég að leita á netinu. 

Pit stop“ er staður þar sem kappakstursbílarnir aka inn á af keppnisbrautinni. Þar eru starfsmenn viðbúnir. Þeir hlaupa til og laga það sem þörf er á svo hraði bílarnir komist sem fyrst aftur út á keppnisbrautina, klukkan tifar. Oftast er skipt er um dekk því þau slitna gríðarlega í keppni og verða lakari í notkun eftir því sem lengra er ekið á þeim. Tíminn skiptir máli og því er mikilvægt að unnið sé hratt og bíllinn komist sem fyrst út á brautina.

Í Íslenskri orðsifjabók segir:

Pyttur k. djúp hola með vatni, t.d. í mýrlendi; þröngur hylur; sbr. nno. pytt, putt, sæ. pytt, d. pyt í svipaðri merk., sbr. og sæ. máll. putta, smáhola í jörð, fe. pytt jarðhola, brunnur,…

Líklega eru þetta náskyld orð, pyttur og „pit“ á ensku.

Sé þetta rétt þá er „pit stop“ orðrétt „gryfjustopp“. Orðabókin segir okkur ýmislegt um „pit“. Gryfjuna á smurstöð bíla þekkja allir og víða út um heim er hún kölluð „pit“ á ensku. Í leikhúsum, meðal annars í Þjóðleikhúsinu er gryfja sem enskir kalla „pit“ en við nefnum hljómsveitargryfju. Í bandarískum hafnarbolta er gryfja, „pit“, staður sem er lægri en leikvangurinn og stendur því undir nafni.

Þó talað sé um „pit“ í formúlunni er ekki lengur átt við gryfju heldur afmarkaðan stað þar sem veita má kappakstursbílum og ökumönnum þjónustu samkvæmt ákveðnum reglum. Hugsanlega má nefna hann þjónustusvæði eða viðgerðarsvæði. Hið síðara er líklega skárra svo orðalagið „þjónusta á þjónustusvæði“ komi ekki fyrir.

Tillaga: Red Bull með hörðustu þjónustuna á viðgerðarsvæðinu.

2.

„Vildi heita það sama og uppáhalds liðið sitt en fékk höfnun.“

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Hver er munurinn á orðunum neitun, höfnun og synjun? Við fyrstu sýn gætu þau þýtt nákvæmlega það saman. Tilfinning fyrir málinu segir okkur að munurinn getur verið mikill.

    • Umsókn er frekar synjað, síður hafnað eða neitað.
    • Bónorði er frekar neitað en varla hafnað eða synjað.
    • Frambjóðanda er oft hafnað, en varla neitað eða synjað.

Maðurinn sótti um að fá að heita Tottenham. Honum var neitað um það, umsókninni var synjað. 

Tillaga: Vildi heita það sama og uppáhalds liðið sitt en var neitað.

3.

„… eft­ir að til­kynn­ing barst um að bif­reið sem stolið var í Reykja­vík fyr­ir ein­hverju síðan væri stödd á Skaga­strönd.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Þetta er frekar kæruleysilegt orðalag. Réttara er að segja að bifreiðinni hafi verið stolið fyrir nokkru. Sleppa danska orðalaginu „síðan“ (d. siden), það hefur ekkert að segja og bætir aungvu við skilning lesandans.

Blaðamaðurinn segir að bifreiðin sé „stödd á Skagaströnd“. Skýrara er að segja: Bifreiðin er á Skagaströnd.

Hvað merkir eiginlega að bifreiðinni hafi verið stolið fyrir „einhverju síðan“. Orðalagið er ósköp loðið. Um þessar mundir er vinsælt að segja einhverju síðan, einhverjum dögum, eitthvað af fólki, einhverjar milljónir, einhverjir hestar og álíka í stað þess að nota nokkur eða nokkrum.

Einhver og nokkur eru hvort tveggja fornöfn, sjá nánar hér (fjórði liður).

Tillaga: … eft­ir að til­kynn­ing barst um að bif­reið sem stolið var í Reykja­vík fyr­ir nokkru væri á Skaga­strönd.

4.

„Veitingastaðnum Essensia lokað.“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Vel gert hjá blaðamanninum. Hann fellur ekki í þá gryfju eins og svo margir aðrir að segja að „veitingastaðurinn hafi lokað“.

Fyrirtæki og hús geta ekki opnað eða lokað neinu. Aðeins fólk getur það.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„… kom í veg fyrir að fjárveitingar í sjóð sem greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu viðbragðsaðila sem glíma við veikindi eftir …“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Hér er enn fjallað um atriði sem frá er sagt í fyrsta lið hér að ofan. Hverjir eru viðbragðsaðilar? Í heild er málsgreinin sem vitnað er til svona:

Rand Paul, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, kom í veg fyrir að fjárveitingar í sjóð sem greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu viðbragðsaðila sem glíma við veikindi eftir störf sín á vettvangi eftir árásirnar á Tvíburaturnana í New York yrðu tryggðar til árins 2090.

Heimildin fyrir fréttinni er thehill.com. Þar segir:

Sen. Rand Paul (R-Ky.) on Wednesday blocked an attempt by Democrats to pass an extension of the September 11th Victim Compensation Fund. 

Þarna er talað um fórnarlömb árásanna.

Síðar í ensku fréttinni segir:

McConnell said after a meeting with 9/11 first responders that it was his plan to bring the bill up before the recess. 

Þarna er talað um „first responers“ sem margir íslenskir blaðamenn hafa þýtt sem viðbragðsaðilar en orðrétt eru það þeir sem svara útkalli. Hins vegar er algjörlega óljóst hverjir slíkir eru hér á landi jafnvel þó það kunni að vera slökkviliðsmenn og lögregla í Ameríkunni.

Alhæfingin með viðbragðsaðilar er eins og að tala um íþróttaaðila, án nokkurrar frekari skilgreiningar á orðinu. Og hvers vegna erum við að gera orðinu aðili svona hátt undir höfði?

Tillaga: Engin tillaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband