Bíll klessir, tímapunktur, ferðir farnar og deyja friðsamlega
10.7.2019 | 14:39
Orðlof og annað
Flýja unnvörpum
Unnvörp (fleirtala) þýðir sjógangur eða þangdyngja sem sjór hefur varpað á land. Atviksorðið unnvörpum merkir í stórum stíl, í hrönnum.
Unnur er alda og í unnvörpum er vísað til bylgna er falla þétt (Mergur málsins). Íslendingar flýja unnvörpum í sólina. Ekki umvörpum. (Umvörp þýðir útjaðrar.)
Málið á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 10.7.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Bíllinn klessti ekki á neinn stóran stein og féll ekki fram af bjargi.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Barnalegt er að nota orðalagið klessa á þegar verið er að lýsa því þegar bíll rekst á annan bíl, hús eða annað.
Eiður Guðnason sagði í Molum sínum:
Í fréttinni segir: en bílstjórinn sem hann kom til bjargar stal og klessti bíl hans, sem hann hafði lagt skammt frá. Sjálfsagt er þetta nú orðið viðtekið orðalag um að skemma eða beygla bíl. Og skömminni skárra en að tala um að klessa á, -sem stundum hefur verið kallað leikskólamál í þessum Molum.
Við þessi orð Eiðs heitins er eiginlega engu á bæta.
Ofangreind tilvitnun er þýðing blaðamannsins á þessum orðum:
Luckily, we were not hurt at all and our car did not hit any big rock or fell off a steep cliff off the valley.
Engin klessa þarna í enskunni. Þýðing blaðamannsins er frekar lausleg svo ekki sé meira sagt. Athygli vekur þó að í íslensk textanum segir að bíllinn hafi rekist á stóran stein. En hvað er stór steinn? Um það geta verið áhöld, en orðalagið er leikskólamál.
Betur fer á því að tala um bjarg en stóran stein. Þá gengur samt ekki að segja að bíllinn hafi hvorki rekist á bjarg eða ekið fram af bjargi. Hvernig getur blaðamaðurinn bjargað sér frá þessu?
Tillaga: Hann rakst ekki á bjarg og féll ekki fram af klettum.
2.
Þó barst mbl.is til eyrna frá á þeim tímapunkti að viðræðurnar hefðu reynst flóknari en búist var við
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Tímapunktur er vandræðaorð, eiginlega þarflaust í íslensku. Orðið hjálpar ekki neitt, fyllir ekki upp í neina þörf og kemur ekki í stað annarra orða. Engu að síður nýtur það mikill vinsælda hjá ungum og óreyndum skrifurum, fólki sem hefur rýran orðaforða.
Hér þarf engra vitna við. Auðveldast er að bera saman ofangreinda tilvitnun við tillöguna hér að neðan.
Tillaga: Þó frétti mbl.is að síðan þá hafi viðræðurnar reynst flóknari en búist var við
3.
Konan sem býr í íbúðinni sem varð eldi að bráð
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Þetta orðalag er algengt í fjölmiðlum, oft notað hugsunarlaust, en fer ekki alls staðar vel. Má vera að það sé bara ég sem hnýt um það.
Bráð er nafnorð í kvenkyni og merkir samkvæmt orðabókinni dýr sem er veitt enda er villibráð er eftirsótt. Það breytir því ekki að jafnvel í yfirfærðri merkingu er orðalagið slakt. Íbúð er ekki bráð jafnvel þó eldur sé eins og rándýr og íbúðin bráð.
Svona hjáorðaæfingar eru algengar í fjölmiðlum, sérstaklega í íþróttum. Svo virðist sem margir forðist að orða hlutina eins og þeir eru. Gripið er til málshátta og orðtaka sem skrifarinn kannast við, skilur ekki alltaf til fullnustu eða áttar sig ekki á samhenginu.
Margir íslenskir fjölmiðlamenn eru ágætir í stíl og íslenskan er yfirleitt góð. Þeir hafa drjúgan orðaforða og ættu að vera fyrirmynd. Ættu þeir ekki að leiðbeina nýliðum?
Þegar ég var að byrja í blaðamennsku á Vísi í gamla daga las Elías Snæland Jónsson, ritstjórnarfulltrúi, yfir öll handrit sem bárust frá blaðamönnum. Ósjaldan þurftum við að lagfæra skrifin. Þá var maður óánægður en uppeldið var gott enda Elías málvís maður.
En nú er hún Snorrabúð stekkur og enginn Elías á fjölmiðlunum. Ekki einu sinni prófarkalesarar. Þeir eru úrelt stétt og því má skrifa hvað sem er og hvernig sem er.
Eldur kviknaði í íbúðinni, svo einfalt er það. Vissulega er ekki alrangt að segja að íbúðin hafi orðið eldi að bráð en það á ekki við. Flokkast sem stílleysa.
Tillaga: Konan sem býr í íbúðinni sem kviknaði í
4.
Engar skipulagðar ferðir hafa verið farnar á Svínafellsjökul í sumar.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 10.7.2019.
Athugasemd: Nú er svo komið að ferðir eru farnar, margir hlaupa langhlaup, ganga göngu, æfa æfingar, tala ræðu og svo framvegis.
Lesa blaðamenn ekki skrif sín áður en þau eru birt?
Frá því í mars hefur ekki verið farið í ferðir á Skaftárjökul en á vorin kemur undan jöklinum og hann verður ótryggur.
Hvað kemur undan jöklinum? Blaðamaðurinn býr til orð og lesandi skilur hvorki upp né niður. Þetta er skemmd frétt og fleira rökstyður það:
Það eru merkingar þarna sem segja til um ástandið við jökulinn, en öll fyrirtækin fluttu ferðir sínar yfir á annaðhvort Falljökul eða Skaftafellsjökul. Það fór eftir gerð ferða
Hvað fór eftir gerð ferða? Hvernig fluttu fyrirtæki ferðir sínar? Ekki er nóg að taka upp orð viðmælandans og birta þau athugasemdalaust. Skylda blaðamannsins er eða koma með skýra frétt, veita upplýsingar. Í þessu tilfelli er lesandinn einfaldlega hissa á því sem hann les.
Tillaga: Engar skipulagðar ferðir hafa verið á Svínafellsjökul í sumar.
5.
Með samþykkt tillögu, sem gerir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að rannsaka fíkniefnastríð Filippseyjaforseta, munu allir sem að henni standa fá veglega bónusgreiðslu frá eiturlyfjahringjum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Nafnorðavæðingin lætur ekki að sér hæða. Hún er skilgetið afkvæmi enskunnar en á ekki við hér á landi. Margir blaða- og fréttamenn eru vel að sér í ensku en lakari í íslensku. Enskuskotin mengun er hættulegasti óvinur íslenskunnar.
Samþykkt er hér nafnorð í kvenkyni. Betur fer á því að segja: Verði ályktunin samþykkt
Með fréttinni er birtur texti á Twitter sem utanríkisráðherra Filippseyja ritar. Í honum er enska orðið resolution notað. Í þessu tilviki er það ályktun. Annars væri proposal eða eitthvað álíka.
Orð utanríkisráðherrans í Vísi eru ekki hin sömu og á Twitter, en þar segir hann:
If the Iceland resolution wins that means bonuses for everyone who worked for itfrom the drug cartels.
Blaðamaðurinn skýtur þessu inn í orð ráðherrans:
sem gerir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að rannsaka fíkniefnastríð Filippseyjaforseta
Af hverji gerir blaðamaðurinn þetta? Í næstu málsgrein skrifar hann:
Þetta skrifar utanríkisráðherra landsins, Teodoro Locsin Jr., á Twitter-síðu sína í gærkvöld og vísar þar til tillögu Íslands um að gerð verði úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum.
Blaðamaðurinn bætir við orð ráðherrans og endurtekur sömu viðbót örstuttu síðar.
Hvað kallast svona vinnubrögð? Ónákvæmir, hroðvirkni, fljótfærni ? Ég held að mörgum blaðamönnum liggi alltof mikið á og þeir lesi ekki yfir skrif sín fyrir birtingu. Öllum er þörf á gagnrýnum yfirlestri en sumir þurfa að láta aðra lesa skrif sín yfir.
Tillaga: Verði ályktunin samþykkt munu allir sem unnu að henni fá bónusa - frá eiturlyfjahringjum.
6.
Samkvæmt heimildum Markaðarins samanstóð kaupendahópurinn af nærri tuttugu sjóðum og fjárfestum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvar voru þessir tuttugu sjóðir og fjárfestar? Jú, í kaupendahópnum. Þarf þá að ræða eitthvað frekar um sagnorðið samanstanda sem er í tilvitnuninni? Greinilegt er að það er óþarft.
Samkvæmt orðabókinni er orðið myndað af setja saman úr.
Þetta er dæmi um hjáorðavændi í fjölmiðlum sem þarf að forðast. Berum bara saman tilvitnunina og tillöguna.
Tillaga: Samkvæmt heimildum Markaðarins eru nærri tuttugu sjóðir og fjárfestar í kaupendahópnum.
7.
Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi dáið friðsamlega með eiginkonu sína, Amy Wright, og tvær dætur við sína hlið.
Frétt á dv.is
Athugasemd: Það er nú gott að maðurinn hafi dáið friðsamlega en ekki með látum. Veit ekki hvort það sé sæmilegt að taka svona til orða en þetta datt mér í hug þegar ég las tilvísunina.
Fréttin er vond, illa þýdd. Allt bendir til þess að blaðamaðurinn fái enga tilsögn á ritstjórninni.
Þá datt mér í hug hann Kolbeinn Sighvatsson og félagar hans sem biðu milli vonar og ótta í kirkjunni eftir Örlygsstaðabardaga. Þeir þurftu svo á kamarinn enda mátti þá ekki létta á sér þar inni og guldu þeir fyrir kamarferðina með lífi sínu. Varla hafa þeir fallið friðsamlega er Gissur Þorvaldsson lét höggva þá. Þannig hafa margir dáið í ófriði, jafnvel ófriðsamlega.
Enska orðið peacefully er vandþýtt. Á íslensku er sjaldgæft að nota orðið friðsamlega þegar sagt er að fólk skilji við. Stundum er sagt að fólk hafi dáið í ró en ekki fer heldur vel á því. Yfirleitt er svona lýsingu sleppt í íslenskum minningargreinum. Má vera að þess vegna er orðið friðsamlega sé svo ókunnuglegt og andstæða þess frekar truflandi okkur eftirlifendum.
Nokkur munur er að hafa einhvern við sína hlið eða hjá sér. Á enskunni gæti blaðamaðurinn verið að þýða orðalagið by his side og farist það frekar óhönduglega.
Leikarinn var virkur bæði á skjá og sviði í rúm sextíu ár.
Óvenjulegt er að segja leikara virkan á skjá. Hér áður fyrr kom fyrir að skjáir frysu sem kallað er, mynd stoppaði og henni var ekki þokað nema tölvan væri ræst upp á nýtt. Mætti segja mér að þegar slíkt gerist væri leikari frekar óvirkur á skjánum.
Betur fer á því að segja að leikarinn hafi starfað í kvikmyndum, sjónvarpi og á sviði í rúm sextíu ár.
Tillaga: Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi andast í faðmi fjölskyldunnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.