Illa skrifaður leiðari í Mogganum
17.6.2019 | 13:37
Skyld´ann Davíð vita af´essu? varð mér að orði þar sem ég sat við morgunverðarborðið og las leiðara Morgunblaðsins. Ljóst að ritstjóri blaðsins er ekki höfundurinn. Er að hugsa um að krefjast endurgreiðslu á áskriftinni.
Leiðarinn byrjar svona:
75 ár eru langur tími í lífi einstaklinga og jafnvel í lífi heilla ríkja.
Aldrei skal byrja setningu á tölustöfum. Hins vegar er í lagi að skrifa tölur með bókstöfum. Þarna hefði öllu að skaðlausu má segja: Sjötíu og fimm ár er langur tími ...
Sögnin að vera (er) er í tilvitnuninni í þriðju persónu fleirtölu (eru) en ætti að vera í eintölu því þarna er vísað til orðsins tíma, sem er í eintölu.
Vaxandi lífslíkur má telja meðal þess mikla árangurs sem náðst hefur hér á landi frá því að landið fékk sjálfstæði, og raunar allt frá því að það fékk fullveldi, enda voru lífslíkur fólks innan við sextíu ár fyrir einni öld.
Meðalaldur hefur hækkað í öllum löndum Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu sjötíu og fimm árum. Það væri meiri frétt ef lífslíkur Íslendinga væru ekki í samræmi við það sem gerst hefur meðal annarra þjóða.
Betur fer á því að orða hugsunina svona:
Þegar þjóðin fékk fullveldi, fyrir rúmri einni öld, voru lífslíkur fólks innan við sextíu ár. Meðalaldurinn nú er miklu hærri og verður það að teljast mikill árangur.
Hnitmiðuð hugsun er ekki fólgin í mörgum orðum:
Þegar horft er til samanburðar á milli landa sést einnig að Ísland er í allra fremstu röð þegar kemur að lífslíkum, sem segir mikið um hve vel hefur tekist til og hve gott er að búa á Íslandi.
Málsgreinin er allt of löng og segir í raun ekkert annað en þetta:
Meðalaldur er hærri á Íslandi en víðast annars staðar og bendir til að vel hafi tekist og gott sé að búa hér.
Þetta er mun styttri málsgrein og hnitmiðaðri og engin nástaða eins og í tilvitnuninni.
Hér er matur heilnæmur og hollur miðað við það sem víðast þekkist og nóg til af honum. Hér eru loftgæði mikil og nóg er af vatni sem enginn þarf að óttast að drekka.
Öllum ætti að vera ljóst að höfundurinn á við Ísland. Engu að síður tönglast hann á hér svo úr verður nástaða. Með nær engri hugsun hefði hann getað orðað þetta svona:
Við Íslendingar framleiðum heilnæman og hollan mat. Hvergi er skortur á vatni og loftgæði eru mikil.
Auðvitað er þetta bölvað hnoð og algjörlega stíllaust. Nafnorðastíllinn er yfirþyrmandi.
Síðar er talað er um að tengja saman byggðir landsins og örstuttu síðar hnýtur lesandinn um Sú tenging .... Þetta er eins og þegar óskrifandi hugsjónamanni er falið að rita ályktun stjórnmálaflokks (sem gerist æði oft). Útkoman verður frekar óáhugaverð.
Þó að Íslendingum hafi fjölgað mikið frá því að landið hlaut sjálfstæði eru þeir enn fáir í samhengi við aðrar þjóðir og þurfa að vinna vel saman og standa saman um að efla hag lands og þjóðar.
Höfundur leiðarans veit ekki hvað nafnorðið samhengi þýðir. Það þýðir ekki samanburður. Íslendingar kunna að vera fáir í samanburði við aðrar þjóðir. Á eftir kemur einhvers konar hvatning á ekki við í sömu málsgreina og malið um fjölgun landsmanna.
Strax á eftir greinaskilum segir:
Óhætt er að segja að vel hafi tekist til að þessu leyti.
Þetta er hreinlega óskiljanlegt innskot, lesandinn veit ekkert hvað höfundurinn á við.
Á eftir kemur innantómur texti, nokkurs konar helgidagablaður:
Ísland hefur á því tímabili sem hér um ræðir farið um langan veg frá fátækt til farsældar. Það er fjarri því sjálfsagt að ná slíkum árangri og mikilvægt að leiða hugann að því hvernig svo mátti verða.
Svo innantóm eru þessi orð að það jaðrar við að bergmál heyrist.
Svo er það þessi langloka:
Fyrir utan þær heilnæmu aðstæður sem áður voru nefndar og öflugt heilbrigðistkerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi, og fær vonandi að vaxa og dafna áfram með fjölbreyttum hætti, hefur sá grunnur sem lagður hefur verið með víðtæku og öflugu menntakerfi verið nauðsynleg forsenda vaxandi hagsældar.
Orðið heilbrigðiskerfi er þarna rangt skrifað. Punktur er mjög áhrifamikið tæki í skrifum. Hann styttir málsgreinar, krefur skrifara um skýra hugsun og stundum er hann bráðnauðsynlegur fyrir stílinn. Öll þessi orð segja í raun ekkert, eru bara blaður enda ekkert rökrétt samhengi milli einstakra setninga. Leiðarinn er gagnslaus ef lesandinn greinir ekki fulla hugsun höfundarins.
Næst er boðið upp á frasasýningu; sú fyrirhyggja, sýnd var, ráðast í og loks setning sem skilst ekki.
Sú fyrirhyggja sem sýnd var við að ráðast í virkjanir orkuauðlindanna, vatnsfallanna og heita vatnsins, hefur skilað þjóðinni miklum verðmætum og lífsgæðum. Þau skyldi aldrei vanmeta og þeim má aldrei glutra niður.
Hvað á aldrei að vanmeta og hverju má ekki glutra niður? Á höfundurinn við virkjanir, verðmæti, lífsgæði eða eitthvað annað?
Þá hefur þjóðin verið farsæl þegar kemur að undirstöðuatvinnuvegunum, sjávarútvegi og landbúnaði.
Þá hvað ...? Kemur að hverju ...? Þetta er ljóta samsetningin. Hún bendir til þess að höfundurinn sé ekki vanur skrifum og sé ungur að árum. Er annars ferðaþjónusta ekki orðin að undirstöðuatvinnuvegi?
Þau verðmæti sem sótt hafa verið í sjóinn á lýðveldistímanum hafa tryggt þjóðinni nauðsynlegan gjaldeyri og það var mikil gæfa að forystumenn þjóðarinnar skyldu hafa kjark til að víkka út landhelgina, sem ekki var sjálfsagt og tók mjög á.
Hvað var sótt í sjóinn? Var það kannski reki?
Halló! Var landhelgin víkkuð út? Skrýtið orðalag. Eldri og reyndari blaðamenn, raunar allflestir landsmenn hefðu sagt að landhelgin hafi verið stækkuð. Orðalagið bendir eindregið til þess að höfundurinn sé útlendingur og leiðarinn hafi verið skrifaður á framandi tungu en þýðingin fengin úr Google Translate?
Var stækkun landhelginnar ekki sjálfsögð? Fjöldi fólks telur svo hafa verið.
Tók útfærslan á? Nei, í öll skiptin var hún verkefni sem unnið var að af mikilli þekkingu, skipulagi og dugnaði.
Niðurlag leiðarans er svona:
Ísland hefur á 75 ára afmæli lýðveldisins traustan grunn að byggja á. Ef byggt er ofan á þennan grunn og gætt að því í hvívetna að grafa ekki undan honum geta ungir Íslendingar dagsins í dag horft til baka að 75 árum liðnum og séð þar aðra ævintýralega ferð vaxandi velsældar.
Hverjir grafa undan grunni? Líkingamál er gagnslaust nema að höfundurinn kunni að halda því áfram eða skilja hvenær á að hætta líkingunni. Yfir óþarfann er strikað.
Í heildina er leiðarinn frámunalega illa skrifaður. Reynt hefur verið að færa rök fyrir því hér að ofan. Stíllinn er slæmur og innihaldið rýrt.
Heyrst hefur af tölvuforritum sem geta ritað sennilegar frásagnir og jafnvel sögur og ljóð á enska tungu. Þegar nánar er að gáð vantar tölvuna ekki fín orð, huggulega frasa eða góða réttritun, heldur hugsun. Hún er svo óskaplega mikilvæg, sérstaklega þegar hana vantar.
Ég vona bara að Davíð Oddsson sé við góða heilsu og eftir að þessa löngu helgi haldi hann áfram skrifa leiðara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:38 | Facebook
Athugasemdir
Hann fær borgað fyrir hvert orð.
Ásgrímur Hartmannsson, 17.6.2019 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.