Álfar, dropasteinar, dropsteinar og strá
13.6.2019 | 10:40
Í grein í Morgunblaðinu er þeim hótað kynferðislegri óáran sem skemma og brjóta í íslenskum hraunhellum. Greinarhöfundur hefur þetta að eigin sögn frá þremur forvitrum álfkonum sem þó vita ekki muninn á dropsteinum og dropasteinum.
Höfundurinn hefur þetta eftir álfunum:
Brjóti karl dropastein missir hann þegar reisn. Brjóti kona dropastein missir elskhugi hennar getuna til samræðis.
Í enn styttra máli, konan sem brýtur steininn fær enga refsingu en álfarnir hefna sín á elskhuga hennar. Ekki þykir þetta nú mikil speki úr álfheimum. Þess ber þó að gæta að hefndarþorsti álfa er mikill eins og glögglega kemur fram í þjóðsögum. Einnig eru mörg dæmi um gjafmildi þeirra og gæsku.
Þetta er þó ekki aðalmálið heldur að umgengni í hraunhellum er vandamál, og hefur verið það lengi. Við því þarf að bregðast og það verður aðeins gert með því að loka hellum, selja aðgang að þeim og ráða gæslufólk til starfa. Greinin er skrifuð til að vekja athygli á víðtæku vandamáli, þó má deila um framsetninguna.
Svo er það hitt. Sko ... dropsteinar og dropasteinar er sitthvað.
Dropasteinar þekkjast ekki hér á landi en víða annars staðar. Þar falla kalksteinsríkir dropar ofan úr lofti hella og á gólf þeirra og þar verða til á löngum tíma drangar, drýli eða kerti úr kalki, oft litfögur. Sama er með loftið, þar teygja sig niður mjó kalksteinskerti og rennur vatn niður með þeim og svo fellur dropinn niður. Þetta eru dropasteinar, með ´a´.
Dropsteinar eru hins vegar allt annað þó myndunin sé ekki ólík. Þeir fyrirfinnast í hraunhellum. og myndast aðeins þegar hraun hættir að renna. Þá er mikill hiti í hellinum, hann bræðir úr þaki hellisins og þá falla hraundropar. Þeir renna hægt niður úr loftinu, mynda þar kerti og falla svo á gólfið og þar verða til dropsteinar sem geta orðið ansi háir.
Fyrir þrjátíu og sjö árum var mér bent á svona hraunhelli og sagt frá dropsteinunum sem þar er að finna. Þeir væru afar fallegir en þá mætti alls ekki snerta enda afar viðkvæmir og ekki fara með þá út. Ég og kunningi minn leituðum lengi að hellinum og fundum hann loks. Opið var lítið og erfitt að komast inn í hann því niðri þurfti a skríða nokkra metra eftir örmjóum göngum þar til komið var í stærri hvelfingu. Þetta var stórkostleg upplifun en nokkuð skelfileg þegar maður skreið eftir þröngum göngum og finna að ekki var mikið pláss til að fylla lungun af lofti. Þegar maður andaði að sér fannst hvernig gólf og þak gangnanna þrýsti á móti, gaf ekkert eftir.
Í stóru hvelfingunni var fjöldi undurfagurra dropsteina og raunar dropstráa, örmjórra hraunstráa, sem glömpuðu í birtunni af vasaljósunum. Þetta var mikill fjársjóður, silfur í kílóatali. Þar sem hellirinn var hæstur er hann meira en mannhæðarhár.
Einhverjir höfðu verið þarna á undan okkur. Nokkrir dropsteinar voru fallnir, annað hvort höfðu forverar okkar rekist í þá eða þeir hrunið í jarðskjálftum. Minnugir varnaðarorðanna gættum við vel að hreyfingum okkar, vildum ekki skemma neitt. Svo hégómlegur sem ég er gat ég ekki stillt mig um annað en að stinga inn á mig litlum dropsteini til minningar um ferðina.
Svo fórum við út og þar dró ég upp fjársjóðinn en álögin höfðu brostið. Ég hélt þarna bara á gráum steini sem var um flest líkur öðru hraungrjóti. Engin auðæfi, ekkert silfur. Og þarna skildi ég staðreyndir lífsins, njóta ber náttúrunnar með augunum, ekki skemma eða reyna að flytja hana til. Hún nýtur sín best við uppruna sinn.
Tvennu er við þetta að bæta. Hellirinn hefur verið tryggilega lokaður. Sem betur fer.
Svo er það hitt. Lög álfkvennanna höfðu líklega ekki tekið gildi þegar ég fór í hellinn. Mér hafði líklega verið refsilaust að fjarlægja brotið kerti úr hellinum. Að minnsta kosti hefur engin kona kvartað (svo ég viti).
Myndir:
Efsta myndin er af þéttum skógi dropsteina. Þarna kemst enginn nema skemma þá.
Miðmyndin er í göngunum að hellinum. Þar var skelfilega þröngt og alls ekki fyrir þá sem þjást af innilokunarkennd.
Neðsta myndin er af dropsteinum og stráum. Takið eftir hversu mjóir dropsteinarnir eru og á miðri mynd tengist dropsteinn við hellisloftið með örmjóu hraunstrái. Stórkostlegt fyrirbrigði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.