Fimm mestu jarðskjálftavæði landsins

Helstu jarðskjálftasvæði landsins virðast vera fimm.

  1. Norðaustan við Grindavík
  2. Norðan Laufafells á Fjallabaki
  3. Bárðarbunga
  4. Herðubreið
  5. Austan Grímseyjar 

Þetta þýðir þó ekki að von sé á eldgosi á þessum svæðum, og þó. Margar ástæður eru fyrir jarðskjálftum, meðal annars kvika sem er að brjóta sér leið upp á yfirborð.

GrindavíkAustan við Grindavík, það er norðan Hraunsvíkur og sunnan Fagradalsfjalls. Þarna hafa verið miklar jarðhræringar undanfarið ár. Flestir skjálftarnir eru frekar litlir, stórir. Raunar hefur verið mikil hreyfing á Reykjanesskaga og þá mest þarna og einnig suðvestan við Kleifarvatn, á Sveifluhálsi og í Móhálsadal. Raunar er það þannig að stórir skjálftar eru mjög sjaldgæfir á Reykjanesi enda er það svokallað fráreksbelti.

Undanfarin misseri hafa skjálftar norðan við Laufafell og austan við Rauðufossafjöll vakið athygli leikmanna. Þarna er tiltölulega stutt í Heklu en í kringum hana hafa orðið fjölmörg eldgos. Svo virðist sem að skjálftarnir teygi sig til austurs í áttina að Torfajökli. Ég hef hitt tvo mæta menn sem trúa því að þarna muni innan skamms hefjast eldgos. Annar þessara er draumspakur maður sem aldrei hefur haft rétt fyrir sér, hinn er áhugasamur landvörður sem vit sínu viti.Bárður

Bárðarbungu þekkja allir og þar er skelfilegt um að litast. Þar er gat ofan í tvöþúsund metra háan jökulinn og niður í hyldýpi þar sem bræðsluvatnið sýður og bullar og bíður þess sem verða vil.

Eldgosið í Holuhrauni varð þegar kvika braut sér leið til austur, snarsnéri svo til norðurs undan hallanum og kom síðan upp á yfirborðið á gamalkunnugum slóðum þar sem gosið hafði fyrir tvöhundruð árum.

Nú velta menn því fyrir sér hvort Bárði vaxi ásmegin og taki að dæla kviku af enn meiri þrýstingi en síðustu misserin. Verður þá aftur gos í Holuhrauni eða nær kvikan að brjótast til austurs í áttina til Kverkfjalla eða Grímsvatna? Hvað gerist þá?

HerðubreiðÍ kringum Herðubreið hefur verið mikil skjálftavirkni undanfarin ár, sérstaklega suðvestan við fjallið. Sumir telja að þarna undir sé kvika að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Fátt annað getur skýrt svona viðvarandi staðbundna skjálfta.

Austan Grímseyjar hafa verið miklir skjálftar á undanförnum árum. Fátt er hins vegar vitað um það, til þess vantar jarðskjálftamæla á sjávarbotni.

Athugið að kortin sem hér birtast er frá Loftmyndum, loftmyndir.is. Þau sýna jarðskjálfta frá síðasta sólarhring til síðustu sex mánaða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband