Kuldi í opnun Norðurár, alþjóðavísa og að eiga góða frammistöðu

Orðlof og annað

Kván, kvæn, kvendi og kvinna

Orðið kona er talið eiga rætur að rekja allt aftur til indóevrópska frummálsins. Fornyrðin kvon og kván eru af sama meiði og einnig sambærilegar orðmyndir t.d. í fornensku og gotnesku.

Í endurgerðri mynd orðsins kona er atkvæðið we í stofni, sem í frumnorrænu varð að o á eftir samhljóða en w féll niður.

Í eignarfalli fleirtölu í nútímabeygingunni sjáum við leifar af w-inu: kvenna. Einnig í orðunum kvinna og kvendi og í fyrri liðnum kven-, í orðum eins og kvenleg.

Orðið yfir drottningu í nútímaensku er af sama forna orðstofni.

Málfarsmínútan í þættinum Samfélagið á Rás 1 í Ríkisútvarpinu.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Lést eftir að hafa keyrt á 230 kílómetra hraða.

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Þetta er síður en svo rangt en er ekki betra að segja að maðurinn hafi látist vegna þess að hann ók á 230 km hraða? Dekk sprakk, hann réði ekki við bílinn á þessum hraða og því fór sem fór.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Spáð skítakulda í opnun Norðurár.

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Rétt er að tala um veðrið við opnun Norðurár. Fljótfærnisleg villa. Vonandi er blaðamaðurinn betri en þetta gefur til kynna.

Nafnorðið opnun á auðvitað við fyrsta dag laxveiðitímabilsins og er ekkert við það að athuga.

Sumum þykir eflaust orðið „skítakuldi“ óviðeigandi í fjölmiðli. Þetta er aðallega talmál og þess vegna mætti sleppa óþrifunum og segja að spáð sé kulda.

Tillaga: Skítakulda spáð við opnun Norðurár.

3.

Aðgerðir hers­ins hafa verið for­dæmd­ar á alþjóðavísu …

Fyrirsögn á mbl.is.           

Athugasemd: Betur fer á því að segja að aðgerðirnar hafi verið fordæmdar alþjóðlega, það er af fjölda þjóða, ríkja. Orðalagið á alþjóðavísu ber með sér venju eða verklag sem þjóðir heims nota. Það á ekki við hér. Fjöldi ríkja hefur fordæmt aðgerðirnar, morð á mótmælendum.

Má vera að erfitt sé að lagfæra ofangreinda fyrirsögn og þá er ekki um annað að gera en að umorða hana eins og gert er í tillögunni í lokin. Verra er að hnoðast með setningu sem ábyggilega verður steingeld á eftir.

Í framhaldi segir í sömu málsgrein:

… fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna kall­ar eft­ir sjálf­stæðri rann­sókn á at­b­urðum dags­ins.

Mér dettur í hug að framkvæmdastjórinn hafi opnað gluggann og hrópað skoðun sína út í svala norðanáttina. Nei, varla.

Hér hefur áður verið agnúast út í þýðingu misvitra á ensku sögninni „to call for“. Hún merkir ekki að „kalla eftir“ þó svo að orðin megi þýða svo. Þarna er framkvæmdastjórinn að krefjast rannsóknar. Hann gæti undir öðrum kringumstæðum óskað eftir eða beðið um aðgerðir.

Í fjölmiðlum er stöðugt sagt frá fólki sem kallar eftir einhverju en hækkar samt aldrei róminn. Það eitt ætti að fá fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en þetta er skrifað. 

Fjölmargt í ensku má ekki þýða beint, þá glatast merkingin. Í amrískum bíómyndum heyrast ruddar stundum kalla annað fólk „dickhead“. Kjánalegt væri að þýða þetta orð beint. Átt er við að sá sem um er rætt sé vitleysingur eða bjáni.

Allar fréttir þurfa yfirlegu við, annað er ekki boðlegt. Svo virðist sem margir blaðamenn stjórnist af fljótfærni.

Tillaga: Þjóðir heims hafa fordæmt aðgerðir hersins.

4.

Við einbeitum okkur að fyrri leiknum og ætlum að eiga góða frammistöðu í fyrsta leiknum undir stjórn nýs þjálfara sagði Veseli.

Frétt á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 4. júní 2019.          

Athugasemd: Nafnorðafíkn blaðamannsins er hér komin út í ógöngur. Svona talar enginn á íslensku þó eflaust megi segja að þetta hafi verið vel orðað á ensku (e. „will have a good performance).Eins og áður hefur verið bent á má ekki þýða hugsunarlaust af ensku yfir á íslensku.

Þarna er „performance“ þýtt sem frammistaða sem út af fyrir sig getur það verið rétt en á íslensku notum við sagnorð til að fylla frásögnina. 

Maðurinn segir að fótboltaliðið ætli að standa sig vel og gangi það eftir telst frammistaðan góð. Vonandi skilja lesendur muninn.

Tvær nástöður eru í málsgreininni. Einhver á ritstjórninni hlýtur að kunna skil á nástöðu og getur sagt kollegum sínum til.

Tillaga: Við einbeitum okkur að fyrri leiknum og ætlum að standa okkur vel undir stjórn nýs þjálfara sagði Veseli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband