Maður og rotta sameinuð, um er að ræða og fljótasta markið ...
24.4.2019 | 11:24
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
Stofnanamál
Í umræðu um málfar og málsnið ber svonefnt stofnanamál oft á góma. Þetta er málsnið sem menn þykjast helst finna á ýmsum gögnum frá opinberum stofnunum, s.s. skýrslum, álitsgerðum o.þ.h. Ekki er auðvelt að negla nákvæmlega niður hvað við er átt, en þó virðist einkum fernt koma til álita.
Í fyrsta lagi nafnorðastíll; að nota nafnorð (oft leitt af sögn) og merkingarlitla sögn (t.d. vera) til að segja það sem eins væri hægt að segja með einni sögn. Þannig er talað um að gera könnun í stað þess að kanna, sagt að fólksfjöldi aukist í stað þess að fólki fjölgi, o.s.frv.
Í öðru lagi einkennist stofnanamál af stirðum eignarfallssamböndum. Þannig er talað um breytt fyrirkomulag innheimtu virðisaukaskatts í staðinn fyrir breytt fyrirkomulag á innheimtu virðisaukaskatts, aukning tekna starfsmanna fyrirtækisins í stað aukning á tekjum starfsmanna fyrirtækisins o.s.frv.
Í þriðja lagi eru langar og flóknar málsgreinar algengar í stofnanamáli. Dæmi: En til að auðvelda stillingu og notkun talhólfs skal þess freistað hér á eftir að lýsa stillingarferlinu og þýða nokkur orð sem fram koma í enska textanum, sem byggður er inn í kerfið og gætu reynst torskilin.
Í fjórða lagi er oft talað um stofnanamál þegar setningagerð er óíslenskuleg. Slíkt stafar oft annaðhvort af því að um þýðingu er að ræða, eða höfundur textans er ekki vanur að orða hugsanir sínar, nema hvorttveggja sé.
Málsnið og málnotkun, Eiríkur Rögnvaldsson.
1.
Heimilislaus maður og rotta sameinuð í Sydney.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Skyldu allir blaðmenn lesa skrif sín yfir? Velta því fyrir sér hvort fréttin sé skiljanleg, laga orðalag, skipta út orðum og svo framvegis?
Af fyrirsögninni hér fyrir ofan má ráða að heimilislaus maður og rotta hafi verið sameinuð.
En það er einmitt það sem stendur í fréttinni!
Já, auðvitað, það er rétt.
Má vera að eftirfarandi skýri mál mitt: Maður nokkur gekk inn á bar. Á öxl hans sat api. Þetta er nú aldeilis fallegur api, sagði barþjónninn. Hvernig fékkstu hann? Sko, þetta byrjaði bara sem lítil bóla á rassinum, sagði þá apinn.
Í þessum anda má spyrja hvað verður til þegar rotta og maður eru sameinuð? Ooojjj, kann að hrökkva út úr einhverjum virðulegum lesendum.
Fréttin tekur hins vegar af allan vafa um hvað gerðist. Hana má skilja þó hún sé illa skrifuð og tilgerðarleg. Til dæmis er sá heimilislausi og rottan kölluð tvíeyki sem varla á við. Nástöðu er að finna og fleira smálegt sem eyðileggur nokkuð skondna frétt. Að vísu er hún ekkert skondin nema vegna þessarar kjánalegu fyrirsagnar.
Tillaga: Heimilislaus maður í Sydney fær rottuna sína til baka.
2.
Um er að ræða allt að 35 vindmyllur sem eru um 150 metrar að hæð miðað við spaða í hæstu stöðu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Orðalagið um er að ræða er ofnotað hjá blaðamönnum og gagnslaust í flestum tilvikum, rétt eins og hér. Óhætt er að sleppa því án þess að neitt tapist úr frásögninni. Segja má að það sé lopatal, fundið upp til að lengja fréttir (teygja lopann).
Svo er það stærðin; að stærð. Hvort er nú betra að segja að myllan sé eitthundrað og fimmtíu metra að hæð, eða eitthundrað og fimmtíu metra há?
Blaðamenn þurfa ekkert að vera hræddir við að skrifa töluorð í stað tölustafa. Oftast fer betur á því nema þegar tölur eru mjög háar.
Gagnrýna má þessa málsgrein:
Allar vindmyllur verða tengdar saman með 33 kV jarðstrengjum sem verða plægðir niður og staðsettir eins og kostur er í vegstæði til þess að lágmarka rask.
Má vera að betur fari á því að skrifa málsgreinina á þessa leið:
Vindmyllurnar verða tengdar saman með 33 kV jarðstrengjum sem verða plægðir niður í vegstæði eftir því sem kostur er til þess að lágmarka rask.
Líklega er orðalag fréttarinnar tekið úr skýrslu um vindmyllugarðinn og hugsunarlaust límt inn í frétt.
Tillaga: Vindmyllurnar eru þrjátíu og fimm og eru eitt hundrað og fimmtíu metrar háar miðað við spaða í hæstu stöðu.
3.
Tugir vindmylla gætu litið dagsins ljós í Garpsdal og Hróðnýjarstöðum gangi áætlanir orkufyrirtækja eftir.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Velja þarf orðalag sem hæfir efni máls. Enginn myndi segja að vindmyllur mali rafmagn.
Orðalagið að líta dagsins ljós merkir að fæðast. Vindmyllur hvorki fæðast né hafa sjón, þær eru dauðir hlutir. Nú kann einhver að segja að þetta væri svokölluð yfirfærð merking. Mótrökin eru þau að velja skal orð eða orðalag sem hæfir, einfalt mál er gott mál. Skreytingar eða flækjur eiga ekki við í fréttum. Ekki detta í ruglið eins og unglingarnir segja stundum.
Tillaga: Tugir vindmylla verða reistar í Garpsdal og Hróðnýjarstöðum gangi áætlanir orkufyrirtækja eftir.
4.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í Reykjavík í gærkvöldi og í nótt.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þeir voru stöðvaðir vegna þess að þeir óku bílum dópaðir, ekki fyrir því ... Hvaðan kemur eiginlega þetta orðalag? Frá löggunni? Frá blaðamanninum?
Tillaga: Þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna í Reykjavík í gærkvöldi og í nótt.
5.
Sjáðu fljótasta mark sögunnar og þrumufleyg Eriksen.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Venjulega eru tvö mörk á hverjum fótboltavelli og á þau leika lið sem etja kappi. Mörkin eru fest við jörðu, mega ekki hreyfast úr stað. Þau eru föst, geta hvorki verið fljót né sein.
Þegar liði tekst að koma bolta inn í mark andstæðinganna er talað um að það skori mark. Almennt er talið að betra sé að koma tuðrunni inn sem fyrst.
Sá nýtur virðingar sem skorar sem næst byrjun leiks. Á ensku er fyrirbrigðið kallað the fastest goal. Þeir blaðamenn sem eru slarkfærir í ensku en lélegir í íslensku kalla þetta fljótasta markið
Hvernig svo sem heimilisaðstæður eru í ensku máli getum við ekki sagt á íslensku að mark sé fljótt, ekki frekar en vítaspyrna geti verið fljót, aukaspyrna eða annað álíka í fótbolta.
Ekki heldur er hægt að segja að í kastkeppni í frjálsum íþróttum sé til lengsta spjótið, lengsta sleggjan eða lengsta kúlan.
Aftur á móti má auðveldlega orða það svo að Shane Long sé samkvæmt fréttinni sá fljótasti að skora mark í ensku úrvalsdeildinni, hafi slegið öllum við.
Líklega segja örfáir að þetta sé íþróttamál en það gengur ekki upp nema að það fylgi íslenskum málreglum og hefðum.
Loks má aðeins hnýta í boðháttinn í fyrirsögninni, sögnina að sjá. Hann var aldrei notaður í fyrirsögnum hér áður fyrr en er núna brúkaður í ótal vefritum út um allan heim enda byggist tilveran þar á músarsmellum.
Hér er svo dálítill fróðleikur: Samkvæmt vefnum Wikipedia hafa tuttugu og fimm leikmenn í heiminum skorað mark innan sjö sekúndna frá upphafi leiks.
Tillaga: Tugir vindmylla verða reistar í Garpsdal og Hróðnýjarstöðum gangi áætlanir orkufyrirtækja eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.