Sigraði mótið, stengur eða stangir og enn og aftur ítrekað

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Nú til dags?

Orðasambandið „nú til dags” er fengið að láni úr dönsku „nu til dags” og er ekki alveg nýtt af nálinni. 

Dags í dönsku er gamalt eignarfall sem stýrðist af forsetningunni til. 

Í íslensku þykir vandaðra mál að segja til dæmis „nú á dögum.”

Vísindavefurinn.

1.

Birna Hrönn gerði sér lítið fyrir sigraði heimsmeistaramótið í íssundi, sem fór fram í Rússlandi um miðjan síðasta mánuð.

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Birna Hrönn sigraði ekki heimsmeistaramótið af þeirri einföldu ástæðu að heimsmeistaramótið var ekki þátttakandi. Útilokað er að sigra mót en samt sést orðalagið ótrúlega oft í fjölmiðlum.

Hins vegar er líklega að konan hafi sigrað í þessu heimsmeistaramóti. Á þessu tvennu er mikill munur.

Orðalagið „sem fram fór í Rússlandi“ er þar að auki óþarft. Hér nægir að segja í Rússlandi.

Svo er það þetta undirstrikaða „að“. Hroðvirkni?

Í fréttinni segir ennfremur:

Þegar Birn Hrönn er búin að synda í sjónum fer hún alltaf strax í sundlaugina …

Betur fer á því segja: Þegar Birna Hrönn hefur synt í sjónum … Ástæðan er einfaldlega sú að færri orð hafa oft meira gildi í fréttum en fleiri. Önnur villa er undirstrikuð. Hroðvirkni?

Tillaga: Birna Hrönn gerði sér lítið fyrir og sigraði í heimsmeistaramótinu í íssundi í Rússlandi um miðjan síðasta mánuð.

2.

Byrjað að fjarlægja eldsneytisstengur úr Fukushima-kjarnorkuverinu.

Fyrirsögn á visir.is.              

Athugasemd: Er verið að fjarlægja stengur eða stangir? Sumir kunna að gera athugasemdir við fyrirsögnina. Staðreyndin er hins vegar sú að hvort tveggja er rétt. Kvenkynsorðið stöng beygist svo í fleirtölu:

Nf. Stengur/stangir
Þf. Stengur/stangir
Þgf.Stöngum
Ef. Stanga

Ég hefði hins vegar ritað stangir, mér er það tamara. Fleiri orð hafa þessa tvöföldu beygingu í nefnifalli og þolfalli. Dæmi: Spöng; spengur/spangir. Röng; rengur/rangir. 

Á málid.is segir að röng sé kvenkynsnafnorð og merki bogalagað tréband í báti eða skipi. Orðið þekkist í færeysku, rong, nýnorsku (v)rong og vrång.

Tillaga: Byrjað að fjarlægja eldsneytisstangir úr Fukushima-kjarnorkuverinu.

3.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur dæmt karl­mann í átta mánaða óskilorðsbundið fang­elsi fyr­ir ítrekuð auðgunar- og um­ferðarlaga­brot á ár­un­um 2017-2018.

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Náunginn var dæmdur fyrir „ítrekuð“ lagabrot. Hvað þýðir það? Var hann dæmdur fyrir mörg brot af sama tagi eða ólík, endurtekin brot, síendurtekin eða hvað? 

Samkvæmt mínum skilningi merkir lýsingarorðið ítrekaður að endurtaka. Hann brýtur vissulega oft af sér en það er annað en ítrekað.

Fleirum en mér finnst notkun á sögninni að ítreka og lýsingarorðinu ítrekaður sé fram úr hófi, orðin að ofnotkun. Engu líkar en að önnur orð komi ekki til greina; oft, margoft, margsinnis, tíðum og svo framvegis.

Tillaga: Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur dæmt karl­mann í átta mánaða óskilorðsbundið fang­elsi fyr­ir fjölda auðgun­ar- og um­ferðarlaga­brot á ár­un­um 2017-2018.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband