Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Sléttu ári fyrir þetta slys var annað stórslys á svæðinu.
Frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 29.12.2018.
Athugasemd: Setjum sem svo að maður hósti í bíl sínum rétt austan við Höfðabakkabrú sem liggur yfir Vesturlandsveg. Annað maður hóstar á sama tíma við Hveragerði. Á milli þessara tveggja staða eru 37,8 km.
Ekki er hægt með neinni sanngirni að halda því fram að kvef sé á sama svæði, að þessi tveir skálduðu hóstar hafi verið á sömu slóðum. Hugsanlega halda fréttamenn Ríkisútvarpsins því fram að Höfðabakkabrú og Hveragerði séu á sama svæði.
Í janúar 2018 varð slys skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Tæpu ári síðar féll bíll af brú austan við Lómagnúp. Á milli þessara slysstaða eru 37,8 km. Fréttamenn Ríkisútvarpsins og Stöðvar2 eru ekki betur að sér í landafræði en svo að þeir halda að Kirkjubæjarklaustur og Lómagnúpur séu á sama svæði. Þetta er tómt bull. Lítið bara á landakort, mörg þeirra bestu eru á netinu, til dæmis map.is, kort Landmælinga og ja.is.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
2.
Kosið verður um Brexit-samninginn þriðju vikuna í janúar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Mjög algengt er að blaðamenn geri ekki greinarmun á kosningum og atkvæðagreiðslu.
Í fréttinni er fjallað um Brexit samninginn sem er á milli ESB og Bretlands. Um mitt ár 2016 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um að landið færi úr ESB. Meirihluti samþykkti það. Þetta var kosning. Þegar kosið er um þing eða í sveitarstjórnir er talað um kosningu.
Breska þingið þarf nú að staðfesta samninginn svo hann öðlist gildi. Þá greiða þingmenn atkvæði um hann, þeir kjósa ekki um hann. Þá er efnt til atkvæðagreiðslu.
Á vef BBC segir um sömu frétt:
The Commons vote was due to be held on 11 December but the PM postponed it once it became clear it would be defeated by a large margin.
Enskan gerir engan mun á atkvæðagreiðslu eða kosningum eins og íslenskan gerir. Þeir sem skrifa í fjölmiðla þurfa að kunna skil á orðum, þekkja blæbrigði málsins.
Tillaga: Greidd verða atkvæði um Brexit-samninginn þriðju vikuna í janúar.
3.
Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var lítill gönguhópur á ferð þegar tveir aðilar missa fótanna, um er að ræða tvær konur sem runnu niður hlíðina.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er óboðleg málsgrein og, afsakið orðbragðið, bæði blaðamanni og Vísi til hnjóðs.
Ekkert er að því að nota orðatiltækið að missa fótanna, en það merkir að skrika fótur, detta og jafnvel að tapa áttum. Hins vegar er alltaf miklu betra að segja hreint út hvað gerðist. Konurnar duttu. Það er styttra og einfaldara í þessari frétt.
Berum svo saman tillöguna hér fyrir neðan og það sem skrifað var í Vísi. Munurinn er sláandi.
Tillaga: Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var duttu tvær konur í brattri hlíð og runnu niður hana.
4.
Gleðileg jól til þín, Nonni minn.
Algengt dæmi um jólakveðju, til dæmis í Ríkisútvarpinu.
Athugasemd: Hvenær stakk forsetningin til sér inn í jólakveðjur landsmanna? Hér áður fyrr dugði að segja Gleðileg jól, Nonni minn. Aldrei þótti nein ástæða til að gera kveðjuna beinskeyttari með því að segja að hún væri til Nonna nema er vera skyldi hætta á að einhver annar tæki hana til sín. Og þó svo væri, þá eru báðir, sendandi og móttakandi, skaðlausir?
Sumir orða nýárskveðjuna þannig:
Fjölskyldan í Málvilluhólum, gleðileg nýtt ár til ykkar.
Hér gildir það sama. Þegar einhver býður gleðilegt ár vita allir sem hlut að eiga við hvern er átt og þar að auki, eins og fyrr sagði, er allt í lagi þó kveðjan fari út um allar koppagrundir og þúsundir taki hana til sín. Enginn skaði að slíku.
Gömul kona í Hlíðunum sendi öllum landsmönnum óskir um gleðilegt jól og farsælt komandi ár. Henni datt ekki í hug að segja: Gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra landsmanna.
Og á nýársdag glumdu ákveðjur á Rás eitt:
Óskum viðskiptavinum okkar gleðilegs árs og farsælt komandi ár.
Þetta fannst mér óþarfa endurtekning. Betur fer á því að segja: Óskum viðskiptavinum okkar gleði og farsældar á komandi ári. Vörumst tuð og tvítekningar.
Munum, þegar við viljum senda afmæliskveðju að segja einfaldlega til dæmis svona. Bestu afmæliskveðjur, elsku Stína. Ekki segja: Bestu afmæliskveðjur til þín, elsku Stína.
Tillaga: Gleðileg jól, Nonni minn.
5.
Arsenal hefndi fyrir skellinn gegn Liverpool.
Undirfyrirsögn á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 2.1.2019.
Athugasemd: Nei, mikið déskoti varð nú blaðamanninum hér fótaskortur á tölvuborðinu.
Skamma stund verður hönd höggi fegin, segir í fornu riti. Í þeim og fjölda annarra sem síðan hafa verið rituð er hefndin til umfjöllunar í einni mynd eða annarri, maður er drepinn og annar í hefnd fyrir hann. Oft sjá menn eftir að hafa hefnt sín. Löngu síðar etja ensku sparkliðin Liverpool og Arsenal kappi og hið fyrrnefnda vinnur með fimm mörkum en hitt skorar aðeins eitt mark.
Nokkrum dögum síðar leikur Arsenal við Fulham og skorar fjögur mörk en fær á sig eitt. Þetta kallar Mogginn hefnd fyrir skellinn gegn Liverpool. Hann gæti ekki verið fjarri raunveruleikanum.
Arsenal getur ekki hefnt fyrir tap sitt gegn Liverpool nema leika aftur við sama lið. Hefndin hefur ekkert gildi gegn Fullham, sem er algjörlega óskylt, óháð og ótengt fótboltafélaginu við Lifrarpoll.
Á malid.is segir um hefnd:
svara (e-i misgerð) með líkum hætti
hún hefndi niðurlægingar sinnar grimmilega
hann greip vopn til að hefna bróður síns
hefna sín
hafa beðið ófarir og þurfa að hefna sín
eiga harma að hefna
hafa beðið ófarir og þurfa að hefna sín
Hvað á þá blaðamaðurinn við? Jú líklega má segja að Arsenal hafi náð að rétta hlut sinn eftir tapið á móti Liverpool, fengið uppreista æru sína eða rétt úr kútnum. Það síðastnefnda er skást, held ég.
Hins vegar má segja að hafi Arsenal náð fram hefndum gegn Fulham því þann 7. október í haust tapaði það, fékk á sig fimm mörk en skoraði aðeins eitt. Þetta yfirsást blaðamanni Moggans. Við, stuðningsmenn við Arsenal, teljum það alvarlegt að ekki einu sinni er minnst á það. Enn á þó félagið harma að hefna eftir tapið fyrir Liverpool. Kemur síðar.
Tillaga: Arsenal náði að úr kútnum eftir skellinn við Liverpool.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.1.2019 kl. 21:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.