Heimildarmyndin um Matthías Johannessen skáld og ritstjóra
16.12.2018 | 21:53
Í bókinni um Stein Steinar er mikið vitnaði í þig Matthías, nærri því á annarri hverri síðu, sagði blaðamaðurinn nokkuð hrifinn við ritstjóra sinn.
Nú, hvað var þá á hinum síðunum, voru þær tómar, gall í ritstjóranum sem glotti.
Matthías Johannessen, skáld og fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, var og er stórmerkur maður, það vissi ég jafnvel þó ég þekki ekki manninn persónulega. Jú, annars ... Ég þekki hann ágætlega en hann veit ekkert kvur ég er. Þannig einhliða kynni eru algengar á fjölmiðla og tækniöld. Hef frá barnæsku lesið Moggann og nokkuð margar bækur eftir hann voru til á æskuheimili mínu. Hann hefur skrifað ljóðabækur, skáldsögur, fræðibækur og margt fleira.
Í dag fékk ég að mæta á frumsýningu heimildarmyndar um Matthías og þá í fyrsta sinn kynnist ég persónunni að baki skáldinu og ritstjóranum.
Ofangreind tilvitnun (rituð eftir minni) úr myndinni vakti ósvikinn hlátur meðal frumsýningargesta, enda sögðust sumir þarna þekkja manninn sem sagður er með afbrigðum orðheppinn og skjótur til svara, svona spontant eins og við segjum á útlenskunni.
Heimildarmyndin nefnist Þvert á tímann og höfundar hennar eru kvikmyndagerðarmennirnir Sigurður Sverri Pálsson og Erlendur Sveinsson. Hún fjallar um dag í lífi Matthíasar árið 2000 og til viðbótar er skotið inn klippum frá árinu 2012.
Í stuttu máli hafði myndin sterk áhrif á mig. Eftir að hafa horft á hana var maður að velta fyrir sér agnúum í kvikmyndatökunni, á kafla dálítið uppskrúfuðum þulartexta, ljóðum sem birtust á tjaldinu í örstutta stund svo varla var tími til að lesa þau til enda, lengd myndarinnar og svona álíka smáatriðum. Allir þessir gallar hafa horfið úr huga mínum og eftir stendur skýr og hrein mynd af djúpvitrum manni sem án nokkurs vafa er skáld, en um leið mildilegur ritstjóri, brosmildur, með ágætt skopskyn og stjórnaði blaði sínu með kurteisi og ágætri samvinnu við alla starfsmenn.
Myndin hefst á nærgöngulegum atriðum, draumi sem enginn ráðning fæst á, hugarflugi og vangaveltum um ljóð sem smám saman tekur á sig mynd. Sagt er frá Hönnu Ingólfsdóttur, eiginkonu hans og hversu miklu máli hún skipti. Svo er hún fallin frá. Matthías er orðinn tólf árum eldri, tekinn í andliti, og leggur rauðar rósir á leiði konu sinnar. Sársaukinn skín úr andlitsdráttum, hann saknar henar greinilega en lærir að lifa þrátt fyrir missinn. Hann er hættur á Mogganum, og öllum gleymdur ... eða hvað? Áhorfandinn er eiginlega sem steini lostinn og spyr sjálfan sig hvar þau eru, synir þeirra Hönnu og Mattíasar og barnabörnin. Framhjá þeim skauta framleiðendur heimildarmyndarinnar að öllu leyti nema rétt í stöku andrá sjást myndir á borði skáldsins og af þeim má ráða að hann er ekki einn. Guði sé lof fyrir það, hugsar áhorfandinn.
Myndin er óður til skáldskaparins og hins ritaða máls. Þar er Matthías Johannessen einn af þeim sem fremst standa, hann er andans maður.
Heimildarmyndin er óvenjulega gerð. Í henni eru skáldlegir tónar sem hæfa vel, fögur klassísk tónlist sem Matthías unnir og þulurinn segir af og til frá en að öðru leyti virðist myndin flæða stjórnlaust með áhugaverðum snúningum.
Leitt að hafa aldrei kynnst þessum merka manni sem fæddur var árið 1930.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.