Vanburðugur, að láta gott heita og berjast við súkkulaði

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Þegar frummálið svífur á mann

Þótt þau á höfuðbólinu tali um að „seek medical help“ þurfum við hér á hjáleigunni ekki að verða svo hástemmd að „leita læknisfræðilegrar aðstoðar“. Það nægir að leita læknis eða læknishjálpar. Þýðandi má ekki láta frummálið svífa um of á sig. 

Málið á bls. 38 í Morgunblaðinu 15.12.2018.

Lesandinn má ekki láta kaldhæðnina í ofangreindum orðum fara framhjá sér.

1.

„„Van­b­urðugur“ markaður 

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Er ekki sjálfsagt að þróa íslenskuna og mynda ný orð þegar þeirra er þörf? Orðið vanburðugur finnst ekki í orðabókum en það þekkist engu að síður og elsta heimildin sem ég fann í fljótheitum er úr Morgunblaðinu 16. febrúar 1930, blaðsíðu 8. Þar segir Jón Þorláksson í ræðu á Alþingi um Íslandsbanka:

Finst mjer ekki von á því, að banki, sem í augum ríkisstjórnarinnar er jafn vanburðugur og ríkisstjórnin heldur fram, hafi getað gert betur.

Lýsingarorðið burðugur getur merkt sá sem ber sig vel, til dæmis fyrirtæki sem er rekstrarhæft, það er burðugt, enda er orðið dregið af því að bera. Andstæðan er óburðugur og er það vel þekkt og getur merkt þann sem er kraftlítill, óburðugt fyrirtæki er hugsanlega komið í þrot. 

Er sá vanburðugur sem hvorki er burðuguróburðugur? Eða er ekkert þarna á milli? Fyrirtæki sem er burðugt stendur vel en það sem er óburðugt er hugsanlega mjög illa statt, jafnvel gjaldþrota. Þarf einhvern meðalveg?

Í fréttinni er sagt að markaðurinn sé vanburðugur, það er fjárfestar „virðast hálf­veg­is forðast markaðinn“, eins og segir í fréttinni og er líklega haft úr „Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið“ sem er fréttin fjallar alfarið um.  Í Hvítbókinni segir:

Til að tryggja samkeppni og virkni millibankamarkaðar þurfa burðugar innlánsstofnanir hér á landi að vera að lágmarki þrjár.

Á hraðleit í skýrslunni fann ég ekki orðið „vanburðugur“.

Þó vekur athygli að 88 árum eftir áðurnefnd orð Jóns Þorlákssonar er enn verið að velta fyrir sér hvort banki sé burðugur eða vanburðugur og í bæði skiptin er umræðuefnið banki sem heitir Íslandsbanki.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

„Kjósa um van­traust­stil­lögu gegn May. 

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Talsverður munur er á því að kjósa og greiða atkvæði. Um það skrifaði Eiður heitinn Guðnason á bloggsíðu sína sem enn er opin, áhugamönnum um gott íslenskt mál til glöggvunar:

Ótrúlega margir fréttaskrifarar virðast ekki skilja hvenær er verið að kjósa og hvenær er verið að greiða atkvæði um eitthvað, til synjunar eða samþykktar. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum.

Fyrirsögn af mbl.is: Seðlabankinn kaus gegn bónusum.

Fulltrúi Seðlabankans greiddi atkvæði gegn bónusgreiðslum. Það er út í hött og rangt að tala um að kosið hafi verið um bónusgreiðslur. Það stríðir gegn gróinni málvenju, en mörg fréttabörn virðast ekki vita betur og enginn les yfir.

Þingmenn og aðrir trúnaðarmenn Íhaldsflokksins ætla að greiða atkvæði um tillögum um vantraust á formann flokksins og forsætisráðherra, Theresu May.

Tillaga: Greiða atkvæði um vantraust á May.

3.

„Félagið var skráð á heimili foreldra Ármanns og voru þau bæði skráð í stjórn þess. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki hafa séð tvítekninguna, nástöðuna, skráð ... skráð. Má vera að hann sjái ekkert athugunarvert við nástöðu og hafi engan áhuga á stíl. Þá er hann í röngu starfi.

Auðvelt er að laga svona eftir fyrsta yfirlestur, iðki blaðamaðurinn að lesa yfir það sem hann hefur skrifað.

Tillaga: Félagið var skráð á heimili foreldra Ármanns og voru bæði í stjórn þess.

4.

„Einn sá besti læt­ur gott heita. 

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Þetta er ómöguleg fyrirsögn. Í fréttinni kemur fram að einn besti skíðagöngumaður Noregs er hættur keppni. Af hverju er það þá ekki sagt í fyrirsögninni? Hvað er betra við að nota þessa margtuggðu klisju, að láta gott heita?

Hvað á barni að heita, spurði presturinn. Tja …, látum það gott heita, sagði pabbinn.

Þessi gamli brandari er líklega ekkert fyndinn lengur og má vera að hann hafi aldrei verið það. Klisjur eru sjaldnast skemmtilegar og síst af öllu upplýsandi í fréttum. Blaðamaðurinn segir í fréttinni:

Auk þess stát­ar hann af átján sigr­um á heims­bikar­mót­um. 

Er eitthvað óskýrara að segja að maðurinn hafi sigrað átján sinnum á heimsbikarmótum? Oftast merkir sögnin að státa að monta sig, hreykja sér, en óvíst er hvort skíðamaðurinn hafi verið þannig innrættur að hann monti sig. Sé ekkert annað vitað er óþarfi að segja neitt annað en að hann hafi sigrað átján sinnum á heimsbikarmótum.

Þar á ofan er maðurinn kallaður „Íslandsvinur“ af því að hann keppti einu sinni hér á landi. Er ekki nóg komið af þessu auma viðurnefni?

Tillaga: Einn besti skíðagöngumaður Noregs er hættur.

5.

„25 slökkviliðsmenn börðust við tonn af súkkulaði. 

Fyrirsögn á visir.is.   

Athugasemd: Nei, nei, nei ... Þeir börðust ekki við súkkulaði, það kemur beinlínis fram í fréttinni. Þeir þurftu hins vegar að hreinsa það upp og það gekk ekki átakalaust.

Fréttin er skrifuð af blaðamanni sem ekki virðist hafa neina tilfinningu fyrir íslensku. Hann segir til dæmis:

Tonn af fljótandi súkkulaði hafði sloppið úr súkkulaðitank með þeim afleiðingum að það flæddi yfir nærliggjandi götu. 

Súkkulaðið hefur ábyggilega runnið úr þessum „súkkulaðitanki“, ... það slapp ekki.

Og „með þeim afleiðingum“, segir blaðamaðurinn í hugsunarleysi sínu. Svo segir hann að súkkulaðið hafi flætt yfir nærliggjandi götu. Þvílíkt stílleysi.

Hefði ekki má skrifa þetta svona: Eitt tonn af súkkulaði rann úr súkkulaðitanki (!) og yfir götu.

Frekar illa skrifuð frétt þó tilefnið hefði ábyggilega nægt til skemmtilegri umfjöllunar fyrir lesendur. Nei, hroðvirknin og fljótfærnin ræður för.

Tillaga: Súkkulaði veldur slökkviliðsmönnum vandræðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband