Hreinsar fólk hendur á sér? Er hægt að þröngva manni fram af kletti?
11.12.2018 | 10:35
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Snjó gæti leyst hratt fyrir norðan með hlýindakafla.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þegar snjór hverfur vegna hita í lofti og rigninga er stundum sagt að hann taki upp. Leysingar eru jafnan á vorin en geta vissulega orðið að vetrarlagi. Snjóa leysir í hlýindum, það er gömul saga og ný.
Í mörgum tilfellum getur hentað að nota orðið hlýindakafli. Annars dugar ágætlega að nota hlýindi.
Af þessu má ráða að það er ekki rangt að nota orðið hlýindakafli. Gott er þó að forðast nástöðu og nota fjölbreyttara orðfæri. Í stuttri frétt kallast það nástaða þegar orð eins og hlýindakafli er notað oftar en einu sinni.
En er rétt að segja með hlýindakafla? Sjálfur hefði ég sagt í hlýindum. Athugið að stundum er ekki til neitt eitt sem er rétt, þá veltur allt á stíl. Stílleysa í fréttum er sorlega algeng.
Í fréttinni segir:
Hlýna á í veðri strax annað kvöld og á hlýindakaflinn að vara fram á miðvikudag.
Þetta er klúðurslega orðuð málsgrein. Miklu betra að segja að hlýtt verði fram á miðvikudag.
Athugið að hlýindi er fleirtöluorð og tæknilega útlokað að misnotað það sem eintöluorð.
Tillaga: Snjóa gæti tekið upp í hlýindum fyrir norðan.
2.
Hægt að auka öryggi sjúklinga með því að heilbrigðisstarfsfólk hreinsi hendurnar á sér rétt og vel.
Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 10.12.2018.
Athugasemd: Ertu búinn að þvo þér um hendurnar? spurðu pabbi og mamma þegar ég settist við matarborðið í æsku minni. Þetta skipti máli, fyrir barnið og aðra. Aldrei var ég þó spurður hvort ég hefði þvegið mér um hendurnar á mér. Held að það sé raunar aldrei gert.
Vissulega er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hreinsi hendur sínar, ekki nægir í dag að þvo þær. Í þessu fylgir að fólkið hreinsi rétt og vel, varla þarf að taka það fram að kattarþvottur dugar ekki.
Fólk þvær sér, hreinsar líkama sinn. Í sundlauginni er þess krafist að gestir þvo sér og sérstaklega er bent á handarkrika og milli fóta.
Tillaga: Auka má öryggi sjúklinga hreinsi heilbrigðisstarfsfólk hendurnar sínar.
3.
Amber áfram fast í Hornafjarðarhöfn.
Fyrirsögn á bls. 8 í Morgunblaðinu 10.12.2018.
Athugasemd: Nokkur munur er á atviksorðunum áfram og enn. Máltilfinningin segir að merking fyrirsagnarinnar með ao. áfram sé miðuð til framtíðar. Sé orðið enn notuð virðist merkingin vera sú að skipið sé á strandstað en það kunni að breytast fljótlega.
Um þetta má að sjálfsögðu deila. Máltilfinning fólks er eflaust mismunandi. Sumir hafa enga tilfinningu fyrir málinu en skrifa þó. Það er aðdáunarvert.
Ég hefði haft fyrirsögnina eins og segir hér fyrir neðan.
Tillaga: Amber enn fast í Hornafjarðarhöfn.
4.
Há fjárhæð í boði fyrir upplýsingar um 30 ára hatursglæp þar sem manni var þröngvað fram af klettum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er skrýtið orðalag. Ég hef reynt að ímynda mér hvernig einhverjum sé þröngvað fram af klettum. Fæ það ekki til að koma heim og saman. Þá leitaði ég að heimildinni, sjá hér. Þar stendur:
Almost 30 years to the day after a gay mathematician from the United States was forced off a Sydney cliff in a hate crime
Vissulega getur enska orðið to force þýtt að þröngva einhverjum til einhvers. Þýðingin getur þó verið ítarlegri en þetta. Makkanum mínum fylgir orðabók (e. dictionary) sem ég fletti iðulega upp í til að glöggva mig á enskum merkingum orða. Þar sendur meðal annars í samheitum með orðinu to force:
he was forced to pay: compel, coerce, make, constrain, oblige, impel, drive, pressurize, pressure, press, push, press-gang, bully, dragoon, bludgeon; informal put the screws on, lean on, twist someone's arm.
Enginn lætur þröngva sér fram af klettum, illmennið þarf að kasta manninum fyrir björgin. Með því að þröngva virðis að fórnarlambið hafi átt eins eða fleiri kosta völ. Eftir því sem næst verður komist var ekki svo. Manninum var hent, kastað eða ýtt Oft notum við orðasambandið að kasta fyrir björg.
Í tíu ára gamalli frétt á visir.is segir eftirfarandi:
Hæstiréttur Írans hefur staðfest að tveir dauðadæmdir menn skuli teknir af lífi með því að kasta þeim fyrir björg. Þeir voru dæmdir fyrir að nauðga öðrum karlmönnum.
Ég er nokkuð viss um að þeir aumingjans menn sem dæmdir voru hafi ekki verið þröngvað fram af bjargbrúninni. Svo ber þess að geta að sá sem skrifaði þessa frétt var enginn viðvaningur. Hann hét Óli Tynes (1944-2011) og var einn af bestu blaðamönnum landsins. Í dag eru fáir jafningjar hans.
Tillaga: Há fjárhæð í boði fyrir upplýsingar um 30 ára hatursglæp er manni var kastað fram af klettum.
5.
Snjóstormur.
Orð í kvöldfréttum Stöðvar2 10.12.2012.
Athugasemd: Ekki er rétt að tala um snjóstorm, orðið er ekki íslensk málvenja þótt það sé rétt myndað. Þegar erlendir fréttamiðlar tala um enska orðið snowstorm freistast íslenskir blaðamenn í þýðingum sínum til að skrifa snjóstormur. Sumir vita hreinlega ekki að hægt er að nota orð eins og snjókoma, kafald, bylur eða hríð.
Á útlenskunni sem allir þykjast kunna er talað um rainstorm, hailstorm, windstorm og snowstorm. Svo einhæf er amrískan.
Á íslensku úr fjölda orða að velja. Aðeins þeir sem þekkja íslenskt mál, hafa vanist lestri bóka frá barnæsku kunna skil á þessu enda þjást þeir manna síst af orðfátækt.
Lesendum til fróðleiks eru hér örfá orð um snjókomu, man ekki lengur hver heimildin er, gleymdi að skrifa hana hjá mér:
- áfreða
- bleytukafald
- bleytuslag
- blotahríð
- blotasnjó
- brota
- drift
- él
- fastalæsing
- fjúk
- fjúkburður
- fukt
- fýlingur
- hagl
- hjaldur
- hjarn
- hláka
- hundslappadrífa
- ísskel
- kafald
- kafaldi
- kafaldsbylur
- kafaldshjastur
- kafaldshríð
- kafaldsmyglingur
- kafsnjór
- kaskahríð
- klessing
- kóf
- krap
- logndrífa
- lognkafald
- mjöll
- moldbylur
- moldél
- neðanbylur
- nýsnævi
- ofanhríð
- ofankoma
- ryk
- skæðadrífa
- skafald
- skafbylur
- skafhríð
- skafkafald
- skafmold
- skafningur
- slydda
- slytting
- snær
- snjóbörlingur
- snjódrif
- snjódríf
- snjófok
- snjógangur
- snjóhraglandi
- snjór
- sviðringsbylur
Tillaga: Hægt að velja um eitt að hinum fimmtíu og átta orðum hér fyrir ofan í staðin fyrir snjóstormur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.