Verður næsta gos í Heklu miklu stærra en áður hefur sést?

181203 Feðgar, óróiNokkur órói virðist vera í Heklu í dag. Þó jarðskjálftar séu við fjallið segja þeir frekar lítið um hugsanlega framvindu. 

Þrír óróamælar eru við Heklu, annar við lítil fell sem nefnist Feðgar og eru á vikrunum norðan við fjallið. Annar er í svokölluðu Mjóaskarði sem er lítil lægð eða skarð í fellum sunnan við það. Að auki er einn við bæinn Haukadal suðvestan við Heklu.

Efsta myndin sýnir óróamæling frá Feðgum og sést að um sex leytið í gær hóf óróahvinur sem hefur staðið síðan. Hann er mun meiri en áður hefur verið og gæti hugsanlega verið fyrirboði, þó það sé nú alls ekki víst. Mælirinn í Mjóaskarði sýnir nákvæmlega sömu niðurstöðu.

Til samanburðar er fyrir neðan mæling frá sama stað 3. apríl 2017. Tíðnin er önnur og sveiflurnar ólíkar. 

170403 Hekla órói fedÞessir þrír litir geta sýnt gosóróa sem verða vegna kvikuhreyfinga djúpt í jörðu eða þá ... kviku sem rennur í upp að yfirborði jarðar. Óróinn er mestur í bláu línunni. Þar skjótast upp óhljóð með mjög reglubundnum fresti sem hugsanlega má túlka sem afleiðingar ruðnings kvikunnar upp í móti. Hver litur hefur sitt tíðnisvið.

Hekla hefur verið sagt mikið ólíkindafjall. Til skamms tíma héldu jarðfræðingar að grunnt undir fjallinu væri kvikuhólf sem veldur því að kvikan komi hratt upp á yfirborð. Giskað var á að kvikuhólfið væri á þriggja til fimm km dýpi.

Þetta hefur allt breyst. Nú er talið fullvíst að kvikuhólfið sé mun dýpra, á 15 til 20 km dýpi. Þó mikið safnist í kvikuhólfið verða ekki miklir skjálftar eins og í öðrum eldstöðvum. 

Undanfari gossins árið 2000 sýndi hreyfingu í skjálftamælum á Litlu-Heklu. Þetta voru litlir skjálftar, þeir stærstu um eitt stig. Síðan fjölgaði þeim að mun og gátu þá jarðvísindamenn fullyrt að gos væri í nánd sem var tímamótaviðburður. Frá því að fyrsti forboðin sáust á mælum liðu 79 mínútur þar til gosið hófst.

Af þessu má draga þá ályktun að þrýstingur kvikunnar á leið upp úr kvikuhólfinu er mjög mikill og verður því kraftur gossins eftir mikill í upphafi. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að vísindamenn vara við flugumferð yfir fjallinu en hún þar nánast í beinni línu frá austri til vesturs. Af ókunnum ástæðum hafa samgönguyfirvöld samt ekki talið ástæðu til að breyta flugleiðum. Sama er með gönguferðir á Heklu. Eldgosið brestur á með nær engum fyrirvara og hvert á göngufólk að forða sér? Vissast er því að sleppa því að ganga á fjallið.

Þó Hekla gjósi af miklum krafti í upphafi goss dregur hratt úr því og geta „mallað“ lengi þar á eftir.

Hekla er tvímælalaust í gosham. Það sést í öllum rannsóknum. Síðustu áratugina hefur verið stöðug kvikusöfnun undir fjallinu. Allar mælingar sýna að ekki aðeins fjallið rís heldur allt umhverfi þess.

Þegar niðurstöður mælinga sýna að landris eykst þangað til það er komið í svipaða hæð og síðast er eldgos varð. Þá brestur jarðskorpan, kvika þrýstist upp og gos verður. 

181203 Hekla, hallamælingarNú er staðan hins vegar sú að land hefur risið mun hærra en áður hefur gerst. Enn sjást þó engin merki um gosóróa og veldur það vísindamönnum nokkrum heilabrotum og líklega áhyggjum.

Myndin hér hægra megin sýnir hallamælingar við Næfurholt, beint vestur af Heklu og þær endurspegla þrýstingsbreytingar í rótum eldfjallsins. Fullyrða má að nú sé landrisið orðið tvöfalt meira en í síðustu eldgosum. Er þá hægt að draga þá ályktun að næsta gos í Heklu verði miklu stærra en áður? Verður það hamfaragos sem er líklega andstæðan við „túristagos“.

Í þessum pistli er byggt á gögnum frá námskeiði sem Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, lagði fram á námskeiði í Endurmenntun vorið 2018 um eldgos á Ísland.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sigurður það hefir verið rannsakað að öll gos eru meiri og stærri þegar grand sólar minimum. Kannski það ver'i svo n

una.

Valdimar Samúelsson, 3.12.2018 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband