Greiða þarf fyrir umferð á Miklubraut og Hringbraut

Morgunblaðið var svo vinsamlegt að birta þessa grein mína föstudaginn 28. september 2018.

Fyrir gangandi mann er hundleiðinlegt að fara yfir Miklubraut og raunar líka Hringbraut. Hann þarf að ýta á takka á umferðaljósum, bíða lengi eftir að umferðin stoppi og græna ljósið birtist og göngumaðurinn bíður á meðan eins og illa gerður hlutur.

Loksins birtist grænt ljós og hægt að komast yfir. Um hálfri mínútu síðar eru enn fjöldi bíla stopp við gangbrautina. Þarna bíða því oft fimmtíu til eitt hundrað manns og fleiri ef strætó er bætist við. Flestir bílarnir eru í lausagangi og spúa eitrinu yfir nágrennið.
Leiðindi ökumanna og farþega eru mikil en minni ástæða er til að vorkenna þeim.


GöngubrýrIMG_5755
Hvers vegna ekki eru settar göngubrýr yfir Miklubraut, ofan við Stakkahlíð og neðan við Lönguhlíð. Getur verið að það sé markmið borgaryfirvalda að tefja fyrir umferðinni, gangandi, hjólandi og akandi? Er tilgangurinn að reyna að smala fólki í strætó?
Þrjár göngubrýr eru yfir austanverða Miklubraut. Er þar með kvótinn búinn. Hvers vegna hefur þá ekki verið tekið til hendinni á vestanverðri Miklubraut?
Umferðarteppur eru algengar víða í borginni, ekki aðeins á morgnanna og síðdegis. Borgaryfirvöld gera ekkert í málunum.

Lausnir
Þrjár góðar lausnir hafa verið nefndar til að greiða fyrir umferð um Miklubraut og yfir hana:

    1. Reisa göngubrú þar sem nú er gangbraut rétt austan við Stakkahlíð.
    2. Reisa göngubrú til vestan Lönguhlíðar, til móts við Reykjahlíð.
    3. Loka fyrir umferð af Lönguhlíð og inn á Miklubraut á álagstímum.

Tillögurnar munu án alls vafa greiða fyrir umferð gangandi fólk og bíla enda á að aðgreina þessa tvo umferðarmáta eins og hægt er. Fyrir vikið mun bílaumferðin verða miklu greiðari en nú er og hinar löngu raðir heyra sögunni til og göngu- og hjólreiðafólk getur greiðlegar komist leiðar sinnar. Líklega er óraunhæft að krefjast þess að Miklabrautin verði lögð í stokk frá Snorrabraut og austur úr.

IMG_5555Flöskuhálsar
Raunar eru fleiri flöskuhálsar í umferðinni. Hringbraut er í beinu framhaldi af Miklubraut. Gangbraut er yfir hana rétt fyrir neðan Þjóðminjasafnið, við Tjarnargötu. Þar er alltaf gríðarleg umferð gangandi fólks og hreint furðulegt að göngubrú sé ekki fyrir löngu komin þarna yfir götuna. Þess í stað skiptist göngufólk og bílar á að bíða, öllum til leiðinda - og tafa.

Leiðindi og tafir eru víðar á Hringbraut. Nefna má gangbrautina við Birkimel/Ljósvallagötu og einnig þá til móts við Grund. Þarna þyrftu að koma göngubrýr.

Meðvitundarleysi borgaryfirvalda í umferðamálum sést skýrast þar sem Framnesvegur liggur yfir Hringbraut. Sá fyrrnefndi hefur verið lokaður í um eitt ár vegna byggingaframkvæmda við Vesturbæjarskóla en engu að síður er umferðaljósunum haldið þar logandi. Sárafáir aka af suðurhlut Framnesvegar og inn á Hringbraut, einn eða tveir, oftast enginn. Umferðaljósin eru því þarna fæstum til gagns, flestum til ama og tafa.

Hér hefur ýmislegt verið nefnt sem flestir vita og þekkja af eigin raun. Borgaryfirvöld vita þetta mætavel en samt er ekkert gert. Eftir hverju er verið að bíða? Fljúgandi bílum, fleiri strætóum eða guðlegu kraftaverki ...?

Efri myndin er tekin á Miklubraut við Klambratún. Sjá má rautt ljós á göngubrautinni og fjöldi bíla bíða í röðum.

Neðri myndin er tekin á Framnesvegi, suðurhluta. Grænt ljós er á götuvitanum en enginn bíll sem er á Framnesivegi en bílar bíða á Hringbraut. Í dag, 3. október var hins opnað fyrir umferð af norðurhluta Framnesvegar og út á Hringbraut. Umferðin er afar lítil á fyrrnefndu götunni en löng bið fyrir þá sem eru á Hringbraut.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það hefði alveg mátt nota tækifærið þegar verið var að breyta Miklubrautinni við Klambratún og koma þar fyrir göngubrú. Mögulega hefði þá verið hægt að gera götuna dálítið niðurgrafna svo að brúin yrði ekki eins há.

Síðan þessi vandræðagangbrautaljós á Hringbraut neðan við Þjóðminjasafnið, sem valda því stundum að allt stíflast á hringtorginu fyrir ofan. Þarna við Hringbraut er sennilega of þröngt fyrir göngubrú. en kannski mætti gera undirgöng fyrir vegfarendur með því að fórna einu af íbúðarhúsunum gengt Félagsstofnun. Sem verður sennilega ekki gert.

Sjálfur á ég oft erindi yfir Hringbrautina gengt gamla kirkjugarðinum. Þar hef ég komist upp á lag með að komast yfir án þess að nota umferðarljósin með því að ganga meðfram götunni þar til tækifæri gefst til yfirferðar, enda kann ég ómögulega við að stöðva öll þessi hestöfl sem þar fara um götuna.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.10.2018 kl. 23:39

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll og bestu þakkir fyrir innlitið. Mér er eiginlega alveg sama um hestöflin. Bíla má stoppa, ökumenn og farþegar eru varðir. Göngufólk ekki.

Aðalatriðið er að skilja að göngufólk og bíla eftir því sem kostur er. Göngubrúm má koma fyrir hvar sem er, arkitektar eða verkfræðingar hafa atvinnu af slíku.

Spurningin sem eftir stendur er hins vegar þessi: Á hvaða leið eru borgaryfirvöld?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.10.2018 kl. 23:49

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Göngubrýr eru reyndar alltaf plássfrekar ekki síst vegna þess að þær þurfa líka að sinna þeim sem eru hjólandi. Sama á svo sem líka við um undirgöng. En með því að stöðva hestöflin á ég við að það er ekki bara verið að stöðva flæði umferðar með gönguljósum heldur er einnig verið að sóa orku og að valda mengun með því að stöðva bíla og koma þeim af stað aftur. 

Borgaryfirvöld eru annars á þeirri leið að koma sem flestum í almenningsamgöngur en annað mál er hvort það sé raunhæft og hvort íbúar séu tilbúnir til þess.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.10.2018 kl. 00:32

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Borgaryfirvöldum virðist vera svo mikið í mun að leggja stein í götu þeirra sem kjósa einkabílinn, að þau gleyma jafnvel hjólandi og gangandi vegfarendum í þrengingar og þvingunarbrjálæði sínu.

 Þakka góðan pistil.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 4.10.2018 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband