Umdæmi sem þekur, björgum rúllað og banni lyft ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Óþarfi að vera „á tánum“

„Að vera á tánum“ – one one´s toes, er orðið vinsælt hér. Haft um það að vera árvökull, á varðbergi, vel á verði, viðbúinn, við öllu búinn, viðbragðsfljótur, duglegur, einbeittur, standa sig vel, spenntur, fylgjast vel með (t.d. í sínu fagi) – o.fl. (auk þess að vera berfættur!). Eiginlega óþarft.

Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 21. september 2018.

 

1.

Að vera eini lög­reglumaður­inn í heilu um­dæmi gæti ef­laust verið sum­um ofviða, og hvað þá ef um­dæmið þekur svæði á við tvö og hálft Ísland.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Hér er sagnorðið að þekja rangt notað. Í malid.is segir:

þekja sagnorð 
fallstjórn: þolfall
mynda samfellda breiðu (yfir e-n flöt)
visnað lauf þekur gangstéttina
skógar þöktu stórt landflæmi

Lögregluumdæmi getur aldrei þakið neitt ekki frekar en hugsun getur þakið  borð eða hulið það. Dúkur getur þakið borðið að hluta eða öllu leyti, sama er með óhreinindi eða álíka.

Blaðamaðurinn er hefur lítinn orðskilning. Það sýnir sig best í nástöðunni, sömu orðin endurtekur hann æ ofan í æ. Umdæmi kemur fimm sinnum fyrir í þessari stuttu frétt, svæði fimm sinnum og sögnin þekja tvisvar. Hann framleiðir einfaldlega frétt sem er stórskemmd.

Tillaga: Eflaust getur það verið sumum ofviða að vera eini lög­reglumaður­inn í heilu um­dæmi, hvað þá ef það er á stærð við tvö og hálft Ísland.

2.

Áður en lagt var í hann sátu þátttakendur stutt námskeið hjá ökukennaranum Jussi Kumpumaki, sem fór yfir helstu atriði um hvernig ætti að keyra í brautinni.“ 

Grein á bls. 4 í bílablaði Morgunblaðsins 18.09.2018.     

Athugasemd: Frekar illa skrifuð grein blaðamanns Morgunblaðsins um hraðakstur á braut Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni í Hafnarfirð. Greinilegt er af ofangreindu að blaðamaðurinn er óvanur skrifum. Kennarinn fór yfir helstu atrið um hvernig … Þetta er barnalega skrifað og ótrúlegt að enginn á ritstjórn Moggans skuli gera athugasemd við þetta orðalag.

Fleira er furðulega orðað í greininni:

Aksturinn hófst svo á upphitun með því að aka svig milli keila …

Ekki er öllum ljóst hvað það er að aka svig en líklega er það þannig að nokkrum keilum er komið fyrir í beinni línu og ökumanninum er ætlað að aka á milli þeirra. Má vera að orðasambandi að aka svig sé til en líklegt er að fæstum er kunnugt um það.

Hraðinn var aukinn í hverjum hring þar til maður upplifði sig tæta í gegnum brautina eins og fagmaður á ljóshraða.

Þessi málsgrein gengur ekki alveg upp, má vera að þarna ætti að vera … að tæta. Ef blaðamaðurinn er sáttur við sögnina að tæta, hefði verið betra að segja þar til maður tætti í gegnum … Upplifunin má svo liggja á milli hluta, öll greinin er að hálfu um hana.

Gera má athugasemdir við margt fleira í greininni sem er flausturslega og gagnrýnislaust samin. 

Tillaga: Áður en lagt var í hann sátu þátttakendur stutt námskeið hjá ökukennaranum Jussi Kumpumaki, sem gaf nokkur góð ráð um aksturslag.

3.

Esjunni verður lokað á morgun á meðan björgum verður rúllað niður fjallið.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Orðskilningi margra blaðamanna á visir.is er verulega ábótavant. Sögnin rúlla merkir velta. Boltinn rúllar til dæmis eftir gólfinu sé ýtt við honum. Börn segjast hafa rúllað sér niður brekku. 

Á mbl.is er frétt um sama ruglið. Þar er málsgreinin algjörlega óskiljanleg:

Þegar þeir voru að leggja í hann klukk­an sjö í morg­un tók á móti þeim hóp­ur verk­fræðinga sem var í þann mund að fara að rúlla niður nokkr­um björg­um við fjallið nærri toppi Þver­fells­horns.

Samkvæmt fyrirsögninni og fréttum sér lesandinn fyrir sér að viðkunnanlegir verkfræðingar láti björg rúlla sí sona í rólegheitum niður Þverfellshorn, gangi líklega með þeim til að tryggja að allt fari nú að óskum.

Nei, bjarg, það er stór steinn, grettistak, rúllar ekki niður Þverfellshorn, það endasendist í loftköstum á vaxandi hraða, skilur eftir sig stórar skellur hér og þar uns hlíðina þrýtur og mýrin tekur við. Líkast til brotnar það á leiðinni og dreifst. Enginn, ekki nokkur maður, getur ráðið við bjarg sem fellur. Þyngdarlögmálið ræður og þar af leiðandi er kolrangt að nota sögnina að rúlla í fyrirsögn fréttarinnar og textanum.

Þess ber þó að geta að Esjunni verður ekki lokað. Göngumönnum er frjálst að fara upp Kerhólakamb, um Þverárkotsháls, upp Kistufell svo ekki sé talað um norðurhlíðar Esjunnar. Blaðamaðurinn áttar sig ekki á því hversu mikið stór Esjan er. Þar eru fleiri gönguleiðir en hann virðist átta sig á. Orðalagið ber vitni um sama barnaskap og þegar fréttabörnin segja að bíll „hafi klesst á annan“.

Tillaga: Lokað verður fyrir umferð um Þverfellshorn í Esju meðan lausum björgum er hratt niður. 

4.

Lyfjabanni Rússa lyft: „Mestu svik íþróttasögunnar“.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Börn eiga ekki að skrifa fréttir. Þau eru of mörg á Vísi Fréttablaðinu og Stöð2.

Hvað merkir að lyfta banni? Líklegt er að fréttabarnið hafi þarna verið að reyna sig við þýða úr ensku, „Russia’s doping ban lifted“. Barnið þýðir þetta þannig að einhver hafi lyft lyfjabanni. Blaðamaðurinn hefur hugsanlega ályktað að skjalinu sem lyfjabannið var ritað á hafi verið hafið til lofts, að minnsta kosti upp af borði. Í þokkabót er lyftingin kölluð „mestu svik íþróttasögunnar“. Öðru vísi er ekki hægt að skilja bullið.

Sé banni aflétt er því ekki „lyft“, fallið er frá því, það er afnumið, er ekki lengur í gildi eða álíka.

Þeir sem hafa ekki glöggan skilning á íslensku máli eiga ekki að starfa í blaðamennsku. Puntur. Ástæðan er einföld. Fákunnandi framleiða skemmdar fréttir og stunda þar með hryðjuverk á íslensku máli. Verstur andskotinn er sá að í birtingu skemmdra frétta felst innræting.

Fyrir utan ofangreint er hroðvirkni blaðamannsins áhyggjuefni. Dæmi:

Rússar voru dæmdir bann fyrir þremur árum …

Vantar ekki eitthvað í þessa setningu?

Níu af 12 meðlimum stjórnar WADA kusu með því að lyfta banninu, tveir kusu gegn því en einn sat hjá.

Var þetta kosning eða atkvæðagreiðsla. Blaðamaðurinn virðist ekki þekkja muninn.

Kosningin kom eftir að talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar hélt tölu þar sem hann sagði Rússa hafa lagað það sem var í ólagi.

Hvernig gat „kosningin“ (það er atkvæðagreiðslan) komið? Gekk hún inn um dyrnar eða birtist hún á einhvern annan hátt? Hvernig var hún klædd? Hvað sagði Rússinn sem breytti skoðun annarra nefndarmanna? Um það er ekkert sagt í „fréttinni“.

Ekki er alvont þó blaðamaður klúðri frétt. Stóra vandamálið eru hins vegar fréttastjórar og ritstjórar. Þeim er greinilega algjörlega sama um fréttaflutninginn, veita blaðamönnum ekkert aðhald eða tilsögn. Líklegast er að þeir séu engu skárri í íslensku máli en þessi vesæli blaðamaður. Svona lagað er til algjörrar skammar. 

Tillaga: Klúður og heimskupör fjölmiðlanna Vísis og Stöðvar2 og verða ekki leiðrétt hér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband