Ókjörnir fulltrúar, ælt í bílinn, og misnotaðir lærisveinar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

 

1.

Ókjörnir fulltrúar sem styddu 90% af brjáluðum stefnum forsetans ættu ekki að segja bandarísku þjóðinni að vera róleg því þeir væru að stöðva hin 10% af stefnum Trump.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Eitt er að blaðamenn á Vísi skrifi illskiljanlegan texta og kalli fréttir, annað er að fara hreinlega rangt með og fullyrða að það séu líka fréttir. Verst af öllu er þegar þetta tvennt fer saman.

Ofangrein tilvitnun er furðuleg. Hvað er ókjörinn fulltrúi?

Ókjör getur þýtt mikið af einhverju, jafnvel ofboðslega mikið. Það á greinilega ekki við hér. Ókjör getur líka þýtt slæm kjör. Til dæmis væru það afspyrnu slæm kjör ef blaðamaður fengi lægstu laun allra, það gæti kallast ókjör. Aftur á móti geta það líka verið ókjör fyrir útgáfu að hafa ráðið lélegan blaðamann á góðum launum.

Sá sem ekki hefur verið kosinn í ákveðið embætti getur aldrei verið kallaður ókjörinn. Orðið er rassbaga og það vita allir sem eitthvað kunna fyrir sér í íslensku. Ensk orð er ekki alltaf hægt að þýða á íslensku og sama á við íslensk orð á ensku. Á ensku er til orðið unelected, til dæmis í orðasambandinu unelected bureaucrats sem þýðir fólk sem gegnir embætti en hefur ekki verið kjörið í það.

Í heimild blaðamannsins, New York Times, segir:

They’re not doing us a service by actively promoting 90 percent of the crazy stuff that’s coming out of this White House and then saying, Don’t worry, we’re preventing the other 10 percent.

Í allri greininni í New York Times hef ég hvergi rekist á unelected bureaucrats eða officials. Líklegast er því að blaðamaðurinn á Vísi hafi spunnið upp þetta með „ókjörna fulltrúa“. Sé svo gengur þetta þvert á góða siði í blaðamennsku.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

Neðanj­arðarlest­ar­stöð opn­ar á ný eft­ir 11. sept­em­ber 2001.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Í þessari frétt á Moggavefnum er röng. Neðanjarðarlestarstöð opnar ekki neitt, hún er opnuð.

Svona villa er ótrúlega algeng hjá blaðamönnum. Þeir skrifa um verslanir og hús sem opna en byggingar, fyrirtæki og önnur dauð apparöt opna ekki neitt. Fólk opnar verslanir, hús, byggingar og fyrirtæki.

Engu að síður stendur í meginmáli fréttarinnar:

Neðanj­arðarlest­ar­stöðin Cortlandt Street í New York í Banda­ríkj­un­um var opnuð á ný í gær 

Þarna er rétt með farið.  

Samskonar frétt er birt á Vísi og þar sem sama villa í fyrirsögninni en rétt er meðfarið í megintexta. Moggafréttin er þó skárri.

Í Vísisfréttinni er sagt að lestarstöðin sé „staðsett“ þar sem hún er. Af hverju þarf allt að vera staðsett? Hvað með að nota sögnina vera í staðinn?

Í MR í gamla daga fékk maður sérstakt tiltal fyrir að vera ekki samkvæmur sjálfum sér. Skárra var að hafa sömu villuna tvisvar eða þrisvar en að hrökkva úr og í.

Tillaga: Neðanj­arðarlest­ar­stöð opnuð á ný eft­ir 11. sept­em­ber 2001.

3.

Stjórnarmanni RÚV blöskrar tillögur ráðherra.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Blaðamenn á Vísi fara stundum með rangt mál, ofangreind fyrirsögn er dæmi um slíkt. Hvergi í fréttinni kemur fram að stjórnarformanninum blöskri tillögur ráðherra. Honum finnst aftur á móti vinnubrögð ráðherrans skrýtin. 

Á þessu tvennu er talsverður munur. Frekar andstyggilegt er þegar blaðamenn fara með rangt mál, slíkt kallast falsfréttir.

Tillaga: Stjórnarmanni RÚV finnst vinnubrögð ráðherra skrýtin. 

4.

Lloris ældi í bílinn og þurfti aðstoð við að komast úr honum.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Hver er munurinn á eftirfarandi:

  • Maðurinn ældi í bílinn …
  • Maðurinn ældi í bílnum …

Flestir átta sig á því að í fyrra tilvikinu hlýtur maðurinn að hafa staðið fyrir utan bílinn og gubbað inn í hann. Í seinna tilvikinu hefur hann setið inni í bílnum og kastað þar upp.

Blaðamaðurinn skilur ekki muninn á þessu tvennu og kemur það ekki á óvart. Þörf er á því að Vísir ráði til sín fólk með aðeins meira en lágmarksskilning á íslensku máli.

Tillaga: Lloris ældi í bílnum og þurfti aðstoð við að komast úr honum.

5.

Haustið byrjað að setja lit á Þingvelli.“ 

Fyrirsögn á myndatexta á forsíðu Morgunblaðsins 17.09.2018.       

Athugasemd: Góður maður sagðist fella tár sæi hann vondan texta. Hann átti ekki við texta með stafsetningavillum, röngum föllum eða tíðum. Slíkt má laga en ljótur texti stingur alltaf í augun.

Mynd eftir einn besta ljósmyndari landsins er á forsíðu Moggans. Hún er tekin úr lofti og sýnir Þingvallabæinn, Öxará og nágrenni. Stórfögur mynd og óvenjulegt sjónarhorn.

Hins vegar er textinn sem fylgir illa saminn og flatur. Hann er svona:

Haustið er byrjað að setja lit sinn á Þingvelli. Eftir einstaka frostnætur er laufið á trjánum orðið skrautlegra, gult og rautt. Trén draga efni úr laufþekjunni niður í rætur til að undirbúa vöxt næsta árs, áður en laufið fellur.

Ferðafólk sækir þjóðgarðinn heim allan ársins hring. Þeir sem eru með ljósmyndavélar og síma á lofti eiga von á góðu á þessum árstíma, litirnir skapa eftirminnilega stemningu.

Hvernig er hægt að taka svo til orða. Haustið er byrjað, haustið sé að setja lit sinn … Hvaða lit einkennir haustið? Er gult og rautt lauf skrautlegt? Nei, ég nenni þessu ekki. Þetta er tilgerðalegur og ljótur texti, verra er að stjórnendur blaðsins séu gjörsneiddir skilningi. 

Hver heldurðu, ágæti lesandi, að hafi orðað það sem ranglega er kallað „tillaga“ hér fyrir neðan? 

Tillaga: „Eitt gulnað blað, / aðeins eitt // fellur til jarðar / við fótspor þitt, // fótatak tímans / og tregi.“

6.

Fátt get­ur komið í veg fyr­ir að læri­svein­ar Heim­is Guðjóns­son­ar í HB vinni fær­eyska meist­ara­titil­inn í knatt­spyrnu í ár.“ 

Frétt á mbl.is.        

Athugasemd: Ótrúleg er vitleysan hjá íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins. Á þetta hefur margsinnis verið bent að leikmenn í fótbolta eða handbolta eru ekki lærisveinar þjálfarans. Þetta er bull og snýr á haus hinni upprunalegu merkingu orðsins lærisveinn.

Þjálfarinn er að öllu leyti verkstjóri, segir fyrir um vinnu. Hann er ekki kennari. Þar að auki eru leikmenn í flestum tilvikum launaðir starfsmenn, að hluta eða öllu leyti. Má búast við því að þeir verði næst kallaðir lærlingar?

Af hverju þarf má starfsheitið þjálfari halda sér? Af hverju geta íþróttablaðamenn ekki nefnt hlutina réttum nöfnum? Velst bara illa gefið fólk í þessi störf?

Eru ritstjórar og fréttastjórar sáttir við skrif „lærisveina“ sinna í íþróttadeildinni? Eða ber nú að kalla yfirmenn blaðamanna lærifeður?

Loks er ekki úr vegi að geta þess að leikmenn í fótbolta verða ekki meistarar, heldur liðið. Valur verður Íslandsmeistari í fótbolta og þar með læris… ég meina leikmennirnir.

Tillaga: Fátt get­ur komið í veg fyr­ir að lið Heim­is Guðjóns­son­ar í HB vinni fær­eyska meist­ara­titil­inn í knatt­spyrnu í ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Grunar að sumir blaðamenn noti google translate til að þýða fyrir sig. Þá getur farið illa. Samt getur líka farið skár en ef blaðamaður sem kann ensku mjög illa (sem ég hugsa að eigi við um 90% þeirra - eða öll ókjörin af þeim) reynir að þýða sjálfur. Hvort er uppi á teningnum í fyrsta dæminu sem þú nefnir veit ég ekki.

En svo er eins og stundum noti þeir líka google translate til að skrifa fyrir sig textann alveg frá grunni. Þá skrifa þeir hann líklega fyrst á einhverri skollaþýsku (eða skollaensku) og láta svo forritið þýða. Þá byrjar haustið að "setja lit á Þingvelli" og sitthvað fleira smálegt og skemmtilegt!

Þorsteinn Siglaugsson, 17.9.2018 kl. 15:47

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þessu vil ég helst ekki trúa, Þorsetinn. Sé þetta rétt er hrikalega illa komið fyrir fjölmiðlum og þá er framtíð íslenskrar tungu í stórhættu. Dæmin segja þó sína sögu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.9.2018 kl. 15:52

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, þau gera það. En nú er spurningin auðvitað sú hvort málfarið (og gáfnafarið) muni skána þegar ríkið fer að borga laun blaðamannanna eins og mun víst standa til.

Þorsteinn Siglaugsson, 17.9.2018 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband