Fólkið sem mengar sundlaugarnar
1.8.2018 | 17:15
Morgunblaðið var svo vinsamlegt að birta þessa grein mína þriðjudaginn 1. ágúst 2018:
Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum segir að gestir skuli þvo sér án sundfata áður en þeir ganga til laugar. Á engum sundstöðum sem ég þekki til er fylgst með því að gestir geri það. Yfirleitt þvo Íslendingar sér en stór hluti útlendinga gerir það ekki.
Viðbjóðurinn
Mjög algengt er í Sundlauginni í Laugardal og Sundlaug Vesturbæjar að útlendir ferðamenn þvoi sér ekki. Þetta hefur ágerst eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað og er nú komið út í viðbjóðslega vitleysu.
Ég þekki best til í Laugardalslauginni, kem þar mjög oft. Fjölmargir útlendir karlar klæðast sundskýlu í búningsklefa og fara beinustu leið út í laug, stundum með örstuttu stoppi í sturtunum, svona rétt til að sýnast. Konur segja að þetta sé afar alengt í kvennaklefanum. Aldrei hef ég séð starfsmenn gera athugasemdir við þetta háttalag. Þetta vita fjölmargir og fara aldrei í laugarnar, þeim hugnast ekki sóðaskapurinn.
Engar undanþágur
Örfáir gestir benda útlendingunum á að laugin sé ekki til þvotta, til þess séu sturturnar. Viðbrögðin eru þá skrýtin og engu líkara en sumir hafi ekki gert sér grein fyrir tilganginum með sturtunum og snúa til baka og þvo sér. Aðrir snúa upp á sig og fara út í.
Þetta ástand er algerlega óviðunandi. Reglan er sú að annað hvort þvær fólk sér áður en það fer ofan út í laug eða það fer ekki út í. Hér er enginn millivegur. Enginn gestur á að vera undanþeginn reglum. Punktur.
Annaðhvort eða!
Vissulega er menning þjóða og þjóðarbrota mismunandi. Má vera að hingað komi fólk sem geti ekki hugsað sér að afhjúpa nekt sína, jafnvel í sturtunum. Fyrir þetta fólk eru til hálflokaðir sturtuklefar, að minnsta kosti í Laugardalslauginni. Sé það ekki nóg á fólk ekki að fara í sundlaugar á Íslandi. Engan afslátt á að gefa á hreinlæti sundlaugargesta. Uppruni, menning, siðir eða annað er ekki gild afsökun. Hér gildir einfaldlega annað hvort eða.
Sagt upp störfum
Við sem stundum sundlaugarnar veltum því oft fyrir okkur hvers vegna starfsfólk í búningsklefum hafi ekki eftirlit með því að gestir þvoi sér. Fyrir nokkrum árum sagði einn sturtuvörðurinn, eldri maður sem nú er hættur störfum, að það þýddi ekki neitt að fylgjast með gestum, þá kæmust starfsmenn ekki í önnur brýn störf. Sem sagt, eftirlit með hreinlæti sundlaugargesta er fullt starf. Öðrum eldri manni var sagt upp störfum fyrir að framfylgja reglum, krefjast þess með smá offorsi að gestir færu í sturtu.
Þurra fólkið
Eitt sinn sat ég í ágætum hópi í heita pottinum og var þar spjallað um heima og geima. Þá kemur einn Íslendingur askvaðandi beint úr búningsklefa, skraufþurr. Einhver spurði hvort hann hefði farið í sturtu áður en hann kom út. Landinn sagðist ekki hafa gert það, hann væri að fara í pott. Honum var þá sagt að hann skyldi andskotast til baka og þvo sér og þá fengi hann að koma ofan í pottinn, fyrr ekki. Eftir tíu mínútur kemur skrattakollur til baka og segist hafa þvegið sér og hvort við værum nú ánægð. Sem sagt, hann þvoði sér fyrir okkur, ekki af þörf eða vegna þess að reglur laugarinnar krefðust þess.
Nær daglega sér maður fólk af báðum kynjum koma úr búningsklefum, skraufþurrt, og fer beint í sundlaug eða potta. Þetta er auðvitað algjör viðbjóður og ekki sæmandi rekstraraðilanum að öðrum gestum sé boðið upp á slíkt.
Mannréttindin
Borginni virðist vera algjörlega sama um þessi mál. Að þeirra mati eru mannréttindin fólgin í því að sleppa kynjamerkingum á salernum sem í eigu og umsjón Reykjavíkurborgar.
Ég held að ég tali fyrir munn flestra sem sækja sundlaugar þegar ég fullyrði að það er réttur hvers sundlaugargests að geta farið ofan í sundlaug vitandi það með vissu að allir gestir hafi þvegið sér áður en þeir fari ofan í.
Upplýsing og eftirlit
Hægt er að grípa til tveggja ráða. Annað er að starfsmenn hafi beinlínis eftirlit með því að gestir fari í sturtu og þvoi sér. Hitt er að allir útlendir gestir sem kaupi sig í laug fái afhent spjald með einföldum reglum og myndrænum leiðbeiningum. Á því standi meðal annars að annað hvort sé farið að reglum eða gestinum verði meinað að fara ofan í laugina.
Við þetta ástand verður ekki unað lengur, borgaryfirvöld þurfa að taka á þessu. Strax.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Facebook
Athugasemdir
Sæl nafni. Ég er líka fastagestur í Laugardalslaug og er algjörlega sammála þér en vil bæra við þetta hjá þér. Útlendingar (og hugsanlega líka einhverjir Íslendirgar) sem fara í gufubað fara yfirleitt ekki í sturtu á eftir og fara löðrandi af svita út í laug eða pott. Ég hef oft orðið vitni af þessu. Enginn fylgist með því. Svo er það fólkið í World Class. Fastagestir mega fara út í sundlaug og ég spyr: Hver fylgist með hvort þatta ágæta fólk fari í sturtu áður en það fer út í laug eða pott?
Sigurður I B Guðmundsson, 1.8.2018 kl. 19:13
Merkilegt er, að Þýskalandi, víða, er vörður sem sér
um það að ENGINN gangi til laugar nema taka sturtu.
Svona var þett einnig í den á Íslandi.
Hvað breyttist...???
Sigurður Kristján Hjaltested, 1.8.2018 kl. 19:41
Hef tekið eftir þessu með World Class, skil eiginlega ekkert í því hvernig sambandið er á milli Lauga og laugar.
Raunar er óskiljanlegt hvernig fólk getur farið út í pott eftir hita í gufu. Miklu nær að fara í sturtu, helst frekar kalda.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.8.2018 kl. 22:26
Nafni. Í sundlaugum í gamla daga var starfsfólk sem tugtaði mann til, stefndi öllum í sturtu og passaði upp á að allir notuðu sápu. Svo komst þetta upp í vana og allflestir Íslendingar þvo sér áður en þeir fara í laug. Útlendingarnir eru að raska fornu jafnvægi í laugunum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.8.2018 kl. 22:30
Ég leyfi mér að benda á eitt atriði sem kanski ekki allir þekkja að ef um múhamedstrúarmenn er að ræða þá skýla þeir ætið nekt sinni , það er trúarregla hjá þeim og baðast ekki án þess að sköp þeirra séu hulinn .
ÖGRI, 3.8.2018 kl. 02:48
Sé svo, þá eru hálflokaðar sturtur í Laugardalslauginn og víða er hægt að draga tjöld fyrir sturtur. Dugi það ekki þá á þetta fólk ekki að fara í laugar á Íslandi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.8.2018 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.