Barði, barði og flúði eventið
26.7.2018 | 20:14
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Barði konu sína á Vestfjörðum, dró hana á hárinu og barði í andlitið Lagði á flótta með barn sitt. Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Illa samin fyrirsögn, alltof löng og án markmiðs. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að maður var dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir að beina konu sína ofbeldi. Mér finnst óþarfi að taka það fram í fyrirsögn hvar atburðurinn átti sér stað. Það kemur fram í fréttinni.
Takið svo eftir bullinu sem býr til nástöðu. Barði konu sína og barði í andlitið. Blaðamaðurinn kann ekki að semja fyrirsögn, það er ljóst.
Hver lagði á flótta með barnið. Af fyrirsögninni má ráða að sá sem barði konuna hafi flúið með barnið. Svo er þó ekki.
Þetta er ekki nóg. Hvað þýðir þetta sem segir í fréttinni:
Mat dómari það svo að maðurinn hefði játaði brot sitt og hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot.
Þetta er illskiljanlegt. Var það dómarinn eða maðurinn sem hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot? Málsgreinin er kjánalega samansett.
Og hér er enn einn sveppurinn. Skilur einhver þetta?
Fram kemur í niðurstöðu dómsins að áður en brot mannsins átti sér stað hafði hann sýnt af sér óeðlilega hegðun í garð konunnar um lengri tíma.
Eða þetta?
en sakaferill mannsins hafði ekki áhrif við ákvörðun refsingarinnar.
Enginn les yfir hjá dv.is og allir fá að leika sér sem blaðamenn án nokkurrar tilsagnar. Svona frétt er ekki boðleg, hún er stórskemmd.
Tillaga: Dæmdur fyrir að beita konu sína alvarlegu ofbeldi.
2.
Börn og unglingar undir 18 ára voru að vinna á gámasvæðinu og hafði 15 ára starfsmaður verið að vinna við pressugám og lent í honum og orðið fyrir vinnuslysi. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ekki góð málsgrein. Hún er of löng og þar að auki er hún illa orðuð. Auðvelt að stytta hana. Reglan er sú að nota punkt sem oftast, ekki hlaða inn setningum. Um að gera að hafa textann eins stuttorðan og skýran og hægt er. Slíkt næst ekki nema með því að lesa hann vandlega yfir eða fá einhvern annan til þess. Fersk augu sjá oftast það sem er þarf að laga.
Á íslensku verður enginn fyrir vinnuslysi í vinnunni. Hins vegar slasast sumir í vinnunni. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Í ofangreindri tilvitnun er hamrað á nafnorði en í tillögunni hér fyrir neðan fær sagnorðið að njóta sín, þannig nýtur íslenskan sín.
Hin tilvitnaða málsgrein er tekin orðrétt úr vef Vinnueftirlitsins og gerir blaðamaður Moggans enga tilraun til að lagfæra augljósar misfærslur. Nákvæmlega eins gerir blaðamaður dv.is en á þeim vef er sagt frá því sama. Er kannski sami rassinn undir öllum íslenskum fjölmiðlum?
Vinnueftirlitið ber af í stofnanamállýsku, kansellístíl (þetta á ekki að vera hrós).
Eftirskrift: Ítarlegri og mjög vel skrifuð frétt um sama mál birtist á blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu. Hún er algjörlega til fyrirmyndar og án efa skrifuð af eldklárum blaðamanni ekki þeim sem á fréttina á mbl.is.
Tillaga: Börn og unglingar undir 18 ára unnu á gámasvæðinu. Starfsmaður sem var aðeins 15 ára féll í pressugám sem hann vann við og slasaðist.
3.
Hundrað kílóa hnullungur hafnaði næstum á konu við Grátmúrinn. Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hver skyldi nú vera munurinn á sögninni að hafna og sögninni að lenda. Mig grunar að grjótið hafi næstum því lent á konunni.
Einhvern veginn finnst mér að það sem hafnar einhvers staðar hafi verið sent með vilja. Til dæmis ef bolti hafnar í markinu, lið hafnar í fyrsta, öðru eða þriðja sæti eða álíka.
Grjót sem hrynur úr fjallshlíð lendir á húsinu, það hafnar ekki á húsinu. Hvort tveggja getur þó verið rétt.
Þetta getur þó verið smekksatriði. Að minnsta kosti myndi ég skrifa þannig og draga úr notkun á sögninni að hafna. Finnst hún dálítið tilgerðarlega svo oft sem hún sést í fjölmiðlum.
Tillaga: Hundrað kílóa hnullungur lenti næstum því á konu við Grátmúrinn.
4.
Þetta er alvöru event. Fréttamaður í kvöldfréttum Bylgjunnar 24.07.2018.
Athugasemd: Event er enska og getur þýtt atburður, uppákoma og álíka. Þarna var fréttamaðurinn að segja frá tónleikum Guns N´ Roses á Laugardalsvelli en gat ekki gubbað út úr sér setningunni á hreinni íslensku, hann þurfti að sletta, má vera svona til að sýnast.
Að hugsa sér ef fréttamaðurinn hefði sagt að þetta væri stórkostlegur atburður, alvöru tónleikar eða bara magnaður viðburður. Svoleiðis hefðum við, almenningur, varla skilið. Þetta var event, ííívent, magnað að svona fjölfróður og klár einstaklingur skuli starfa á Bylgjunni/Stöð2. Ég myndi mæla með því að Bylgjan borgaði honum laun, en má vera að börn fái ekki laun þar á bæ.
Tillaga: Engin gerð.
5.
28 bandarískir þingmenn eru eftirlýstir af lögreglunni ef marka má niðurstöður úr nýju forriti frá tæknirisanum Amazon. Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fyrir alla muni, ekki byrja setningu á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert á byggðu bóli.
Hér er ágæt skýring á fyrirbrigðinu:
A number is an abstract concept while a numeral is a symbol used to express that number. Three, 3 and III are all symbols used to express the same number (or the concept of threeness). One could say that the difference between a number and its numerals is like the difference between a person and her name.
Ég hef áður nefnt þetta en núna ákvað ég að koma með erlendar tilvísanir til að sýna að þetta á ekki aðeins við íslensku. Hér er önnur tilvísun valin af handahófi í orðasafni Google frænda.
You should avoid beginning a sentence with a number that is not written out. If a sentence begins with a year, write 'The year' before writing out the year in numbers.
Aðalatriðið er að vera vakandi yfir skrifum sínum, ekki láta vaða án þess að lesa yfir. Í stað þess að skrifa tölur má líka endurorða setninguna.
Tillaga: Tuttugu og átta bandarískir þingmenn eru eftirlýstir af lögreglunni ef marka má niðurstöður úr nýju forriti frá tæknirisanum Amazon.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.