Hvernig er hægt að elta drauma eða fórna fæðingu?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Hvað fær dagfarsprúða 101-fjölskyldu til að venda kvæði sínu í kross og elta drauma sína austur á land?“ Úr viðtali/frétt í aukablaði um mat í Morgunblaðinu 28.06.2018.         

Athugasemd: Hvers vegna flúðu draumarnir austur á land? Þetta var það eina sem mér datt í hug þegar ég las þessi orð.

Raunar segir á ensku „follow your dreams“. Kassalaga skrifarar og fáfrótt fólk heldur að þar með eigi maður að „elta“ drauma sína. Ekki er það nú svo á íslensku. Draumar flýja ekki og enginn eltir drauma.

Talsverður munur er á ensku og íslensku þó málin séu skyld. Hið versta sem þýðandi gerir er að þýða orðrétt. Það getur „Google-Translate“ gert og oft mun betur. Þýðingarforrit hefur þó hvorki hugsun eða tilfinningu en þýðandi af holdi og blóði hlýtur að hafa hvort tveggja.

Niðurstaðan er því sú að við viljum láta drauma okkar rætast. Okkur dreymir og við eigum drauma, langanir og þráum eitthvað. Við eltumst ekki við langanir okkar, óskir eða þrár. 

Tillaga: Hvað fær dagfarsprúða fjölskyldu úr miðborg Reykjavíkur til að venda kvæði sínu í kross og láta drauma sína rætast austur á land?

2.

„Ell­efu manns úr sömu fjöl­skyldu fund­ust látn­ir í húsi í Nýju-Delí á Indlandi, tíu þeirra héngu úr loftinu, að sögn lög­regl­unn­ar.“ Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Eitthvað er nú flausturslegt við þessa málsgrein um hræðilegt mál. Í frétt BBC um málið, sem raunar er heimild blaðamans Moggans segir:

Eleven members of an extended family have been found dead in a house in  India´s capital, Delhi - 10 of them hanging from the ceiling, police say.

Þarna er þýtt beint og án hugsunar. Slæmt að þurfa að gera athugasemd við þetta en fólkið hafði verið hengt eða hengdi sig. Óþarfi að segja að það hafi verið „hangandi úr loftinu“, þannig er ekki tekið til orða á íslensku. Hæla má þó blaðamanninum fyrir að nota ekki töluorðið 10, heldur skrifar hann tíu.

TillagaEllefu manns úr stórfjölskyldu fundust hengd í húsi í Nýju-Delí á Indlandi að sögn lögreglunnar.

3.

„Hóp­ur af ís­lensku landsliðsmönn­un­um hef­ur sleikt sól­ina í Miami síðustu daga.“ Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Dálítið þetta stirt orðalag. Mun eðlilegra er að segja að hluti af íslensku landsliðsmönnum hafi sleikt sólina eða nokkrir landsliðsmannanna hafi gert það.

Tillaga: Nokkrir íslensku landsliðsmannanna hafa sleikt sólina í Miami síðustu daga.

4.

„Fórn­ar fæðingu barns­ins síns.“ Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Þetta er hörmuleg fyrirsögn. Hvernig er hægt að fórna fæðingu? Skilur blaðamaðurinn ekki sagnorðið? Með góðum vilja má ráða þannig í merkinguna að karlinn, ekki konan hans, ætli ekki að vera viðstaddur fæðingu barnsins síns því hann ætlar að taka þátt í fótboltaleik enda í landsliði Svía á HM.

Má vera að þetta sé „fórn“ í óeiginlegri merkingu en sem fyrirsögn skilst hún ekki vegna þess að val karlsins er ekki fórn. 

Svona búa margir til fyrirsagnir, láta að einhverju liggja sem skýrist í fréttinni sjálfri, í stað þess að búa til góða fyrirsögn sem segir sögu og dregur að. Hægt er að þjálfa sig upp í gerð fyrirsagna en íþróttablaðamann nenna einna því síst allra blaðamanna. 

Tillaga: Faðirinn velur fótboltann ekki fæðinguna.

5.

„Fótboltahátíð í höfuðstað Norðurlands.“ Fyrirsögn á bls. 2 í Morgunblaðinu 05.07.2018.         

Athugasemd: Akureyri er ekki höfuðstaður Norðurlands og hefur aldrei verið. Á Morgunblaðinu er það einn ákveðinn blaðamaður sem viðheldur þessum hvimleiða áróðri enda búsettur á Akureyri. Hvar annars staðar? Hann ætti kannski að flytjast til Húsavíkur.

Fyrir þá sem ekki vita nær Norðurland frá Hrútafirði í vestri til Langaness í austri. Landshlutinn er gríðarlega ólíkur innbyrðis og ekki furða þótt honum sé að öllu jöfnu skipt í Norðurland vestra og eystra. Raunar ætti þriðja skiptingin að fylgja með sem er Eyjafjörður. Veðurfarslega eru þessu hlutar Norðurlands afar ólíkir. Menningarlega eru bera þeir hver sín ólíku einkenni sem auðvitað er mjög jákvætt.

Tillagan hér að neðan er gerð í einhverri kerskni enda ómögulegt annað.

Tillaga: Fótboltahátíð í þorpi syðst í Eyjafirði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

"Fótboltahátíð í stóru þorpi syðst í Eyjafirði" ætti sennilega betur við í athugasemd númer fimm. ;-)

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan og takk fyrir að halda kyndlinum á lofti.

Halldór Egill Guðnason, 7.7.2018 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband