Bera trú í einhvern, venda sífellt kvæði í kross og gera gott mót
25.6.2018 | 10:52
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Hannes ber trú í þjóðina fyrir næsta leik á HM Við ætlum ekki heim. Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Hér er dálítið skrýtilega tekið til orða. Íþróttablaðamenn hafa yfirburða þekking á íþróttum en þeir eru margir lakari íslensku máli. Mikill skaði hlýst af því.
Vart er hægt að bera trú í einhvern, hvorki einstakling, hóp né þjóð. Orðalagið er líkast því að verið sé að moka einhverju, skófla einhverju. Réttari lýsing að Hannes markvörður reyni að fullvisa okkur um að næst muni allt ganga betur.
Tillaga: Hannes reynir að fullvissa þjóðina að betur gangi í næsta leik: Við ætlum ekki heim.
2.
Trump vendir kvæði sínu í kross um hættuna af Norður-Kóreu. Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Orðtök og málshættir eru oft til vandræða í fréttum. Um slík segir Jónas Kristjánsson, fyrrum blaðamaður, í pistlum sínum:
Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
Því miður hefur blaðamaðurinn sem skrifaði tilvitnunina ekki menntað sig í blaðamennsku Jónasar og því fer sem fer. Áður hafði sami blaðamaður skrifað þessa fyrirsögn á visir.is:
Macron vonar að Trump vendi kvæði sínu í kross í loftslagsmálum.
Hver veit hversu oft hann notar þennan frasa? Blaðamaður sem skrifar í klisjum á í vanda jafnvel þó hann viti ekki af því. Yfirleitt duga málshættir og orðtök illa í fyrirsögnum. Eins og Jónas Kristjánsson segir um fyrirsagnir:
Fyrirsögn á að selja aðgang að megintextanum. Fráleitt er, að notendur þurfi að lesa textann til að skilja fyrirsögnina. Allt er skaðlegt, sem seinkar lestri. Notandinn vill ekki þurfa að staldra við til að hugsa. Fyrirsögn á að renna ljúft inn í megintexta.
Við þetta er engu að bæta.
Tillaga: Trump ítrekar fyrri skoðun sína um hættuna af Norður-Kóreu.
3.
Hann er að gera gríðarlega gott mót. Þulur lýsir leik Mexico og Suður Kóreu á RUV 23.6.2018.
Athugasemd: Engin skynsemi er í þessum ummælum. Standi einhver sig vel á að segja það beinum orðum. Sé landslið einhvers lands að standa sig vel skal segja það þannig. Orðasambandið að gera gott mót er ekki til. Samsetning er röng. Þetta komið úr ensku. (make a good tournament, doing a good game ). Þulurinn á í vanda og hann veit ekki af því.
Íþróttamót getur verið gott, keppendur geta staðið sig vel á móti, áhorfendur geta verið ánægðir með gott mót en enginn er þess umkominn að gera mót, ekki einu sinni mótshaldarinn. Hann heldur mótið og það getur verið vel heppnað eða ekki.
Sé Google notað til að leita að þessu orðasambandi eru niðurstöðurnar alltof margrar, til dæmis:
- Viðskiptablaðið: Guðlaugur gerir gott mót
- Vísir: Eyþór er að gera gott mót á erlendri grundu
- gkg.is: Birgir að gera sitt besta mót til þessa (Golfklúbbur Kópavogs)
Ónýta klisjan er afar algeng og þetta aðeins lítið brot.
Tillaga: Hann/liðið stendur sig vel á mótinu.
4.
Upp með sokkana! Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 23. júní 2018.
Athugasemd: Þessi fyrirsögn er ein hin besta sem sést hefur í íslenskum fjölmiðlum í langan tíma. Hún skírskotar til texta í lagi Ómars Ragnarssonar um Jóa útherja, heyra og hlusta hér. Þar heyrist hrópað:
ÁFRAM KR. Þegiðu Egill, þetta er landsliðið. Þórólfur, upp með sokkanna. Útaf með dómarann. ÚTAF MEÐ DÓMARANN
Þórólfur Bekk var frægur fótboltamaður og þekktur fyrir að leika með sokkanna niðri enda var víst ekki krafa að menn léku með legghlífar eins og í dag.
Upp með sokkanna hefur tvíræða merkingu. Annars vegar að draga þá upp á legginn og hins vegar að standa sig betur.
Í þessari frábæru fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins sjást vonsviknir íslenskir landsliðsmenn eftir tapið gegn Nígeríu.
Boðaskapur Fréttablaðsins er þessi:
Áfram Ísland, við styðjum ykkur fram í rauðan dauðann.
En það þurfti ekki að orða þetta í öllum þessum orðum heldur var notuð einföld, auðskiljanleg þrjú orð skrifuð: Upp með sokkanna.
Frábært. Betri gerast ekki fyrirsagnirnar.
Tillaga: [Engin gerð]
Íslenska er mál sagnorðanna
Hér er vitnað til Jónasar Kristjánssonar:
Mesta slysahættan á ritstjórnarskrifstofum er í fyrirsögnum. Fyrirsagnagerð krefst langrar þjálfunar og mikillar málþekkingar. Svo fá orð eru í fyrirsögnum, að þau geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar.
Óreyndir setja oft þarflaus aukaorð í fyrirsagnir til að þær fylli. Fyrirsagnir vísa oft til efnis, sem ekki er fremst í grein. Hún er þá úr fókus. Umskrifa þarf greinina.
Virkar sagnir eru lykilorð fyrirsagna. Íslenska er mál sagnorðanna, eins og enska.
Forðist skammstafi. Notið stutt orð. Klippið út óþörf orð. Stjórnin mun skoða áætlun, gæti verið fyrirsögn víða í blaði. Hvaða stjórn, hvaða áætlun? Fyrirsagnir eru oft styttar í meiningarleysu. Fyrirsagnir eru oft samdar í tímahraki og verða þá oft ekki góðar.
- Slepptu lýsingar-, atviksorðum, samtengingum, forsetningum, öllum smáorðum.
- Notaðu heila hugsun.
- Veldu orðin upp úr fréttinni.
- Notaðu ekki hástafi. Lesast illa.
- Notaðu ekki tákn, !?,%$@/
- Finnu stysta orðið: Kusu.
Ef fyrirsögn er lengri en ein lína, má ekki skipta orði milli lína. Það seinkar lestri og getur valdið misskilningi:
Jón er kvart-
samur bóndi
Notið sömu orð í fyrirsögn og eru notuð í greininni.
Fyrirsögn á að selja aðgang að megintextanum. Fráleitt er, að notendur þurfi að lesa textann til að skilja fyrirsögnina. Allt er skaðlegt, sem seinkar lestri. Notandinn vill ekki þurfa að staldra við til að hugsa. Fyrirsögn á að renna ljúft inn í megintexta.
Í gamla daga voru fyrirsagnir oft margra hæða. Auk aðalfyrirsagnar voru ýmsar gerðir yfirfyrirsagna og undirfyrirsagna. Nú er annað hvort aðalfyrirsögnin ein eða annað hvort með yfir- eða undirfyrirsögn að auki.
Margir skanna blöð í stað þess að lesa þau. Eins og þeir skanna skjá í fartölvu eða gemsa. Fyrirsögn þarf að taka tillit til fólks, sem hefur ekki tíma aflögu. Hástafir eiga ekki heima í fyrirsögnum (ekki heldur í meginmáli) vegna þess, að erfitt er að lesa slíkt letur. [ ]
Öll handrit þarf að lesa af öðrum en höfundi. Prófarkalestur tíðkast enn á íslenskum fjölmiðlum, en hefur lagst niður víða erlendis. Þar taka vaktstjórar við því hlutverki. Þetta þýðir, að íslenskir fjölmiðlar eiga að vera á góðu máli.
Núverandi kerfi prófarkalestrar í stoðdeild kemur ekki í stað copy editors. Hinir síðarnefndu stunda handleiðslu, hinir fyrrnefndu leiðrétta í kyrrþey. Af því stafa margar rangfærslur í fyrirsögnum.
Handleiðslan er betri. Af henni læra blaðamenn.
Iðn verður stundum að list.
Ef blaðamennska er iðn, þá er fyrirsagnagerð list.
Fyrirsagnagerð er hástig blaðamennskunnar.
Hæst launuðu blaðamennirnir eru fyrirsagnasmiðir götublaða.
Sá, sem semur fyrirsagnir, þarf að geta ráðið við plássið, sem er til umráða. Sé það upp á 15 stafi og bil í línu, semur hann slíka fyrirsögn. Sé það upp á 6 stafi og bil í línu, semur hann slíka. Hann býr ekki til fyrirsögn, sem kemst ekki í plássið.
Þessir ráð gilda öll enn um blaðamennsku. Því miður eru alltof fáir sem leita sér ráða í blaðamennsku og einnig fáir sem veita þau. Sjálfsálitið er stundum mikið en það jaðrar við hroka að leita sér ekki fróðleiks, fletta ekki upp í orðabók, nota ekki malid.is, hafa ekki landakort til hliðsjónar, treysta á eina heimild þegar margar eru innan seilingar og svo framvegis.
Gleggstu upplýsingar um skrif er að finna á vefnum jonas.is. Þangað eiga fleiri en blaðamenn að leita.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.