Mjög gott crowd, voru surprised, showið gekk vel ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Líkinu hagrætt

„Mér fannst hann svo tilvalinn í starfið að ég lagði hann til.“ Gaman væri að vita hve margir hnjóta um þetta. 

Að leggja e-n til hefur löngum þýtt að hagræða líki, veita e-m nábjargirnar. Að nota orðasambandið um það hafa e-n undir í átökum, eins og stundum sést, flokkast líklega undir spaugsemi. 

Málið á bls. 40 í Morgunblaðinu 16.6.18.

 

1.

„Sumarmessan: Hjörvar tók Heimi á teppið fyrir seinar skiptingar.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Þetta er heimskuleg fyrirsögn í alla staði. Í sjónvarpsþætti á Stöð2 var rætt um leik Íslands og Argentínu á HM í Moskvu. Blaðamaður tekur að sér að endursegja það markverðasta sem fram kom í sjónvarpsþættinum. Niðurstaðan er bull í fyrirsögn.

Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, tók ekki Heimi á teppið vegna þess að sá síðarnefndi var ekki þarna til að taka við ávítum eða gagnrýni. Nær er að segja að Hjörvar hafi gagnrýnt landsliðsþjálfarann. Blaðamaðurinn veit ekki hvað orðatiltækið að taka einhvern á teppið þýðir.

Annað álíka er  taka einhvern á beinið. Í bæði skiptin er verið að kalla einhvern fyrir. Beinið var vissulega til á skrifstofu skólameistara Menntaskólans á Akureyri, Sigurðar Guðmundssonar. Þeir sem hann stefndi til sín fyrir óknytti, lélegan námsárangur eða álíka þurftu að setjast á það. Þá varð til orðtakið að taka einhvern á beinið. Hjá Guðna rektor í MR var ekkert bein en ágætt teppi og stóll að því að mig minnir. Þar fengu nemendur yfirhalningu samkvæmt því sem þeir áttu skilið.

Svo er það þetta með seinar skiptingar. Íþróttablaðamenn eru margir hverjir hinir mestu bullukollar í stíl, frásögn og málfræði. Svipað rugl er fljótasta markið á leiktíðinni. Þá er átt við hversu fljótt leikmaður hafi skorað mark í fótboltaleik. Þykir það hið mesta afrek að koma boltanum sem fyrst inn. Á ensku er talað um „the fastest goal„ og af barnslegri einlægni þýðir blaðamaðurinn orðrétt. Ó, hvað svoleiðis er nú sætt!

Með seinum skiptingum er átt við að landsliðsþjálfarinn hafi verið lengið að skipta óþreyttum leikmanni inn á völlinn í stað þess sem meiddist og lék liðið því í hátt í eina mínútu einum færri.

Hins vegar er skiptingin aldrei sein, ekki frekar en markið sé fljótt. Held að það þurfi ekki að útskýra þetta nánar?

Í fréttinni, sem þó er er ekkert illa skrifuð, segir blaðamaður:

Þá fékk Ísland mark í bakið eftir slæman varnarleik, einum færri eftir meiðsli.

Illt er að meiðast í baki eða fá boltann í bakið en hvað merkir það að fá mark í bakið? Ógætilegt tal getur til dæmis komið í bakið á þeim sem það gerir, honum hefnist fyrir. Þó varnarleikurinn sé slæmur er frekar illa orðað að segja að mark hafi komið í bakið á liðinu. Betra hefði verið að segja að það hafi hefnt sín að sinna ekki varnarleiknum betur.

Tillaga: Sumarmessan: Hjörvar gagnrýndi Heimi fyrir að vera lengi með innáskiptingu.

2.

„Harry Kane kom Eng­lend­ing­um til bjarg­ar.“ Fyrirsögn mbl.is.       

Athugasemd: Hér er sagt frá fótboltaleik á HM og áttust við Englendingar og Túnisbúar. Harry þessi Kane er enskur, er í landsliði Englands og skoraði mark. Engu að síður er fyrirsögnin á þann veg að halda mætti að maðurinn væri ekki Englendingur og hefði þannig komið þeim til bjargar.

Í sjálfri fréttinni segir svo:

Staðan var svo jöfn á 34. mín­útu eft­ir að Kyle Wal­ker gaf klaufa­lega víta­spyrnu. 

Hér er ekki rétt með farið. Kyle Walker gaf ekki eitt eða neitt. Hann braut af sér og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. 

Nú kann einhver að segja að þetta sé íþróttamál. Sú viðbára er tóm vitleysa eins og svo margt annað sem hrekkur frá íþróttablaðamönnum. Það væri nú saga til næsta bæjar ef steliþjófur „hafi gefið klaufalegt innbrot“. Svona er bara ekki hægt að taka til orða. Íþróttamál getur verið gott og gilt en má ekki ganga í berhögg við íslenska málfræði eða almenna skynsemi.

Tillaga: Harry Kane tryggði Englendingum sigurinn.

3.

„Þeir voru mjög gott crowd. […] Þeir voru svona surprised og bara gaman, showið gekk vel og bara stemning.“ Úr frétt á dv.is.        

Athugasemd: Þetta segir Björn Bragi Arnarson, einn af uppistöndurum, sem skemmtu íslensku landsliðsmönnunum í Rússlandi. 

Björn Bragi heldur að hugsun hans komist ekki til skila nema með því að nota útlensku til áhersluauka. Hann er líklega á þeirri skoðun að íslenskan sé frekar máttlaus þegar kemur að því að lýsa einhverju sem einhverju máli skiptir.

Þó slettunum sé sleppt er ofangreint svo vit- og hugsunarlaus að varla er hægt að endursegja hana á íslensku án þess að niðurstaðan verði enn heimskulegri. Furðulegt að blaðamaðurinn sem þetta samdi skuli ekki hafa betri skilning á starfi sínu og íslensku en raun ber vitni. Honum ber auðvitað að skrifa fréttina á slettulausri íslensku, best hefði þó verið ef hann hefði haft vit á að sleppa þessu rugli.

Tillaga: Tekki hægt að bæta viti í svona rugl.

4.

„Helgi og Gummi eru að vinna mikla vinnu á bakvið tjöldin. Síðan er Heimir góður að gefa þér skýr hlutverk sem að hann vill að séu kláruð vel.“ Úr frétt á visir.is.         

Athugasemd: Það er nefnilega það. Helgi og Gummi þurfa að vinna mikla vinnu. Hér hefði verið nóg að segja að þeir félagar vinni mikið á bak við tjöldin.

Ekki tekur svo betra við í næstu málsgrein. Hún er tómt klúður og engin skýr hugsun, hvorki hjá viðmælanda né blaðamanni.

Tillaga: Helgi og Gummi vinna mikið á bak við tjöldin. Heimir er duglegur að gefa samstarfsmönnum sínum verkefni sem hann vill að séu vel unnin.


Íslensk fyrirtæki með ensk nöfn?

Ekki hafa allir jafn miklar áhyggjur af því að vinna þýðingar á íslensku og Víkverji. Vinur Víkverja á snjáldru greindi frá því nýlega að hann hefði rekist á nýjan stað í miðbænum sem héti Bastard upp á ensku.

Þessi nafngift væri ekkert einsdæmi því á leið hans að heiman í vinnuna gengi hann fram hjá The Drunk Rabbit, City Center Hotel, Iceware, American Bar, Dirty Burgers and Ribs, The Laundromat Café, The English Pub, Shooters Coyote Club, Ginger, The Hot Dog Stand, Nordic Store, Mountaineers of Iceland, 66 North, Icemart Souvenirs, What’s On, Pride of Iceland, Joe & The Juice, Guide to Iceland, Center Hotels, Flying Tiger, Icelandic Red Cross, Booking Centre, Woolcano, Scandinavian ... Er þetta ekki orðið ágætt? vikverji@mbl.is

Víkverji á bls. 29 í Morgunblaðinu 20.06.2018


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Mikið var þetta hressandi ádrepa. - Þú ert á heimavelli með þessar frábæru skýringar og gagnrýni. Það er reyndar meira sláandi að lesa þetta hjá þér heldur en ambögurnar sjálfar þegar þær birtast. Fólk er almennt, að mér virðist, orðið sljótt fyrir þessu "ensku-nafnabulli" á veitingahúsum til dæmis. - Vil sjá meira af þessu hjá þér, Sigurður.

Már Elíson, 20.6.2018 kl. 17:39

2 identicon

Mér verður oft verulega bumbult við sletturnar hjá fólki og vitleysurnar sem vellur uppúr því. Las á dögunum: okkar verstu óttar voru að fara í rússneskan leigubíl.  Það var og. Haltu áfram skrifunum.

Guðlaug Hestnes (IP-tala skráð) 20.6.2018 kl. 18:27

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér Már. Alltaf gott að fá hrósið, hvetur mann áfram. Hins vegar vil ég engu lofa um gæðin hérna. Eflaust sýnist sitt hverjum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.6.2018 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband