Standandi eða sitjandi lófklapp og frásending viðbragða
18.6.2018 | 11:22
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Teljanleg fyrirbæri
Sálarró og auður fer ekki alltaf saman. Framboð og eftirspurn stenst ekki alltaf á.
Þetta er löng hefð: að sögnin sé í eintölu nema fyrirbærin séu teljanleg: Klósettburstinn og eggjaklukkan týndust í flutningunum.
Sé annað orðið í fleirtölu má snúa þeim við: Tækni og vísindi haldast í hendur.
Pistillinn Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 13. júní 2018
1.
Auglýsingastofur byggja á mannauð.
Í frétt á visir.is.
Athugasemd: Forsetningin á getur stýrt bæði þolfalli og þágufalli. Dæmi: Hann gengur á vegginn. Hann gengur á veggnum. Á þessu tvennu er mikill munur.
Mannauður er nafnorð í karlkyni og beygist svona; mannauður, mannauð, mannauði, mannauðs. Kvenkynsnafnið Auður beygist eins nema í eignarfalli og þá er það Auðar.
Tillaga: Auglýsingastofur byggja á mannauði
2.
Þingmenn gáfu ríkisstjórninni einnig standandi lófaklapp fyrir viðbrögð hennar við árásum ríkisstjórnar Trump á Trudeau.
Í frétt á visir.is.
Athugasemd: Hér er tiltölulega stutt málsgrein með óþægilega mörgum villum. Raunar er hún öll tómt klúður.
Hvað er standandi lófatak? Líklega rennur lesendum í grun að þá standi áheyrendur upp úr stólum sínum og klappi einhverjum lof í lófa.
Ofangreind tilvitun er þýðing úr ensku, í frétt Reuters segir:
and gave a standing ovation for the governments response
Ovation er ekki aðeins lófaklapp, þó fylgir það væntanlega fögnuðinum. Hver skyldi vera munurinn á lófaklappi eða lófataki? Líklega er hann engin eftir því sem ég best fæ séð. Held þó að hið síðarnefnda sé algengara.
Hefur einhver heyrt um sitjandi lófaklapp? Nei, varla, lófatak situr hvorki né stendur. Mjög algengt er að fólk klappi sitjandi en þegar eitthvað sérstakt er að gerast lýsa áhorfendur ánægju sinni eða fögnuði með því að rísa úr sætum og fagna. Á ensku er sagt give a standing ovation. Þá er það ekki aðeins klappað heldur líka fagnað á annan hátt, hrópað, kallað og svo framvegis.
Ég er hins vegar ekki alveg viss um hvort að hægt sé að þýða þessi orð með standandi lófaklapp. Því leitaði ég til Jóhannesar B. Sigtryggssonar hjá Íslenskri málnefnd og hann sagði í tölvupósti sínum:
Þetta orðasamband standandi lófatak virðist ekki vera gamalt í málinu og ég finn eingöngu dæmi um það í nýlegum dagblöðum. Mér finnst líklegt að það sé tökuþýðing úr ensku eins og þú bendir á. Eðlilegra væri til að mynda að tala um dynjandi lófatak eða að stjórnin hafi verið hyllt fyrir ...
Svo er það annað. Er hægt að gefa lófatak. Nei, það er ekki gert á íslensku þó svo að orðalagið sé þannig á ensku. Á okkar máli klöppum við einhverjum lof í lófa en enskir gefa lófaklapp. Þó margt sé gott í enskri tungu er óþarfi að apa allt eftir.
Fróðlegt væri að fá vangaveltur frá lesendum um þetta.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
3.
Klukkan 15:53 í dag barst Neyðarlínunni tilkynning um alvarlegt umferðarslys í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. En þar valt sendibifreið. [ ] Vegna alvarleika slyssins var óskað eftir aðstoð þyrlu LHG sem flutti annan aðilann á sjúkrahús í Reykjavík.
Í frétt á Facebook lögreglunnar á Vestfjörðum.
Athugasemd: Ef við lítum framhjá efnisatriðum hræðilegrar frétta og skoðum aðeins framsetninguna eru athugasemdirnar margar. Þetta er einfaldlega illa skrifað hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Vefmiðlar eins visir.is og mbl.is taka svo tilkynninguna orðrétt upp og laga ekkert, láta bara mata sig.
Afar óeðlilegt er að byrja setningu á samtengingu, hún er þarna óþörf. Annað hvort hefði átt að sleppa punktinum á undan og setja kommu eða sleppa samtengingunni.
Alvarleiki er kjánalegt orð og býr til nafnorðamiðaða setningu.
Til viðbótar er það svo að hvorki þyrlur né sjúkrabílar hjálpa heldur fólkið sem stjórnar þessum tækjum.
Loks er annar þeirra sem slasaðist kallaður aðili. Hvað á þetta að þýða? Hvort slasaðist maður eða aðili? Svo tekið sé heimspekilega til orða þá eru ekki allir aðilar menn, en sumir menn geta stundum verið aðilar.
Á öðrum fjölmiðlum hefur komið fram að aðstandendum hafi verið gert viðvart um slysið. Eðlilegra er að orða það þannig að þeim hafi verið tilkynnt um slysið.
Tillaga: Klukkan 15:53 í dag barst Neyðarlínunni tilkynning um alvarlegt umferðarslys í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi, en þar hafði sendibíll oltið. [ ] Slysið var alvarlegt og því var óskað eftir aðstoð aðstoð Landhelgisgæslunnar og var annar hinna slösuðu fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.
4.
Talibanar höfðu í gær enn ekki sent frá sér nein viðbrögð vegna fráfalls foringja síns.
Úr frétt á bls 23 í Morgunblaðinu 16.6.18.
Athugasemd: Engin hugsun er í þessu orðalagi; senda frá sér viðbrögð. Þetta stríðir svo illilega gegn málvitund allra. Grundvallarreglan er sú að lesa yfir fyrir birtingu.
Allir bregðast við, slíkt kallast viðbragð og viðbrögð manna eru ólík. Hins vegar sendir enginn frá sér viðbragð, það er heimskulegur nafnorðastíll sem engum er til sóma, hvorki blaðamanni né fjölmiðli. Loks má geta þess að stundum er forsetning ráðandi um merkingu sagnar því eitt er að bregðast og annað að bregðast við.
Í fréttinni stendur einnig:
Malala hefur vakið mikla athygli um allan heim fyrir hugrakka baráttu sína
Hugrökk barátta er ekki til. Hins vegar getur einn eða fleiri verið þekktir fyrir hugrekki í baráttu sinni. Baráttan ein og sér er hvorki hugrökk né heigul. Fólk getur samt verið annað hvort.
Öll þessi frétt hefur öll einkenni þýðingar úr ensku og blaðamaðurinn hefur ekki næga þekking á íslensku til að skrifa fréttina.
Tillaga: Talibanar höfðu í gær ekki enn brugðist opinberlega við vegna fráfalls foringja síns.
4.
Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er komið að fótum fram
Grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á bls. 25 í Morgunblaðinu 16.6.18.
Athugasemd: Mikilvægt er að nota orðatiltæki sem hæfa efni þess sem um er rætt. Kjánalegt er að segja að skip sé orðið svo gamalt að það sé komið að fótum fram, en það er ekki beinlínis vitlaust. Ekki frekar en að halda því fram að starfsmenn flugfélags hafi ýtt flugvél úr vör. Hvað þá að bíll aki á lensi upp Bröttubrekku.
Stíll er mikilvægur í greinaskrifum. Gæta þarf að mörgu, ekki síst orðatiltækjum og málsháttum eiga ekki beinlínis við. Grundvallaratriðið er að skrifa stuttar setningar, flækja ekki frásögnina með misskýrum orðatiltækjum og ekki síst, nota millifyrirsagnir. Athygli lesenda er svo óskaplega hverful og það þarf skrifarinn að hafa helst í huga.
Heiðrún Lind hefði mátt vanda sig betur með grein sína og þá er ekki úr vegi að fá einhvern annan til að lesa yfir. Það hjálpar yfirleitt.
Tillaga: Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er orðið gamalt og lúið.
5.
Verðandi mæður leitast við að fæða utan Landspítalans vegna manneklu.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Röð orða í setningu skiptir máli annars er hætt við að lesendur misskilji. Samt misskilja fáir ofangreinda setningu vegna þess að manneklan á við Landspítalann, ekki verðandi mæður. Ég held samt að orðaröðin sé röng.
Prófum að skipta út orðinu mannekla og setja í staðinn veikindi. Þá verður fyrirsögnin svona:
Verðandi mæður leitast við að fæða utan Landspítalans vegna veikinda.
Þá er það spurningin hvort veikindi séu hjá verðandi mæðrum eða á Landspítalanum. Væntanlega eiga veikindi við mæður og því eðlilegt að orðið sé þeim tengt.
Sama á við um fyrirsögnina á Vísi. Snjall blaðamaður hefði orðað hana á annan hátt. Þetta er allt saman svo ansi auðvelt ef hugsun og pælingar fylgja skrifunum.
Tillaga: Mannekla á Landspítalanum knýr verðandi mæður til að fæða annars staðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.