Blaðamenn skrifa almennt of langar málsgreinar
8.6.2018 | 17:23
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Ekki til eftirbreytni
Enska fornafnið some getur bæði þýtt einhver og nokkur, m.a. Það hefur smitað okkur svo að við segjum iðulega einhverjum árum seinna (nokkrum árum seinna), þetta munar einhverjum milljónum (þetta munar milljónum), að ógleymdu þetta eru einhverjir tíu menn (einir tíu eða um það bil tíu menn).
Pistillinn Málið á bls. 66 í Morgunblaðinu 7. júní 2018
1.
Hafís og ísjakar nálgast landið.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hver er munurinn á hafís og ísjaka? Jú, ísjaki flýtur á sjó eða vatni, jafnvel finnast þeir á þurru eftir að fjarað hefur undan þeim.
Má vera að þetta sé einhver hártogun. Hafís getur vissulega verið ísjakar og ísjakar hafís. Mér finnst hins vegar að nóg sé að segja að hafís nálgist landið. Þeir sem til þekkja og eru ekki börn, vita að á undan meginísnum reka ísjakar. Hvort tveggja er þó hafís, jafnvel þó að hann hafi brotnað úr jökli í grænlenskum fjörðum.
Tillaga: Hafís nálgast landið.
2.
Ég gat ekki sofið þegar við vorum í sundur, sagði Amal Clooney í ræðu sinni um eiginmann sinni George Clooney.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ég myndi ekki heldur sofa ef ég væri í sundur nema ef vera skyldi svefninum langa.
Bein þýðing gengur ekki alltaf. When we were apart, er þarna þýtt, þegar við vorum í sundur. Þeir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir málinu vita að þetta gengur ekki upp. Þó gerðist það oftsinnis á skóla- og sveitaböllum í gamla daga að fólk var rifið í sundur. Líklega hefur eitthvað annað verið í gangi þar en það sem Clooney konan á við.
Sundur er atviksorð og merkir stundum að taka eitthvað sem er eitt og gera að tvennu. Rífa í sundur, saga í sundur, slíta í sundur og svo framvegis. Á rómantískan hátt má segja að karl og kona (par) séu eitt en það er ekki svo þegar öllu er á botninn hvolft. Þegar þau eru ekki saman eru þau aðskilin (ekki þó skilin að borði og sæng eða lögum, sem þó getur verið).
Tillaga: Ég get vart sofið þegar við erum ekki saman, sagði Amal Clooney í ræðu sinni um eiginmann sinn, Georg Clooney.
3.
Tveir koma til með að starfa í alþjóðlegri stjórnstöð löggæslu í Moskvu og þrír munu fylgja íslenska landsliðinu á þá staði sem Ísland keppir á og fylgja rússneskum lögreglumönnum við eftirlit í kringum stuðningsmannasvæði og leikvang.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Eitt af því versta sem ég verð fyrir í skrifum er nástaða orða, það er nálægð sömu eða skyldra orða. Má vera að einhver telji það nú óttalegan kverúlantahátt að setja þetta fyrir sig. Stíll er þó alltaf mikilvægur. Gæti skrifari ekki að sér getur hann skemmt textann og um leið missir lesandinn áhugann og veit oft ekki hvers vegna. Athyglin hverfur.
Hér að ofan hefði blaðamaður auðveldlega getað komist hjá þessari nástöðu sem blasir við lesendum. Í fyrsta lagi er málsgreinin of löng.
Gott er að fylgja reglu Jónasar Kristjánssonar, fyrrum ritstjóra, sjá hér. Settu punkt sem víðast, segir hann, og það ekki að ástæðulausu. Krakkar í blaðamennsku og jafnvel eldri jálkar eru margir of sparir á punkta.
Svo er það nástaðan. Ég mæli með tillögunni hér að neðan. Sögnin að fylgja hefur ótvíræða tengingu áfram og óþarfi er að endurtaka hana.
Tillaga: Tveir munu starfa í alþjóðlegri stjórnstöð löggæslu í Moskvu. Þrír munu fylgja íslenska landsliðinu á keppnisstaðina og verða þar með rússneskum lögreglumönnum við eftirlit.
4.
Karolina varð afskaplega glöð þegar hún fékk fréttirnar því hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyrir sig og sína fjölskyldu og því ljóst að hún er búin að spara sér heilmikinn peninga.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Frekar er þetta nú illa skrifað og af lítilli kunnáttu. Munum reglu Jónasar Kristjánssonar, að setja punkt sem oftast. Ekki reyna að teygja lopann, þá á skrifarinn það á ættu að lesandinn missi athyglina.
Í málsgreininni eru 35 orð, helmingi fleiri en ráðlagt er.
Jónas segir:
Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.
Þessi regla er tær snilld, hvorki meira né minna. Blaðamaðurinn sem skrifaði ofangreinda tilvitnun hefði átt að þekkja hana. Þá hefði hann skrifað svipað eins og í tillögunni hér að neðan.
Loks má geta þess að í íslensku kemur afturbeygða fornafnið á eftir nafnorðinu. Það er fjölskylduna sína en ekki sína fjölskyldu. Hið síðarnefnda er undir enskum áhrifum.
Tillaga: Karolina varð afskaplega glöð þegar hún fékk fréttirnar. Hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyrir sig og fjölskyldu sína. Nú hefur hún sparað sér heilmikinn peninga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það setti að mér hljóðlátan hlátur við lestur úrdráttar úr ræðu frú Clooney um eiginmann sinn. Móðursystir Georg Clooney söng eitt af mínum uppáhaldslögum "Come on a my house"langaði í leiðinni að minnast á það.
Helga Kristjánsdóttir, 9.6.2018 kl. 04:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.