Hann undrar sig, aðrir vænast og konur ganga göngur
29.5.2018 | 21:54
Eftirspurn
Fróðlegt:
Spurn þýðir tvennt: frétt, orðrómur og spurning. (En aldrei eftirspurn. Því á að segja eftirspurn eftir húsnæði t.d., ekki spurn eftir húsnæði.)
Talað er um að hafa eða fá spurn (eða spurnir) af e-u ellegar að manni hafi borist spurn(ir) af e-u. Það eru þá fréttir eða orðrómur.
Úr dálkinum Málið á bls. 44 í Morgunblaðinu, laugardaginn 26. maí 2018.
1.
Ætlaði að gera út um Foster með lygum. Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Má vera að hér hafi slegið saman tveimur orðatiltækjum:
- Að gera út af við einhvern, til dæmis skjóta hann.
- Að gera út um eitthvað, til dæmis málin.
Fréttin fjallar um konu sem ber ljúgvitni gegn körfuboltamanni í því skyni að eyðileggja feril leikmannsins.
Hvort ofangreindra á nú við í þessu tilviki? Hugsanlega er blaðamaðurinn að þýða eftirfarandi en tekst það frekar óhönduglega þó hann eigi hrós skilið fyrir að reyna sig ekki við f-orðið í enskunni:
she wanted to f*** up his career "
Af þessu má ráða að ljúgvitnið hafi ætlað að gera út um Foster með lygum sínum en ekki drepa hann
Tillaga: LeBron fékk klapp fyrir einstaklega gott minni.
2.
Frammistöður hans verða að batna og í sannleika sagt þá geta þær ekki orðið verri en þetta, sagði Scholes við BT Sport eftir úrslitaleikinn. Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Frammistaða er nafnorð í kvenkyni og er aðeins til í eintölu. Orðið lýsir því hvernig einhver stendur sig. Getur líka þýtt þjónusta, að ganga um beina.
Blaðamaðurinn áttar sig ekki á þessu þegar hann þýðir frétt úr enskum fréttamiðli. Þar er fjallað um frammistöðu fótboltamanns og hefur sá ekki staðið sig vel í mörgum tilvikum. Enska orðið er líklega performances sem blaðamaðurinn þýðir blint og þýðir ekki frammistöður.
Síðar í fréttinni segir:
Paul Pogba vinnur ekki leiki upp á sitt einsdæmi og ekki Sanchez heldur.
Einsdæmi merki eitthvað sjaldgæft enda er orðið þannig samsett, eitt dæmi um einhvern atburð. Það merki ekki að gera eitthvað einn og óstuddur. Þá er notað orðið eindæmi, gera eitthvað upp á sitt eindæmi, einmitt að gera eitthvað einn og óstuddur.
Blaðamaðurinn ruglar þessum orðum saman sem er í raun afar algengt. Hann ætti þó að gera betur sem og stjórnendur fjölmiðilsins sem hann vinnur hjá. Þeir eiga að sjá sóma sinn í því að blaðamenn skrifi rétt. Metnaðurinn er því miður lítill, og fyrir vikið þurfa neytendur að sætta sig við skemmdar fréttir.
Tillaga: Frammistaða hans verður að batna og í sannleika sagt þá getur hún ekki orðið verri en þetta, sagði Scholes við BT Sport eftir úrslitaleikinn.
3.
Gistihúsið Fosshóll, sem stendur á gilbarmi Skjálfandafljóts um 500 metrum frá Goðafossi, hefur verið sett á sölu. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Líklega stendur gistihúsið sem hér er nefnt á bakka Skjálfandafljóts, ekki á gilbarmi. Má vera að einhverjir séu því ekki sammála. Þó bratt sé ofan í fljótið, þrír til fimm metrar, er vart hægt að tala um gil á þessum slóðum, slík er breiddin.
Þegar nánar er að gáð segir í auglýsingu Höfða fasteignasölu:
Gistiheimilið Fosshóll stendur við þjóðveg 1 við bakka Goðafoss í Skjálfandafljóti.
Líklega hefur blaðamaðurinn breytt orðalaginu en ekki til hins betra.
Þetta leiðir athyglina að fasteignaauglýsingum sem oft á tíðum þyrftu að vera betur orðaðar. Fasteignasali sagði mér að betri sölur notuðu að fá fagmenn til að taka ljósmyndir og víst er að þær hafa batnað á undanförnum árum. Aftur á móti þyrfti einhver að lesa yfir texta sem fasteignasölurnar birta.
Í auglýsingu Höfða um Fosshól segir meðal annars:
Staðsetning : Er við þjóðveg 1 á krossgötu við Sprengisandsveg.
Hvað skyldi nú krossgata vera? Þetta orð ætti að skiljast, jafnvel á íslensku. Cross roads, Kryds veje, Wegkreuz, korsvägar, encrucijada, svo maður slái nú um sig (með aðstoð Google Translate).
Krossgötur nefnist sá staður er tvær eða fleiri götur skerast. Eintöluorðið krossgata er ekki til nema hugsanlega Krossgata og þá hugsanlega í Jerúsalem en þar þekkist Via dolorosa, vegur sorgar eða þjáningar.
Og eitt í lokin. Nú hafa fjölmiðlamenn hætt að segja og skrifa að hús eða eitthvað annað sé til sölu. Allt er nú sett á sölu. Þetta er miður, en ekki rangt. Lifi samt fjölbreytni í stíl og frásögn.
Tillaga: Gistihúsið Fosshóll, sem stendur við bakka Skjálfandafljóts um 500 metrum frá Goðafossi, hefur verið sett á sölu.
4.
Gylfi segist undra sig á þessu enda sé heimild til viðræðna og samninga við stjórnvöld alfarið í höndum miðstjórnar samtakanna en ekki forseta þeirra. Úr frétt á bls. 4 í laugardagsblaði Morgunblaðsins 26. maí 2018.
Athugasemd: Maðurinn undrar sig á einhverju. Þetta er ekki íslenskt orðalag, frekar úr norðurlandamálum. Á dönsku myndi fréttin eflaust byrja á þennan hátt: Gylfi undrer seg over det
Á íslensku undrar Gylfi sig ekki en hann gæti verið hissa og jafnvel hann undrist eitthvað
Sögnin að undra er ópersónuleg (afturbeygða fornafnið sig fylgir aldrei). Nafnorðið undur er samstofna við wonder á ensku, wunder á þýsku og afleiddar sagnir af þeim.
Tillaga: Gylfi segist undrast þetta enda sé heimild til viðræðna og samninga við stjórnvöld alfarið í höndum miðstjórnar samtakanna en ekki forseta þeirra.
Sjálfboðaliðar vænast svimandi reiknings. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér er verið að búa til orð sem er tóm vitleysa, en þó einhvern veginn barnslega einlægt. Einhver á Mogganum hefur rekið augun í rassböguna og breytt henni því þegar smellt er á fyrirsögnin breytist hún í þetta:
Endurvinnslan krefst einkaréttar til sorphirðu.
Líkleg vilja margir hafa þetta einkarétt á sorphirðu. Má vera að hvort tveggja sé rétt.
Líklega hefur blaðamaður Moggans, lengi búsettur í Noregi, gæti hafað skrifað fyrirsögnina. Einhver annar breytt henni en ekki klárað leiðréttinguna að fullu því upphaflegu fyrirsögnina er að finna á nokkrum öðrum stöðum.
Hvað er annars svimandi reikningur. Lýsingarorðið svimandi gengur ekki eitt og sér í þessu tilfelli, ekki frekar en hrópandi reikningur. Í fyrra tilfellinu mætti bæta við lýsingarorðinu hár og í því seinna óréttlátur. Þá fæst botn í hvort tveggja.
Sorglegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu sem er þó að mörgu leyti skást íslenskra dagblaða. Málfræðin bögglast fyrir alltof mörgum blaðamönnum og fyrir vikið er skemmdum fréttum þröngvað upp á okkur lesendur, neytendur. Ef fréttir væru matur þyrfti að fjölga læknum á bráðavakt til að halda okkur á lífi.
Tillaga: Sjálfboðaliður búast við svimandi háum reikningi.
6.
Gekk 125 km eyðimerkurgöngu í minningu arabískra kvenna. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hverjum dettur í hug að skrifa svona, að ganga göngu? Er til of mikils mælst að blaðmenn lesi yfir það sem þeir skrifa með gagnrýnum huga eða fái aðra til þess?
Mig grunar að þeir sem fá titilinn blaðamenn öðlist ekki sjálfkrafa himneskan skilning á réttu og röngu, jafnvel þó þeir haldi það sjálfir. Ofangreind fyrirsögn sannar það. Eiginlega þakkar maður fyrir að konan hafi ekki labbað eyðimerkurgönguna, eða labbað labbið.
Tillaga: Gekk 125 km um eyðimörk í minningu arabískra kvenna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.