Gvöð hvað góða fólkið er ossalega gott
28.4.2018 | 17:50
Hann er alltaf kallaður Gísli Marteinn, aldrei nefndur með föðurnafni. Svona eins og Erró og Káinn sem maður vissi ekki hvað hétu fyrr en komið var fram á fullorðinsár. Ólíkt listamönnunum er hinn fyrst nefndi svo oft í fjölmiðlum að enginn fer í grafgötur við hvern er átt. Maður hreinlega kemst ekki hjá því. Hann er hreinlega alltaf í viðtölum, gefandi afar gáfulegar yfirlýsingar sem við, almenningur súpum hveljur yfir. Núna síðast í helgarblaði Fréttablaðsins.
Nú er hins vegar alveg nóg komið enda vita landsmenn svo mikið um Gísla þennan að það er farið að valda sálrænum skaða á meirihlutanum.
Í sannleika sagt er ég orðinn þreyttur á Gísla Marteini og öllu hinu fræga fólkinu sem tröllríða fjölmiðlum. Fólkinu sem er í sjónvörpunum, útvörpunum, og pöpulli telur þá elskaða og dáða fjölmiðlamenn. Meðal þeirra eru litlu fréttastelpurnar og litlu fréttastrákarnir sem ráða fullkomlega við eitt tíu orða uppistand í beinni útsendingu í fréttatíma. Til viðbótar geta þau líka sagt við kveðjum svo héðan frá Karphúsinu, og bæta við ógnargáfulegum svip.
Ja, hérna, segir þá fréttaþulurinn í ósvikinni aðdáun, og bætir svo við: Og nú að allt öðru ... Rétt eins og við hérna megin við skjáinn eigum það á hættu að rugla saman fréttum úr Karphúsinu við eitthvað allt annað.
Víkjum aftur að fræga og góða fólkinu. Hvers vegna í ósköpunum veit ég hvar þessi Gísli Marteinn á heima, hvernig hann ferðast um, hvar hann vinnur, hver konan hans er og fleira tilgangslausar staðreyndir. Ég bað ekki um þetta en það hefur engu að síður síast inn.
Þetta er maðurinn sem er eða er ekki í Sjálfstæðisflokknum. Hann er besti vinur Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, þið vitið mannsins sem undirritar ekki skjöl án þess þess að tekin sé mynd af athöfninni og hún birt í fjölmiðlum.
Gísli Marteinn var borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en starfaði þétt með vinstri meirihlutanum í borgarstjórn, enda skuldaði hann hvorki flokknum sínum né kjósendum sínum eitt né neitt fyrir að hafa komið honum þangað inn. Hann segist aðeins bundinn af sannfæringu sinni, gefur ekkert fyrir samherja og vini. Hins vegar var færði hann fjöll úr stað fyrir vinstri meirihlutann.
Hann er hinn dæmigerði góði gæi, forystumaður góða fólksins. Hefur aldrei gert nein mistök önnur er þau en þau að hafa næstum því orðið borgarstjóri og þá hefði hann ábyggilega gert fullt af mistökum sem hann sér obboðslega eftir. Þetta segir Gísli vinur í óskaplega ómerkilegu og leiðinlegu viðtali í Fréttablaði helgarinnar. Af hverju í fjandanum var ég að lesa það?
Gísli er sko frjálshyggjumaður en dassi af félagslegum áherslum. Nei, nei, hann segist sko alls ekki vera foræðishyggjumaður. Hann er nebbnilega ekki eins og allir hinir, hann er miklu, miklu betri, langbestur. Og ekki flögrar að honum að liggja á þeirri skoðun sinni. Hógværðin uppmáluð.
Heiðbjartur og fagur hjólar hann um vesturbæinn, fer aldrei tilneyddur austur fyrir Skólavörðuholt. Hann gengur ekki á fjöll.
Það er eitthvað ferlega bilað við þann Íslending sem elskar malbik og steinsteypu.
Spái því að næsta viðtal við Gísla Martein ... eitthvaðson, birtist í Mogganum nema því aðeins að einhver krefjist lögbanns á viðtöl við manninn næstu 20 árin. Og þá verða spurningarnar þessar:
- Trúir þú á einstaklinginn eða strætó?
- Hvort finnst þér meira gaman að hjóla eða labba? Ferðu oft í labbiferðir?
- Vaskar þú upp eða Vala? Elskið þið ekki hvort annað gasalega mikið?
- Greiðir þú þér daglega? Hefurðu fengið þér strípur?
- Finnst þér ekki slæmt að hafa aldrei gert vitleysur?
- Hvað myndir þú eiginlega gera ef þú værir eins og við hin í einn dag?
- Mynduð þið Jésú ekki vera vinir ef hann væri hér?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:54 | Facebook
Athugasemdir
Þú leynir aldeilis skemmtilega á þér, Sigurður.
Frábær greining og býsna hreint nákvæm krufning.
Fullkomið gaman og alvara eins og bezt gerist.

Jón Valur Jensson, 29.4.2018 kl. 01:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.