Lekandi Fréttablaðsins og fjárhagstjón Kjarnans
20.11.2017 | 17:08
Sárlega kennir maður í brjóst um þá sem minna mega sín. Svo mikil er brjóstverkurinn að við liggur að ég telji mjólkurpeningana upp í virðulegt framlag. Hér er eitt dæmi um þá sem eiga erfitt:
Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni ...
Þannig kemst ritstjóri Fréttablaðsins að orði í leiðara sínum í dag. Á tilfinninganæman og sennilegan hátt fjallar hann um birtingu Morgunblaðsins á símtali Davíðs Oddssonar, Seðlabankastjóra við Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Sko, þetta samtal fornvinanna hefur verið tilefni margvíslegra samsæriskenninga vinstri manna um hrunið.
Fjölmiðillinn Kjarninn stefndi Seðlabankanum um daginn og krafðist að fá að endurrit af samtalinu. Dýrt er að stefna fólki eða fyrirtækjum fyrir dómstólanna og auðvitað fær Kjarnann þá ekki til baka, skiptir engu hvort hann tapar eða vinnur.
Ritstjóri Fréttablaðsins heldur því fram að Mogginn hafi valdið Kjarnanum fjárhagstjóni með því að birta samtalið. Líklega var þó fyrrnefnda fjölmiðlinum ókunnugt um að sá síðarnefndi hafi átt fyrsta veðrétt í birtingu samtalsins. Má samt vera að gleymst hafi að þinglýsa veðinu.
Í stuttu máli sagt er ekkert skemmtilegt að finna í samtali Geirs og Davíðs. Illu heilli slepptu þeir að ræða það sem þeir hefðu, að mati vinstri sinnaðra samsærissmiða, átt að gera. Fjárhagslegt tap Kjarnans liggur eiginlega í því að hann reyndi að kaupa eitthvað allt annað en köttinn í sekknum.
Stóra málið er að samtalið skuli birt nú og með þessum hætti. Íslenskir fjölmiðlar hafa lengi kallað eftir því að þetta mikilvæga samtal verði birt almenningi. Enginn fjölmiðill hefur sótt það af viðlíka eftirfylgni og vefmiðillinn Kjarninn og það jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði.
Segir Fréttablaðið. Auðvitað átti að halda þessu samtali leyndu þangað til að Kjarninn gæti grætt á því. Flett ofan af skúrkunum Geir og Davíð. Þeir hjá Kjarnanum eru vísir til að búa spinna upp eitthvað nýtt og ljótt um þá kumpána, eitthvað sem gæti verið satt.
Síðan samtalið var birt hafa aðrir samsærissmiðir ekki látið deigan síga. Þeir hamra járnið meðan það er heitt, jafnvel þó það sem þeir hamra á sé eitthvað allt annað en járn, kannski tré eða plast. Hér eru nokkur dæmi:
- Óvíst er hvort Mogginn hafi birt allt samtalið að sögn fyrrverandi varaformanns Vinstri grænna, Björns Vals Gíslasonar.
- Leki í Seðlabankanum og hann þarf að rannsaka að mati fyrrnefnds Björns Vals
- Mogginn ritskoðaði samtalið og sleppti því safaríkasta, að sögn „virkra í athugasemdum“ og stjórnvitringsins Þórs Saari.
- Davíð Oddsson er ábyrgur fyrir lekanum af því að hann starfar hjá Mogganum, að sögn ákærenda hjá dómstóli götunnar og telja ónauðsynlegt að rekja málið frekar.
- Alveg gersamlega lygilegt fúsk og spilling og skítlegt eðli allt saman í einni kös, að sögn Helgu Völundar Draumland, dómara hjá dómstóli götunnar og „virkrar í athugasemdum“
- Ritstjóri Moggans stal afritinu af samtalinu úr Seðlabankanum, ályktar Magnús Guðmundsson, ritstjóri Fréttablaðsins.
- Kjósendur þurfa að þola svona birtingu af völdum „hinna yfirgangssömu sérhagsmunaafla“, fullyrðir ritstjóri Fréttablaðsins.
Nú er það aldeilis óþolandi að Mogginn skuli hafa stungið undan Kjarnanum og eyðilagt möguleika hans á að „skúbba“. Eftir situr fjölmiðillinn með útlagðan lögfræðikostnað hjá málflutningsstofu Reykjavíkur, Reykjavík Legal.
Verst er þó líðan góða fólksins yfir því að af öllum skuli það hafa verið Mogginn sem birti samtalið. Næstverst er að það var ekkert bitastætt að finna í því.
Eftir stendur vafamálið; hver lak? Var lekandinn stóri Seðlabankamaðurinn eða litli Seðlabankamaðurinn (sbr. litli landsímamaðurinn)? Eða lak einhver annar því ljóst er að afrit af þessu símtali er til víða um byggðir landsins?
Hitt er auðvitað athygli vert hvernig ritstjóri Fréttablaðsins tekur til orða í ofangreindum leiðara sínum. Líkast til hefur Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum formaður VG og allsherjarmálaráðherra skrifað leiðarann. Orðalagið er slíkt að aðeins innmúraðir og innvígðir vinstri menn geta skrifað á þennan hátt.
Að lokum ber að geta þess að ég var með afrit samtalsins í höndunum og ætlaði að birta það síðasta sunnudag en helv... Mogginn gerði það að engu. Þess í stað ætla ég á næstunni að birta samtal tveggja leikskólabarna. Það flettir upp um hin yfirgangssömu sérhagsmunaöfl sem stjórna leikskólum landsins og kapítalísk eðli þeirra.
Því miður hef ég ekki bankanúmer Kjarnans og verð því að fresta því að veita þessum heiðarlega og gagnlega fjölmiðli styrk.
Munum bara að það er ekki sama hver er lekandinn og þaðan af síður hvar lekinn er birtur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.