Hvernig á að undirbúa jarðskjálfta?

Hér eru nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum 23. til 27. september 2017.

1.

„Undirbúa þann stóra.“ 

Fyrirsögn á bls. 6 í Morgunblaðinu 23. september 2017.    

Athugasemd: Góður undirbúningur skiptir öllu, tilgangurinn er að ekkert komi á óvart. Skiptir engu hvort maður sjálfur er að undirbúa sig eða verið sé að undirbúa einhverja aðra.

Fyrirsögnin hér á ofan er með grein um jarðskjálfta. Blaðamaðurinn misskilur sögnina og afleiðingin er sá skilningur að verið sé að undirbúa þann stóra, það er jarðskjálftann.

Fræðilega séð er útilokað að undirbúa jarðskjálfta. Undir hvað ætti að búa hann? Hins vegar getur fólk búið sig undir komandi skjálfta með ýmsum aðgerðum og líklega á blaðamaðurinn við það. 

Tillaga: Undirbúa fyrir þann stóra.

2.

„Gylfi var næstum því dýrasti leikmaður Everton í bara nokkra daga.“ 

Fyrirsögn á dv.is.

Athugasemd: Hér er ein af furðuskrifum íþróttafréttamanna. Í fréttinni er fjallað um Gylfa Þór Sigurðsson, fótboltamann hjá Everton. Hann er einn af dýrustu leikmönnum félagsins. Þó bauð það mun hærri fjárhæð í annan leikmann, en fékk ekki.

Þá kemur blaðamaðurinn með skrýtna frétt með enn furðulegri fyrirsögn þar sem hann reynir að gera frétt úr því sem hefði getað orðið. Því meir sem hugsað er um þessa tilvitnun því asnalegri verður hún. Vart er hægt að skilja þessa þvælu. Nú, þar sem ekkert varð úr kaupum á dýrari leikmanni þá er Gylfi enn „næstum því dýrasti leikmaður Everton“ og fréttin innantóm og skiptir ekki nokkru máli, er ekkert nema illa valin orð í enn verra samhengi.

Tillaga: Engin tillaga gerð, ekki taka þátt í vitleysu.

3.

„Hreindýr eru víða á Íslandi og fara margir á veiðar eftir þeim á ári hverju.“ 

Úr frétt á dv.is.

Athugasemd: Fjölmargir stunda veiðar, skjóta fugla eða dýr, jafnvel hvort tveggja. Veiðimaður fer á veiðar, svo einfalt er það. Hann fer ekki á veiðar „eftir“ hreindýri eða rjúpu jafnvel þó hann eltist við dýr og fugla og fari þar af leiðandi eftir þeim.

Hreindýr eru ekki víða á Íslandi, aðeins á Austur- og Suðausturlandi.

Orðaforði kemur með lestri bóka. Sá sem hefur frá barnæsku lesið bækur á auðveldara með að tjá sig í rituðu máli en sá sem ekki hefur gert það.

Þeir sem skrifa um íþróttir geta verið sérfræðingar í fótbolta, vita allt um vítaspyrnur, dómara, úrslit leikja og leikmenn. Sérfræðingur sem getur ekki tjáð sig skammlaust á í verulegum vanda, í það minnsta þarf einhver að lesa yfir og lagfæra það sem hann skrifar.

Tillaga: Hreindýraveiðar eru algengar á Íslandi.

4.

„Nokkuð af emb­ætt­is­mönn­um Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa sagt sig úr hon­um eft­ir að Sig­mund­ur Davíð sagði sig úr flokkn­um og seg­ir Grét­ar Þór ljóst að þeir ætla sér að elta hann.“ 

Úr frétt á mbl.is

Athugasemd: Æ, æ ... Fjölmargt í þessum texta er brogað. Í fyrsta lagi er ekki beinlínis rangt að segja „nokkuð af …“. Betur fer þó á því að orða það þannig að nokkrir af …

Svo er ekki rétt að kalla þá embættismenn sem eru kjörnir í stjórnir og álíka innan stjórnmálaflokka. Almennt eru þeir kallaðir forystumenn. Embættismenn eru hins vegar yfirleitt launaðir starfsmenn.

Blaðamaður gerist sekur um jórtur, það sem oft er nefnt nástaða (orð sem standa nálægt hverju öðru eða hvoru öðru), hann tvítekur orðalagið „hafa sagt sig úr …“. Þetta er ljótt. Betra að umorða í fyrra eða seinna skiptið.

Blaðamenn ættu að tileinka sér þá reglu að setja punkt sem oftast frekar en að lengja málsgreinar úr hófi. Hér hefði verið tilvalið að segja punkt eins og gert er í tillögunni. 

Tillaga: Nokkrir af forystumönnum Framsóknarflokksins hafa hætt eftir að Sigmundur Davíð sagði sig úr flokknum. Grétari Þór þykir ljóst að þeir eru að fylgja honum. 

5.

„Berlínarbúar upplifi niðurstöður kosninganna eins og jarðskjálfti hafi riðið yfir landið.“ 

Fyrirsögn á visir.is.   

Athugasemd: Af hverju ekki að segja að Berlínarbúar hafi uppliðfa niðurstöðurnar á þennan hátt sem er í samræmi við fréttina og frásögn þess sem vitnað er til í henni. Viðtengingarháttur gjörbreytir málavöxtum. Fyrirsögnin skilst á þann veg að verið sé að skipa Berlínarbúum fyrir.

Svo virðist sem að ungir blaðamenn skilji ekki hvernig nota á viðtengingarhátt í íslensku máli eða að þeir misskilji hann.

Tillaga: Berlínarbúar upplifa niðurstöður kosninganna eins og jarðskjálfti hafi riðið yfir landið

6.

„Sú vinna hófst áður en málin komust í hámæli en brotaþolar og aðstandendur þeirra eiga heiður skilið fyrir að knýja fast á um breytingar.“ 

Úr tölvupósti Bjarna Benediktssonar til Sjálfstæðismanna 21. september 2017.  

Athugasemd: Nokkur forrit eru til sem finna og lagfæra villur í texta á íslensku. Skrambi er til dæmis afar þægilegur í notkun. Vandinn er hins vegar sá að forrit kunna stafsetningu nokkuð vel en fátt í málfræði, vita til dæmis ekkert um kyn orða, fallbeygingar og fleira. Fá forrit kunna til dæmis að leiðrétta „góður kona“. Þess vegna er svo mikilvægt að prófarkalesa það sem fer til opinberrar birtingar. Raunar trufla málfarsvillur oft margan lesandann og draga athyglina frá innihaldinu. Hinar bestu færslur á samfélagsmiðlum líða alltof oft fyrir hroðvirkni í stafsetningu og málfræði.

Hvort á nú að segja heiður skilið eða heiður skilinn. Raunar eru fjölmörg dæmi um hvort tveggja en ég hallast að hinu síðarnefnda enda heiður kk og stjórnar því kyni lýsingarorðsins.

Tillaga: Sú vinna hófst áður en málin komust í hámæli en brotaþolar og aðstandendur þeirra eiga heiður skilinn fyrir að knýja fast á um breytingar.

7.

„Prestur á Staðastað og biskup deila enn.“ 

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Orðaröðin skiptir miklu máli. Fyrirsögn er ætlað að vekja athygli á efni fréttar. „Enn“ er atviksorð og fer miklu betur að hafa það fremst í fyrirsögninni. Mér finnst tillagan hér að neðan góð, en vera kann að ekki séu allir sammála.

Tillaga: Enn deila þeir, presturinn á Staðarstað og biskupinn.

8.

„Skapi hættu á man­sali.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Í fréttinni sjálfri segir viðmælandi að eitthvað geti skapað hættuna; „… hvort það skapi hættu á mansali“.  

Viðtengingarháttur sagnarinnar „að skapa“ ræðst af því sem viðmælandinn segir. Þegar sögnin er tegin úr samhenginu og sett í fyrirsögn, án samhengisins, glatar hún merkingu. Þar af leiðandi tel ég réttara sé fyrirsögnin sé eins og hér er gerð tillaga um.

Tillaga: Skapar hættu á mansali.

9.

„H&M opn­ar í Kringl­unni á morg­un.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Óljóst er hvað verslunin H&M opnar. Þó er hugsanlegt að verslunin verði opnuðu í Kringlunni á morgun. Sé svo er fyrirsögnin röng. Ef ekki, er fyrirsögnin líka röng. Ástæðan er einfaldlega sú að verslanir geta ekki opnað neitt, hversu fínar sem þær eru.

Tillaga: Verslun H&M verður opnuð í Kringlunni á morgun.

10.

„Sauðfé drukknaði á túnum.“  

Fyrirsögn á ruv.is.      

Athugasemd: Þegar allt er á floti, jafnvel tún undir vatni, freistast einhverjir til að semja svona fyrirsögn til að sýna fram á hamfarirnar. Hins vegar er hún röng vegna þess að fé getur ekki drukknað nema í vatni. Frekar kjánaleg fyrirsögn.

Tillaga: Sauðfé drukknar eftir að flæddi inn á tún.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband