Flöskuskeyti sigla og sjófuglamenn fylgjast með

Flöskuskeyti 1Hugsanlega er lélegt málfar og óskipulega skrifaðar fréttir ekki alfarið blaðamönnum að kenna heldur líka fréttastjórum og ritstjórum fjölmiðla sem vanrækja skyldur sínar. Eiður heitinn Guðnason orðaði það þannig að enginn les yfir eða fylgist með því sem birt er.

Ég hef ekki nánda nærri sömu þekkingu og kunnáttu og Eiður í íslensku máli en bragð er að þá barnið finnur. Manni getur nú blöskrað. 

Hér er frétt á mbl.is sem ég ætlaði að lesa mér til fróðleiks en hún er svo hroðvirknislega skrifuð að efni hennar fór fyrir ofan garð hjá mér, ég gleymdi mér í orðalagi og orðavali. Gott er að smella á myndirnar hægra megin til að stækka þær og gera skýrari.

Rauðar undirstrikanir eru villur og þær bláu eru endurtekningar sem sumir nefna nástöðu, síbylju eða jórtur.

Hér verður ekki fjallað um allar villurnar sem eru undirstrikaðar, aðeins nokkrar.

Líklega er hægt að orða það þannig að flöskuskeytum sé „sleppt“ í hafið. Betur fer á því að segja að þeim hafi verið varpað, kastað eða hent í hafið vegna þess að um er að ræða dauða hluti. Við sleppum fiskum, fuglum og dýrum og þau forða sér.

Þeir sem ekki eru vanir skrifum og hafa ekki góða þekkingu á íslensku máli segja oft á tíðum að eitthvað „samanstandi“ af hinu og þessu. Afar auðvelt er að skrifa sig framhjá þessari dönsku slettu sé þekking og vilji fyrir hendi.

„Flöskuskeytin rekja vetrarstöðvar farfugla.“ Hvernig á að skilja þetta? 

Flöskuskeyti 2Hvað eru „sjófuglamenn“? Hverjir eru „aðilar“? Hvernig geta flöskuskeyti „siglt“? Hvað er átt við með að flöskuskeytum hafi verið „hent út“, út í geim?

Fyrir mörgum, mörgum árum starfaði ég sem blaðamaður á Vísi. Þá var það regla að Elías Snæland Jónsson, fréttastjóri, las yfir öll handrit sem áttu að birtast. Hann sendi þau oftast til baka ef hann þurfti að gera einhverjar athugasemdir. Þó vont væri að vera kallaður á teppið fyrir villur lærði maður af tiltalinu. Svona vinnubrögð eru varla tíðkuð lengur. Má vera að fréttastjórar og ritstjórar hafi ekki lengur áhuga á íslensku máli.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband