Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Hér eru gerðar nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. 

1.

Vafamál: „Þvílíka gullið sem fer í Hafnarfjörðinn ef FH kemst áfram.“ Fyrirsögn á visir.is.

Athugasemd: Þetta er tóm vitleysa, skiptir engu þó haft sé orðrétt haft eftir einhverjum. Blaðamanni ber að leiðrétta og laga vitleysu sem haft er eftir viðmælandanum.

Tillaga: Miklar tekjur sem koma til Hafnarfjarðar ef FH kemst áfram.

2.

Vafamál: Minnkandi vatnavextir hafa verið í Múlakvísl …“ Upphaf fréttatíma hjá Ríkisútvarpinu laugardaginn 29. júlí 2017, kl. 11:00

Athugasemd: Minnkandi aukning … Þetta hljómar hálfkjánalega. Af hverju er ekki hægt að vanda sig og segja að dregið hafi úr vatnavöxtum eða vatnið hafi rénað? Man eftir því að ég fékk bágt fyrir að skrifa í ritgerð í MR að gæði hafi verið góð. Ofangreint er af sama stofni.

Tillaga: Dregið hefur úr vatnavöxtum í Múlakvísl … Eða: Vatn í Múlakvísl hefur rénað ... 

3.

Vafamál: Yf­ir­völd í Ástr­al­íu hafa komið í veg fyr­ir hryðju­ver­kárás sem bein­ast átti gegn flug­vél.“ Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Eitthvað er að þessari málsgrein. Hvers átti flugvélin að gjalda. Eflaust má halda því fram að hægt sé að fremja hryðjuverk gegn samgöngutækjum. Flestir myndu þó orða þetta á annan hátt enda ábyggilega til lítils að eyðileggja einhver tæki ef mannslífin fylgja ekki með.

Tillaga: Yfirvöld í Ástralíu hafa komið í veg fyrir hryðjuverk í lofti. Eða: … í flugvél.

4.

Vafamál: Vegagerðin og lögreglan hafa vaktað ánna [Múlakvísl] frá því í gærkvöldi og stóðu sjónpóst á brúnni austan við Vík. Brúin er nýleg og á að standa jökulhlaup en árið 2011 sópaðist gamla brúin í burtu. Nú er vegurinn hannaður svo vatn flæði yfir hann til að hlífa brúnni.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Margt er fljótfærnislega skrifað í þessari tilvitnun. Hið fyrsta er ritun á nafnorðinu ‚á‘ en þarna er það í þolfalli og á að rita ‚ána‘. Sjónpóstur er undarlegt orð sérstaklega vegna þess að yfirvöld vöktuðu ána. Að ‚standa sjónpóst‘ er nokkuð yfirdrifið þar sem einfalt er að orðað það þannig að áin hafi verið vöktuð. Sjónpóstur er líklega þýðing úr öðru máli, finnst ekki í orðabók. Að öðru leyti er orðalagið frekar hjákátlegt. Múlakvísl er jökulfljót, ekki á.

Tillaga: Frá því í gærkvöldi hefur vegagerðin og lögreglan vaktað fljótið af brúnni. Hún var byggð eftir að sú gamla eyðilagðist í jökulhlaupinu árið 2011. Litlar líkur eru taldar á því að nýtt hlaup eyðileggi brúna því aðstæður eru þannig hannaðar að vegurinn lætur fyrr undan vatnavöxtum.

5.

Vafamál: Fjölmenn leit er hafin að tveimur aðilum á Fimmvörðuhálsi, …“ og „Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út til að sinna eftirgrennslan eftir konunni …“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Frekar er það kjánalegt að kalla fólk ‚aðila‘, að minnsta kosti í þessu samhengi, það er þó gert tvisvar í fréttinni. Sé verið að leita að fólki ber að segja það berum orðum, ekki fela í einhverri stofnanamállýsku. Í stað þess að nota geldan nafnorðastíl og tala um að „sinna eftirgrennslan“ fer betur á því að segja björgunarsveitir hafi leitað, svipast um eða bara grennslast fyrir um týnt fólk.

Tillaga: Fjölmenn leit er hafin að ungu fólki á Fimmvörðuhálsi … Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út til að grennslast fyrir um konuna/leita/svipast um eftir …

6.

Vafamál: Björgvin hækkaði sig upp um tvö sæti frá því í fyrra.“ Fyrirsögn á visir.is

Athugasemd: Þegar eitthvað eða einhver hækkar þá er stefnan upp á við. Óþarfi að bæta við „upp“. Í sömu keppni náði Íslendingur sem var efsta sæti í fyrra ekki sama árangri. Enginn myndi segja að hann hefði lækkað niður í þriðja sæti í kvennaflokki.

Tillaga: Björgvin hækkaði sig um tvö sæti frá því í fyrra.

7.

Vafamál: Enginn, nema morðinginn, veit hvað gerðist eftir að Charlene kyssti móður sína bless á biðstöð strætisvagna klukkan 19.15.“ Frétt í dv.is

Athugasemd: Þegar einhver fer er oftast sagt að sá kveðji, oft með kossi. Að kyssa einhvern bless er ekki beinlínis rangt en telst frekar barnamál. „Kyssti mömmu bless“, segir í millifyrirsögn. Greinilegt að blaðamaðurinn er ekki vel að sér og lítil von til að þekking hans batni þar sem enginn kemur með ábendingar eða leiðréttingar.

Tillaga: Enginn, nema morðinginn, veit hvað gerðist eftir að Charlene kvaddi móður sína með kossi á biðstöð strætisvagna klukkan 19.15.

8.

Vafamál: Það er kannski ekki að furða að hún hafi hlegið því eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan samanstóð salatið af hráum lauk og tómötum og engu öðru.“ Frétt í dv.is

Athugasemd: Ofmælt er að ofangreind tilvitnun sé úr frétt, þetta er einhvers konar „ekkifrétt“ um stúlku sem fékk ekki það sem hún pantaði á veitingastað einhvers staðar úti í heimi. Illa skrifandi „fréttamenn“ grípa oft til samsetta orðsins „samanstanda“. Matur er oft sagður samanstanda af hinu og þessu í stað þess að segja að milliliðalaust að í réttinum sé þetta eða hitt.

Tillaga: Ekki er að furða þó hún hafi hlegið því eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var salatið ekkert annað en hrár laukur og tómatar.

9.

Vafamál: Clement ráðger­ir að Gylfi fari.“ Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Vissulega er til sagnorðið ‚að ráðgera‘ en það þykir að minnsta kosti ekki gott til notkunar á þennan hátt, er raunar herfilega ljótt. Orðasambandið ‚að gera ráð fyrir‘ kemur að öllu leyti í staðinn. Einnig má nota mörg góð sagnorð eins og að telja, búast, halda og fleiri.

Tillaga: Clement gerir ráð fyrir að Gylfi fari, … telur að Gylfi fari, … býst við að Gylfi fari, … heldur að Gylfi fari og svo framvegis

10.

Vafamál: „„Ég á erfitt með að tjá mig um þetta því það er engin kvörtun á mínu borði,“ sagði Guðjón Ármann í fyrstu. En það var í gær.“ Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Hvers vegna byrjar blaðamaðurinn setningu á samtengingunni ‚en‘? Tilvitnunin skilst ekki. Sagði maðurinn þetta í gær eða á hann við að kvörtunin hafi ekki verið á borði hans í gær en hún sé þar núna? Orðalagið ‚í fyrstu‘ og ‚í gær‘ rugla lesandann svo ekki sé talað um samtenginguna, og úr verður bull. Blaðamaðurinn les því ekki yfir það sem hann skrifar.

Tillaga: Engin tillaga er gerð því þetta skilst ekki.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ágæt hjá þér Sigurður sem gjarnan og tek ég undir athugasemdir þínar varðandi klaufalegar upplýsingar  nígræðinga í fréttamennsku.

 Í máli þínu leifi ég mér þó að gera athugasemd við að aðstæður hafi verið hannaðar við Múlakvísl.  Mun fremur myndi ég telja að aðstæður við Múlakvísl leit til þessarar (sérstöku) hönnunar.  

Hrólfur Þ Hraundal, 10.8.2017 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband