Allt orkar tvímælis ...
29.7.2017 | 11:58
Fáir vitna núorðið í Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor. Oft er ástæða til þess, því andstætt við það sem margir halda, hefur hann oft rétt fyrir sér. Hins vegar hefur áróðurinn gegn Hannesi tekist nokkuð vel. Fæstir þeirra sem atyrða hann hafa lesið nokkurn skapaðan hlut eftir manninn, þekkja ekki skoðanir hans nema að sumt af því sem hann skrifar flokkast undir frjálshyggju. Í raun og veru er það heigulsháttur að taka ekki undir það sem vel er sagt af heilum hug.
Ekkert kemur í veg fyrir, að aðgerð hafi tvennar afleiðingar, þar sem aðeins önnur var ætlunarverk og hin ekki. Þetta er í kaþólskri heimspeki kallað lögmálið um tvennar afleiðingar. Til dæmis kann tilraun til að bjarga lífi þungaðrar konu fyrirsjáanlega að valda fósturláti, en sú afleiðing var ekki ætlunarverk og aðgerðin þess vegna ekki nauðsynlega fordæmanleg af þeirri ástæðu.
Þetta skrifar Hannes í vikulegan dálk sinn í Morgunblaði dagsins og birtir líka í bloggi á vefritinu pressan.is. Íslenski málshátturinn Allt orkar tvímælis þá gjört er, styður þessa kenningu og bendir á að hún er síður en svo óþekkt.
Mér finnst tilvitnunin nokkuð athyglisverð og beinir hugsuninni meðal annars að einstrengingslegum áróðri. Flest allt hefur tvennar ef ekki fleiri afleiðingar. Það sem sagt er á einn hátt er oft túlkað á annan sem svo sem getur gengið en var þó ekki skilningur þess sem segir eða skrifar.
Á Vísi í dag segir forsvarsmaður þungarokkshátíðarinnar Neistaflugs að hún verði ekki haldin aftur ef brotið verði kynferðislega á einhverjum meðan á henni stendur.
Hann hafði vart sleppt orðinu er hann fær á sig þá gagnrýni að þessi orð muni hugsanlega fæla þolendur frá því að kæra kynferðisbrot, þeir vilji ekki eiga það á samviskunni að hátíðin leggist af.
Án þess að taka afstöðu má fullyrða að þetta er ágætt dæmi um tvennar afleiðingar. Ég trúi því að forsvarsmaðurinn hafi sagt þetta af góðum hug og hafi varla leitt hugann að öðru eða talið ósennilegt að sá sem verður fyrir ofbeldi vilji ekki kæra það af ótta við aðrar afleiðingar en þær sem beinlínis snúa að honum sjálfum.
Þegar einhver tekur afstöðu í því sem er pólitískt vandamál þá er sagt að tilgangur hans sé allt annar. Fjöldi dæma eru til um þetta. Stjórnmálamenn taka afstöðu, leggja til dæmis fé á fjárlögum til að endurbæta einhvern veg, til dæmis veginn fyrir Skaga. Árlega í tíu eða tuttugu ár er fé lagt til vegarins. Gagnrýnendur geta þá fullyrt að með því að leggja einu sinn til tífalt árlegt framlag væri hægt að leggja varanlegt slitlag á veginn og eftir það kosti viðhald hans aðeins örlítið fé á hverju ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.