Skammast sín fyrir íslenskuna og kalla gistihúsið Lighthouse Inn

Nýtt hótel hefur verið tekið í notkun í Garði á Suðurnesjum. Eitthvað undarlegt er samt við þetta hótel. Ekki að það er bjálkahús úr finnsku eðaltimbri eins og segir í frétt í Morgunblaði dagsins. Nei, það er eitthvað annað því aldrei kom til greina að byggja steinsteypt hús.

Eigendurnir eru hörkuduglegir. Þeir fengu kunnáttumenn til verksins, verkfræðistofuna Riss, sérstakt íslenskt orð. Í næsta nágrenni er veitingahúsið Röstin og kaffihúsið Flösin og svo er þarna Garðskagaviti og ábyggilega fleiri fyrirtæki kennd við íslenska náttúru

Það eru hörkunaglar sem reisa gistihús fyrir ferðamenn í Garði og hugsa til allra smáatriða í byggingunni og rekstrinum. Fengu sex Finna, ramma að afli, til að reisa húsið.

Í fagurri íslenskri náttúru og einstöku umhverfi dettur eigendunum það eitt í hug að kalla gistihúsið LIGHTHOUSE INN.

Ligthouse inn. Hvað er eiginlega að þessum bræðrum sem eiga þetta gistihús og reka? Á íslensku þýðir Lighthouse einfaldlega Viti. Er engin ærleg taug í þeim?

Nei, Viti er ekki nógu gott orð. Íslenskan nær auðvitað ekki þessum fögru blæbrigðum enskrar tungu sem dregur að sér útlenda ferðamenn.

Og auðvitað sækja útlendir ferðamenn frekar í þjónustu sem ber ensk heiti. Þetta á við norðurlandabúa, Þjóðverja, Frakka, Spánverja, Ítali og jafnvel Kínverja. Í þokkabót vita allir að Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn hafa ekki áhuga á menningu þeirra landa sem þeir heimsækja, vilja bara ástkæra og ylhýra enskuna.

Nei, auðvitað er þetta einber aumingjaskapur í eigendum Lighthouse Inn. Þeir reka naglann í líkistu þjóðtungunnar rétt eins og eigendur Air Iceland Connect. Þetta lið fyrirverður sig fyrir íslenskuna og því er skömm þeirra mikil.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hin barnalega og hallærislega dýrkun á enskunni er ömurleg. 

Til dæmis þegar heyra má í útvarpsfréttum nafn annars af tveimur knattspyrnufélögum Spánar borið fram "Ríl Madrid." 

Ómar Ragnarsson, 1.6.2017 kl. 09:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband