Hross sem skemma göngustíga og kúka á þá

DSC_1236Tveir hópar ættu aldrei að sjást í Heiðmörk, þeirri yndislegu paradís fyrir útivistarfólk. Annars vegar eru það vélhjólapeyjar og hins vegar hestamenn. Sem betur fer eru báðir þessir hópar frekar sjaldgæfir á göngustígum en þó hef ég rekist á þá báða mér og fleirum til mikils ama.

Göngustígar í Heiðmörk eru ekki fyrir vélhjól, þau eyðileggja þá, spæna þá upp.

Reiðhjólkafólkið skemmir hins vegar lítið. Flestir fara varlega og sumir syngja í kröppum blindbeygjum. Slíkt hjálpar nema þeim sem halda að skylt sé að loka augunum og taka undir. Þeir læra þó af reynslunni.

Hestar eiga ekki að vera á göngustígum í Heiðmörk. Þeir tæta göngustígana upp og gera göngufólki, hlaupurum og jafnvel hjólafólki erfitt fyrir.

DSC_1239Ég var í Heiðmörk í dag og tók þá þessar myndir. Hófaförin leyna sér ekki. Mölin í stígnum hafði rótast upp og viðspyrnan fyrir göngumanninn var þung. Tek það fram að þetta var eins á einum legg af mörgum, þó er hann um 1,5 km.

Einu sinni mætti ég reiðmanni á afar þröngum göngustíg í Heiðmörk. Hann var einstaklega kurteis, sagði þó ekki orð, nikkaði eins og við værum kunningjar. Hesturinn var hofmóðugur, lét sem hann sæi mig ekki, hvað þá að hann bæri kennsl á mig, sem hefði líklega verið skrýtið.

Annar okkar þurfti snögglega að vægja og hrökklast út í lúpínuna. Lesandinn má geta hvor okkar það var.

Svo hurfu báðir bókstaflega út í buskann en um leið sýndi annar þeirra göngumanninum þá fyrirlitningu að kúka hressilega á stíginn. Við því átti ég ekkert svar, var bara orðlaus, sem gerist stundum. Þá fannst mér kominn tími til að fara heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heiðmörkin er yndisleg og nærri þéttbýlinu. Paradís fyrir fáa sem kunna vel að meta. Nú með fuglasöng smáfugla og vinalegri rjúpu að fara úr vetrabúningi. Hestamenn eru með sínar götur og oftast betur gert við þá en göngufólk. Hjólreiðamenn eru mest á malbikinu. Ef þeir fara of hratt getur maður oftast með handahreyfingum látið þá vita. Þú ættir að tala við hestamenn á staðnum ef þér mislíkar.

Sigurður Antonsson (IP-tala skráð) 21.5.2017 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband