Borgarlína réttlætt með fantabrögðum og fjárkúgun
11.5.2017 | 18:47
Danska fyrirtækið vann svonefnda valkostagreiningu vegna ákvarðana um endanlega legu borgarlínunnar. Um er að ræða fyrirhugað kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við fyrsta áfanga er áætlaður 30-40 milljarðar 2019-2022 og heildarkostnaður 44-72 milljarðar.
Þetta segir í fréttaskýringu í Morgunblaði dagsins. Rætt er um svokallaða borgarlínu, lest sem á að ganga á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu ábyggilega öllum til hagsbóta. Til að skýrslan sýnist nú gáfulegri en hún í raun og veru er finna höfundar upp rassböguna valkostagreining.
Byrjum á rassbögunni. Ekkert er til sem heitir valkostur, orðið er samsetning tveggja orða sem þýða nokkurn veginn það sama, þó er á þeim blæbrigðamunur. Þetta er eins og að eitthvað sé kallað skýrsluritgerð og í framhaldinu skýrsluritgerðargagnrýni. Eða vinnuhóp nefndarvinnusamkomu.
Borgarlínan borgar sig ekki. Á henni yrði mikill halli. Til þess að ná rekstrarlegu núlli þurfa fleiri að nota sér hana heldur en kannanir benda til. Til að ná núllinu er gripið til þess að svindla, svona rétt eins og þegar einhver fer halloka í íþróttum þá étur viðkomandi stera eða eitthvað álíka eða þá að hann byrlar keppinautinum ólyfjan.
Umrædd greining á kostum vegna borgarlínu byggist samkvæmt fréttaskýringunni á því að gera bílaumferð illmögulega í borginni, skítt með þarfir og óskir þeirra sem eiga bíla. Með illu skal illt út reka, segir einhvers staðar. Með fantabrögðum má auðvitað fá þá útkomu sem óskað er. Þetta er ekkert annað en svindl.
Trúr þessu er borgarstjórnarmeirihlutinn að spilla fyrir bílaumferð eins og mögulegt en leynir fantabrögðunum með svona blíðlega saminni skýrslu um valkostagreininguna.
Nýjasta dæmið um svona brögð er lokun Geirsgötu og þrenging Miklubrautar vegna framkvæmda. Meirihlutinn veður í verkefnin og honum kemur ekkert við hverjar afleiðingarnar eru. Taktu strætó, hjólaðu eða gakktu, segir meirihlutinn af hroka sínum, og bætir við af yfirlæti bíll er úrelt þing í borginni.
Í skýrslu vinnuhóps um borgarlínu er reynt að finna upp aðferðir til að gera hana álitlegri. Þar heita fantabrögðin hamlandi en gagnlegar aðgerðir. Þýtt á íslensku er hér um að ræða skemmdarverk á götum og akandi umferð í einkabílum.
Aðferðirnar eru meðal annars þessar:
- Stýra umferðarhraða ... á íslensku þýðir þetta að lækka hraðann og tefja þannig fyrir umferð.
- Takmarka bílastæði í miðborginni ... sem þýðir: Gera fólki erfitt fyrir.
- Hækka gjald fyrir bílastæði ... sem þýðir: Auka kostnað bíleigenda sem finna bílastæði.
- Leggja á tolla eða veggjöld ... sem þýðir: Fjárkúgun, ef þú villt eiga bíl skaltu borga.
Sá sem þetta ritar telur að nokkur atriði hafi gleymst í valkostagreiningarnefndarskýrsluritgerðinni. Hér eru nokkur þeirra sem gera borgarlínuna enn álitlegri:
- Breyta bílastæðahúsum í kaffihús og myndlistagallerí
- Gera kröfu til þess að aðeins þriggja hjóla bílar megi nota bílastæði í Reykjavík
- Konur megi aka í miðborg Reykjavíkur annan hvern dag og karla hinn
- Akstur bíla með færri farþegum en tveimur verði bannaður, alls staðar í Reykjavík
- Hvítum og gráum bílum skal bannað að aka vestur fyrir Elliðaár, þeim skal lagt á Geirsnefi, ekkert gjald tekið.
Með bókhaldsbrellum má sýna þá niðurstöðu sem beðið er um. Menn hafa verið dæmdir fyrir slíkt hér á landi.
Auðvitað er þetta allt tóm vitleysa sem og þessi valkostagreining. Hér er ekkert minna um að ræða en árás á þá sem eiga bíl. Með fantabrögðum á að reikna borgarlínuna á núllið.
Þetta snýst ekki um hatur gagnvart einkabílnum, þvert á móti. Þetta snýst um að hafa raunverulega valkosti, bíll er lúxus - ekki mannréttindi. Bíll er ekki, og á alls alls ekki að vera, félagslegur aðgöngumiði að mannlegu samfélagi. Um þessar mundir eru um 130 þúsund bílar á höfuðborgarsvæðinu. Það eru fleiri bílar heldur en fólk sem er actually með bílpróf!
Þetta er af Facebook,viðhorf vinstri manna, öfgafullra vinstri manna. Hér er blandað saman óskyldum málum, frösum er kastað fram í því skyni að gera lítið úr sjálfsákvörðunarrétti hvers manns, réttinum til að gera það sem hver fjölskylda telur sér fyrir bestu. En ... nei. Alltaf koma einhverjir sem vita hvað manni er fyrir bestu og krefjast þess að fá að ráða.
Það sem vinstri meirihlutinn í borgarstjórn skilur ekki er einfaldlega sjálfsákvörðunarréttur hvers einstaklings. Sá sem vill eignast bíl kaupir hann, það er réttur hvers manns, nákvæmlega eins og sá sem kýs að ganga, taka strætó eða hjóla.
Borgarstjórn sem reynir hins vegar að bregða fæti fyrir borgarbúa til þess að gera einum ferðamáta hærra undir höfði en öðrum er ekki starfi sínu vaxin.
Svokölluð borgarlína er ekki mannréttindi þegar til hennar er stofnað með því að útrýma öðrum kostum. Þetta eru fantabrögð sem byggjast á fjárkúgun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Borgarlína er enn eitt ruglið, sambærilegt við Sandeyjarhöfn og Vaðlavatnagöng. Sett er upp exelskjal, staðreyndum (þeim sem eru til staðar) er hagrætt örlítið, dregið aðeins úr ýmsum kostnaðarliðum og bætt í tekjuliði og síðan margfeldistölur örlítið hækkaðar. T.d. er bætt nokkrum dögum við árið, svo vænlegri niðurstaða fáist. Rannsóknum er haldið í algeru lágmarki, enda gætu þær stórskaðað niðurstöðuna.
Og jafnvel þó slíkum brögðum sé beitt, ná snillingarnir ekki hagstæðari tölu í borgarlínuna en svo að til þarf heila 70 milljarða í verkið, stór hluti þess skal koma frá ríkissjóð og hitt úr sjóðum sveitarfélaga. Nánast ekkert að marki mun koma frá þeim sem ætla að nýta sér þessa "línu".
Ekki er enn komið í ljós hversu mikið Sandeyjarhöfn fer fram úr áætlunum og mun sennilega aldrei verða vitað. Vaðlavatnagöng eru þegar komin 40% fram úr áætlunum og því lofað að meiri ábyrgðum ríkissjóðs verði ekki varið í verkið. Við sjáum til.
Borgarlína mun alveg örugglega fara langt yfir áætlun. Hversu langt mun tíminn leiða í ljós.
En ef við höldum okkur bara við áætlunina, 70 milljarðana. Hversu mikið mætti bæta gatnakerfið á höfuðborgarsvæðinu fyrir þann pening, mislæg gatnamót og fleiri akreinar sem myndu leiða til greiðari umferðar og mun minni mengunar? Þetta þurfi ekki að skerða á neinn hátt áframhaldandi uppbyggingu reiðhjólastíga, enda virðist vera nægir peningar til innan borgarsjóðs til slíkra framkvæmda.
Við erum fámenn þjóð í strjálbýlu landi. Jafnvel þéttbýlasta svæðið, höfuðborgarsvæðið, er fámennt og strjálbýlt miðað við erlendar borgir. Allt tal um að einkabíllinn sé eitthvað stöðutákn er út í hött. Einkabíllinn er fyrir flesta landsmenn nauðsyn, þó finna megi einhverja einstaklinga sem vilja hefta sig við miðborg Reykjavíkur.
Gunnar Heiðarsson, 12.5.2017 kl. 09:11
Það er einkennilegt að svona ofurdýr framkvæmd sé ekki sett í atkvæðagreiðslu íbúanna/skattgreiðendanna. Og þá í framhaldi af könnunum í hverju sveitarfélagi fyrir sig EF almenningur sýndi framkvæmdinni áhuga.
Kolbrún Hilmars, 12.5.2017 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.